Mannvirkjasjóður NATO
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég tel að ekki sé á það bætandi sem gerst hefur í sambandi við uppbyggingu hernaðarmannvirkja hérlendis og andmæli öllum sjónarmiðum um það að Ísland fari að gerast þátttakandi í slíkri mannvirkjagerð eins og skilja mátti á hv. fyrirspyrjanda. Ég vil benda á í þessu sambandi að Ísland ver átakanlega lágu hlutfalli til þróunaraðstoðar. Ætli renni ekki eitthvað svipað til þróunaraðstoðar og það sem hæstv. ráðherra var að upplýsa að væri árlegur kostnaður af þátttöku Íslands í fullri aðild að Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins? Ætli það væri ekki nær fyrir Alþingi Íslendinga að ræða það og reyna að spyrna í í sambandi við framlög Íslands til þeirra ríkja sem fátækust eru í heiminum, rétta svolítið af í þeim efnum því að þar hefur þróunin verið gersamlega í öfuga átt við það sem Alþingi ályktaði um fyrir nokkrum árum?