Varaflugvellir fyrir millilandaflug
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég vil bara taka það fram að það er nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á því annars vegar þegar unnar hafa verið vandaðar rannsóknir sem byggja m.a. á langtímaskoðun eða skoðun á t.d. veðurfarsaðstæðum yfir langan tíma, fleiri ár, jafnvel áratugi, og tölulegum upplýsingum úr flugi sem spanna mjög löng tímabil og því hins vegar að gera svona samanburð á truflunum á flugi yfir þriggja mánaða tíma þegar veðurfar var reyndar mjög afbrigðilegt. Ég vil líka vekja athygli á því að hér er í raun verið að bera saman að verulegu leyti ósambærilega hluti. Það er t.d. verið að bera saman brautarskilyrði á stuttum malarflugvöllum við það sem verða kynni á lengri brautum með bundnu slitlagi o.s.frv. o.s.frv. Það er því ekki vegna þess að vinnu sé almennt ábótavant eða ekki hafi verið ýmislegt gert til að reyna að meta sem best aðstæður á flugvöllum í framtíðinni sem ég hef þessa skýru fyrirvara, heldur fremur vegna þess að það sem spurt er um er þannig í eðli sínu að nauðsynlegt er að menn geri sér grein fyrir því hvaða takmörkunum svörin hljóta að vera háð.