Mannvirkjasjóður NATO
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir góð svör við þessu og þær upplýsingar sem þar koma fram sem eru mjög fróðlegar og ég held að þær hvetji okkur til þess að huga meira að þessum málum og íhuga hvort við ættum e.t.v. ekki að gerast fullgildir aðilar að þessum sjóði. Það er svo að við erum sjálfstætt og fullvalda ríki og einhvern veginn mundi það falla betur að mínu skapi að við semdum sjálfir um þessar framkvæmdir og værum fullgildir aðilar eins og t.d. Noregur hefur gert. Ég tel að það yrði mikið framfaraspor og mundi girða fyrir ágreining um hlut Bandaríkjamanna að þessu leyti. Það er sjálfsagt að við könnum þessi mál og ég óska eftir því við hæstv. utanrrh. að hann skoði þessi mál nánar og líti á það hvort það er okkur þénugt að gerast fullgildur aðili að þessum sjóði.