Lán handrita á sýningar erlendis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Mér þykir rétt að gera hér örfáar athugasemdir þar sem ég átti hlut að máli varðandi þá ákvörðun sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, þ.e. lán á handritum til sýningar á Ítalíu.
    Það hafa engar fastar reglur verið til um þetta eins og fram kom hjá hæstv. menntmrh. Þess vegna hefur það verið talið nauðsynlegt í tilvikum eins og þessum að að baki liggi samþykkt ríkisstjórnar í heild og svo var í þessu tilviki. Tillögur um hvaða handrit ætti að lána komu frá Handritastofnun og að sjálfsögðu áskilið að að öllu yrði farið með gát, bæði varðandi flutning og að maður fylgdi með.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt fyrir Ísland og Íslendinga að kynna íslenska menningu, bæði forna og nýja, með skipulegum hætti úti í heimi. Við verðum vör við það að það ríkir ótrúleg vanþekking á Íslandi og íslenskri menningu jafnvel meðal okkar næstu nágranna. Og ég er sannfærður um það að því betur sem umheimurinn þekkir íslenska menningu, því meiri líkur eru á því að fleira fylgi á eftir eins og t.d. aukin viðskipti sem eru okkur mikilvæg. Það er enginn vafi á því að það er vaxandi áhugi á því að íslensk handrit fari á sýningar erlendis, ég hef orðið mjög var við það. Ég tel þess vegna að nauðsynlegt sé að setja um þetta ákveðnar reglur sem markist af hæfilegri íhaldssemi en þó ákveðnu frjálslyndi í þessum efnum. Ég er t.d. sammála að það séu ákveðnir dýrgripir sem aldrei megi flytja úr landi, en ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að við höfum ákveðin handrit sem við séum tilbúin með fullri gát að senda til sýninga úr landi. Auðvitað þarf það allt að styðjast við umsagnir og álit þeirra sem varðveita þessi menningarverðmæti okkar og hafa nánasta tilfinningu fyrir þeim eins og t.d. forstöðumaður Handritastofnunar, en ég tel engu að síður nauðsynlegt að við séum tilbúin að kynna íslenska menningu með þessum hætti.
    Ég segi til dæmis að lokum, virðulegi forseti: Ég átti viðtal við menningarmálaráðherra Breta á sl. vori þar sem við ræddum um hugsanleg nánari menningarsamskipti Íslands og Bretlands og ég var í því sambandi m.a. með í huga að koma íslenskri málverkasýningu til Bretlands sem gæti að einhverju leyti fengið stimpil breskra stjórnvalda. Hann sagði: Í Bretlandi er nú mikill áhugi á fornri menningu alls konar og ég er sannfærður um það að sýning á íslenskum nútímamálverkum yrði mun áhrifameiri, mundi vekja mun meiri áhuga og kynna íslenska menningu mun betur ef hægt væri að hafa sambland af íslenskri nútímalist og fornum handritum. Þetta var hans álit og ég er þess vegna ekki í neinum vafa um það að það mun fara vaxandi að óskað sé eftir íslenskum handritum til sýninga erlendis og þess vegna tel ég nauðsynlegt að setja um þetta fastar reglur, en þær reglur verði að vera blanda af íhaldssemi og frjálslyndi.