Lán handrita á sýningar erlendis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hvaða reglur gilda um lán íslenskra handrita úr eigu Stofnunar Árna Magnússonar á sýningar erlendis?`` Svarið er: Það hafa ekki verið settar ákveðnar reglur um lán handrita úr Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi á sýningar erlendis. Til þessa hafa skinnbækur úr stofnuninni aðeins einu sinni verið léðar úr landi til annarra staða en Kaupmannahafnar. Það var til Pierpont Morgan bókasafnsins í New York árið 1982 í tengslum við hina norrænu menningarkynningu sem þá fór fram í Bandaríkjunum.
    Að fengnu samþykki þáverandi ríkisstjórnar voru lánuð 16 handrit úr Árnastofnun, auk eins handrits úr Landsbókasafni og tveggja skjala úr Þjóðskjalasafni, einnig gripur úr Þjóðminjasafni og nokkrar prentaðar bækur.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Telur ráðherra rétt að ómetanlegir dýrgripir meðal íslenskra fornrita, svo sem eins og Skarðsbók, séu lánaðir með þeim hætti sem gert hefur verið til sýninga erlendis?``
    Á sl. sumri samþykkti þáv. ríkisstjórn að lánuð yrðu fimm handrit úr Árnastofnun á Íslandssýningu sem fyrirhugað er að halda í Tórínó á Ítalíu núna í apríl. Handritin eru öll úr flokki þeirra sem voru á fyrrgreindri sýningu í New York og er um að ræða eftirtalin handrit:
     1. Pappírshandrit Íslendingabókar frá sautjándu öld.
     2. Blað úr skinnhandriti að Njálssögu sem talið er vera frá því um 1300.
     3. Skarðsbók postulasagna, skinnhandrit sem talið er vera frá því um 1360. Tekið skal fram að hér er um að ræða handrit það sem keypt var í Lundúnum árið 1965, en ekki Jónsbókarhandritið sem einnig gengur undir nafninu Skarðsbók og gefið var úr ljósprentað í litum árið 1981.
     4. Physiologus, tvö skinnblöð, þýðingar úr latínu með náttúrufræðilegu efni. Handritið er talið vera frá ofanverðri 12. öld.
     5. Svalbarðsbók, eitt margra skinnhandrita af Jónsbók, talið ritað snemma á 14. öld.
    Auk þess verður á sýningunni eintak af Guðbrandsbiblíu og 15 veggspjöld með myndum úr handritum.
    Ég tel lán á sumum framangreindra handrita geta orkað tvímælis, en ég endurtek að um þetta hafa engar reglur verið til og ákvörðun um þetta var tekin fyrir allmörgum mánuðum, þ.e. á sl. sumri. Auðvitað skal það tekið fram að gerðar verða strangar öryggis- og varúðarráðstafanir um flutning handritanna og gæslu þeirra á sýningarstað.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Er ráðherra tilbúinn til að setja reglur til þess að tryggja að handrit íslenskra fornrita, sem á Íslandi eru geymd, verði ekki flutt þaðan burtu?``
    Það er almennt talið vafasamt að leggja blátt bann við öllum lánum á íslenskum fornhandritum til sýningar erlendis, enda geta þau verið mikilvæg í því skyni að kynna menningu okkar, tungu og bókmenntir

meðal annarra þjóða. Það hefur einnig á undanförnum árum orðið æ algengara að lána milli landa til sýningar gripi sem teljast til mestu dýrgripa veraldar. Ég tel hins vegar sjálfsagt og nauðsynlegt að gæta mikillar varúðar og íhaldssemi í þessu efni og mun beita mér fyrir því, og hef reyndar þegar gert það gagnvart stofnuninni, að settar verði skýrar reglur í þessu efni. Ég tel eðlilegt að þær verði með þeim hætti að því verði slegið föstu að tiltekin handrit, tilteknir dýrgripir, megi aldrei fara úr landi. Ég tel þess vegna að hér sé hreyft mikilvægu máli og þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir það að koma með málið inn í þingið og benda á mikilvægi þess að um málið séu settar skýrar og afdráttarlausar reglur.