Mannvirkjasjóður NATO
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykn. spyr: ,,Hver yrði árlegur kostnaður Íslendinga ef þeir gerðust fullgildir aðilar að Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins?``
    Svar mitt er þetta: Framlög aðildarríkja Mannvirkjasjóðsins miðast við þjóðartekjur og fólksfjölda. Ef Ísland gerðist fullgildur aðili að sjóðnum mætti búast við að hlutfall Íslands í heildarframlögum til sameiginlegs hluta hans yrði um 0,185%, en það er sama hlutfall og t.d. Lúxemborg greiðir nú. Heildarframlög eru reiknuð með tilliti til framkvæmda hverju sinni. Áætlun Mannvirkjasjóðsins tekur að jafnaði til sex ára í senn og er framkvæmdum skipt í flokka eftir tegundum mannvirkja. Áætlanir hafa þegar verið gerðar fyrir árin 1985--1990 í þeim flokki framkvæmda sem Ísland hugsanlega gæti varðað. Væri ráð fyrir því gert að hlutdeild Íslands í sameiginlegum kostnaði af framkvæmdum þessum væri hlutfallið 0,185% mundi framlag Íslands nema um 38 millj. ísl. kr. á ári eða 226 millj. fyrir sex ára tímabil í heild. Gerðist Ísland fullgildur aðili að Mannvirkjasjóðnum hefði það í för með sér að Ísland en ekki Bandaríkin yrði opinbert gistiland framkvæmda af hálfu sjóðsins hér á landi. Við slíkar aðstæður þyrfti að semja í hverju einstöku tilviki um skiptingu kostnaðar milli Íslands og Mannvirkjasjóðsins og kæmi sá kostnaður til viðbótar framlögum til sameiginlegs hluta sjóðsins.
    Engin algild hlutfallsregla á við í því efni né heldur er samið í hverju tilviki. Mannvirkjasjóðurinn hefur t.d. greitt að fullu fyrir byggingu flugvalla Atlantshafsbandalagsins í afskekktum byggðarlögum Noregs, mannvirkja sem ekki þjóna almennri flugumferð nema að mjög takmörkuðu leyti. Á hinn bóginn hafa önnur ríki, þar á meðal t.d. Ítalía og Danmörk, tekið á sig að greiða mjög lítinn hluta kostnaðar vegna byggingar flugvalla bandalagsins í þeim löndum, enda þjóni þau mannvirki almennri flugumferð jafnframt. Ýmis óbeinn kostnaður mundi bætast við beinan kostnað vegna sameiginlegs hluta sjóðsins og hugsanlegra framkvæmda á Íslandi. Aðild að sjóðnum fylgir m.a. sú kvöð að taka þátt í störfum mannvirkjasjóðsnefndar og fjárhags- og þróunarnefndar, en þessar nefndir fást við langtímaáætlanir Mannvirkjasjóðsins og taka afstöðu til einstakra framkvæmda. Þátttaka í slíkri starfsemi mundi óhjákvæmilega hafa í för með sér aukin umsvif og nokkurn kostnaðarauka fyrir utanrrn.