Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvað gert hafi verið í framhaldi af afgreiðslu tveggja þáltill. sem fluttar voru á árinu 1987, annars vegar um eflingu fiskeldis sem vísað var til ríkisstjórnarinnar í mars 1987 og hins vegar um verðsveiflur í loðdýrarækt sem samþykkt var sem ályktun Alþingis 18. mars á sama ári.
    Varðandi tillöguna um eflingu fiskeldis, þá var sú tillaga um það að láta vinna að því ötullega að fiskeldi gæti orðið búgrein á þeim jörðum sem til þess hafa náttúruleg skilyrði og að að því skyldi unnið með eftirfarandi hætti og síðan var það sundurliðað í fjórum liðum og ég mun þá svara út frá þeim liðum:
    Í fyrsta lagi var lagt til að kannað skyldi með skipulegum hætti í hvaða héruðum og á hvaða jörðum fyndist nægilegt og heppilegt heitt og kalt vatn. Svarið er það að það er tæplega tímabært að svo stöddu að leggja í mikinn kostnað eða víðtæka könnun á aðstæðum á mörgum stöðum fyrr en betur skýrist hvernig fiskeldi gæti orðið atvinnugrein hjá bændum og hvaða framtíð það á sem raunverulegur atvinnuvegur. Rétt er líka að taka fram að áður en unnt er í raun og veru að kanna staðbundnar aðstæður er nauðsynlegt að auka rannsóknir og afla meiri vitneskju um ýmsar grunnforsendur, svo sem eins og efnafræði kalda vatnsins og volga vatnsins, dreifingu þess og ýmis eðlislæg skilyrði. Þessum hlutum er sem betur fer núna sinnt með nokkuð myndarlegri hætti en áður var og satt best að segja var það þannig lengst af, fram á hin síðustu ár, að menn reiknuðu ekki með og viðurkenndu ekki kalda vatnið og jafnvel volga vatnið sem auðlind. Það rann til sjávar eins og verið hafði um ár og aldir og menn svona gáfu sér það að svo mundi áfram verða og mikið meira var ekki um það sagt. En staðreyndin er auðvitað sú að þarna liggur bundin ein okkar mesta auðlind, sem er hið mikla magn af fersku vatni, köldu og volgu, sem án efa á eftir að verða í framtíðinni í vaxandi mæli nýtt sem slík. Rannsóknir jarðfræðinga og jarðefnafræðinga höfðu fyrst og fremst, hvað efnafræði og eðlisfræði snertir, snúist að eiginleikum heita vatnsins og jafnvel þá fyrst og fremst háhitans og heits vatns niður að þeim mörkum sem talið var nýtanlegt til hitaveitna. Nú hefur þetta sem betur fer breyst og m.a. má þar benda á að hv. Alþingi samþykkti í fyrra nýja stöðu við Háskóla Íslands, ég hygg Raunvísindastofnun, sem sérstaklega er ætlað að rannsaka efnafræði og eiginleika kalds vatns og volgs. Í framhaldi af slíku og samhliða slíku tel ég að tímabært verði að leggja meiri áherslu á könnun á aðstæðum í einstökum héruðum.
    Í öðru lagi var lagt til að komið yrði á kennslu í matfiskeldi við báða bændaskólana og að á Hvanneyri skyldi koma upp matfiskeldisstöð. Svarið er það að kennsla í matfiskeldi fer fram á báðum bændaskólunum, en þó hefur verið ákveðið, öfugt við það sem lagt var til í þessari þáltill., að Bændaskólinn á Hólum í Hjaltadal verði miðstöð og hafi forustu í

þeim málum og þess vegna hefur ekki verið komið upp mikilli aðstöðu á Hvanneyri. Þess má svo geta að við skólann á Kirkjubæjarklaustri er starfrækt fiskeldisbraut og í báðum skólunum, þ.e. á Hólum í Hjaltadal og á Kirkjubæjarklaustri, hafa verið haldin sérstök námskeið sem lúta að efni þáltill. sálugu, þ.e. fræðslu til bænda á þessu sviði, og haldin hafa verið sérstök námskeið fyrir bændur.
