Lán handrita á sýningar erlendis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegur forseti. Það er alkunna að íslenska þjóðin er ekki auðug að fornminjum. Ekki hafa fundist hér ríkmannlega búnar grafir eins og víða í nálægum löndum, heldur má segja að einkenni á fornum gröfum á Íslandi sé hversu fátæklegur sá umbúnaður er. Hér standa engar rismiklar byggingar eða mikil byggingarsöguleg listaverk eins og víðast hvar annars staðar. Það má segja að verðmætustu og nánast einu minjar Íslendinga um sögu sína séu að finna á nokkrum páruðum línum á fornu blaði. Fornu íslensku skinnhandritin sem eru ekki aðeins svo til einu menjarnar sem við eigum um okkar sögu, heldur jafnframt menningararfleifð allra norrænna manna. Þessi fornu skinnhandrit voru um margar aldir geymd fjarri Íslands byggðum og tók langa og stranga baráttu og mikla fórnfýsi granna okkar einnig að fá þessi handrit aftur til landsins. Og ég held að engum sem man eftir þeirri miklu þjóðhátíð sem var hér þegar handritin komu aftur heim hafi komið til hugar annað en að nú yrðu þessir þjóðardýrgripir varðveittir á Íslandi um ókominn aldur. Það kom mér því nokkuð á óvart og sjálfsagt fleirum þegar í tiltölulega litlum fréttum, innblaðsfréttum, í sumar var skýrt frá því að til stæði að lána forníslensk handrit burt úr landinu á sýningu í bænum Tórínó á Ítalíu. Og í hópi þeirra sýningargripa sem þarna mundu fara yrði Skarðsbókarhandrit postulasagna, en eins og menn muna þá var það sú bók sem Seðlabanki Íslands keypti fyrir ærið fé á alþjóðlegum uppboðsmarkaði í samkeppni við fornmunasafnara og færði íslensku þjóðinni sérstaklega að gjöf. Var sérstaklega fram tekið í fréttum að meðal þeirra handrita sem ætti nú að lána úr landinu væri þessi bók.
    Mín afstaða, virðulegi forseti, er sú að ekki sé rétt að lána slík handrit burt af landinu. Þá skiptir ekki máli, virðulegi forseti, hvort teknar eru þar miklar eða litlar tryggingar vegna þess að ef slíkar bækur glatast eða skemmast er það óbætanlegt tjón fyrir íslensku þjóðina og fyrir óborna þegna hennar. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja á þskj. 582 fsp. þessu að lútandi til hæstv. menntmrh. Þessar fsp. eru prentaðar í þingskjalinu svo að ég tel ekki ástæðu til að lesa þær hér.