    Í þriðja lagi var í tillögunni vikið að því að Veiðimálastofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins yrði gert kleift að vinna í sameiningu að rannsóknum og kynbótum í matfiskeldi, þar á meðal kynbótum á laxi til eldis í fersku vatni. Svarið er að Veiðimálastofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins vinna saman að ýmsum tilraunum nú þegar sem tengjast fiskeldi, en eldi laxa í ferskvatni hefur helst verið reynt hjá fyrirtækinu Árlaxi í Kelduhverfi og Veiðimálastofnun hefur fylgst með þeim tilraunum sérstaklega.
    Í fjórða lagi var lagt til að leiðbeiningaþjónustu yrði komið á í fiskeldi, einkum matfiskeldi með því að Búnaðarfélagi Íslands yrði gert kleift að ráða landsráðunaut í matfiskeldi og búnaðarsamböndum að efla leiðbeiningaþjónstu sína þannig að þau gætu einnig sinnt þessari grein meðal bænda sem hafa möguleika til fiskeldis. Og svarið er: Búnaðarfélag Íslands hefur þegar ráðið til sín ráðunaut í fiskeldi og hefur hann unnið mikið fyrir bændur og félög þeirra. Kunnátta annarra ráðunauta Búnaðarfélagsins hefur nýst vel í þessu sambandi og má þar nefna hagfræði-, bygginga- og vatnsveituráðunauta. Almennt má segja að bæði Veiðimálastofnun og Búnaðarfélagið hafi unnið að þessum málum, einkum bleikjueldi meðal bænda sem virðist lofa góðu þótt enn sé kannski fullsnemmt að segja þar til um niðurstöður. Þá má líka minna á almennar aðgerðir til stuðnings fiskeldinu í heild sem bætir að sjálfsögðu einnig stöðu þessarar greinar að því leyti til sem hún getur orðið og vonandi verður vaxandi atvinnugrein meðal bænda.
    Þá var í síðara lið fsp. spurt um tiltölulega óskylt atriði og það er nú vinsamleg ábending til hv. fyrirspyrjanda og annarra að gjarnan er nú handhægara að skipta þá slíkum fsp. upp í tvennt þannig að tvöfaldur ræðutími gefist þó til að svara þeim, en ég skal samt reyna í örfáum orðum að svara
hinni síðari spurningunni sem snýr að því hvað orðið hafi um tillögu varðandi verðsveiflur í loðdýrarækt. Svarið er það að nefnd mun ekki hafa verið skipuð eins og fjallað var um í viðkomandi þáltill. Málið hefur hins vegar talsvert verið rætt og kannað, sérstaklega í vetur í tengslum við vinnu að lausn á vanda loðdýraræktarinnar. Þá var m.a. gerður samanburður á þörfum í þessari grein og því fyrirkomulagi sem er hjá Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og öðrum slíkum sjóðum sem helst mega kallast samanburðarhæfir í þessum efnum. Vegna þess brýna vanda sem loðdýraræktin bjó við og býr svo sem við enn þá var ákveðið að grípa tafarlaust til aðgerða og bíða ekki með það að frekar yrði unnið að þessum hugmyndum um

verðjöfnunarsjóð eða verðsveiflusjóð. Þess vegna var til að mynda gripið til niðurgreiðslu á fóðurkostnaði sem segja má að sé svar við þeirri verðsveiflu eða verðlækkun sem loðdýraræktin hefur mætt að undanförnu. Þannig urðu skammtímaaðgerðir til að leysa brýnasta vandann fyrir valinu en áfram verður unnið m.a. að þessum hugmyndum um stofnun verðjöfnunarsjóðs eða verðsveiflusjóðs og það er reyndar mín sannfæring að eitthvert slíkt fyrirkomulag hljóti að þurfa að koma til sem geti byggt á langtímagrunni og tekið á verðsveiflum sem óumflýjanlegar virðast í þessari atvinnugrein.