Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég þakka þær hvatningar sem landbrh. fær til að vinna fast og skipulega og örugglega og halda þétt á þessum málum og það hyggst hann ætla að reyna að gera. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að það er eitt af því sem er mjög brýnt og nauðsynlegt að gert verði að vinna af alefli að því að fá fram fiskeldi sem valkost í atvinnumálum strjálbýlisins. Það á það að geta orðið og vonandi verður svo. Til þess að svo verði þarf að vinna að því máli nánast á öllum sviðum, líka sölumálunum, markaðsmálunum og skipulagi og jafnvel samtakamyndun þeirra bænda eða framleiðenda sem að þessu standa.
    Þeim málum hefur fram að þessu verið sinnt eftir því sem efni og aðstæður leyfa hjá markaðsnefnd landbúnaðarins. M.a. vann markaðsnefnd á síðasta ári allmikið starf að því að markaðssetja afurðir úr fiskeldi, og þá sérstaklega með tilliti til þess hvað orðið gætu framleiðsluvörur úr fiskeldi hjá bændum, og kom þeirri vöru m.a. inn á sýningar erlendis og hefur með ýmsum hætti reynt að sinna því verkefni.
    Hvað varðar það að setja í gang könnun á því hvar aðstæður séu fyrir hendi til fiskeldis, m.a. nægjanlegt vatn og aðrar aðstæður í strjálbýlinu, þá skil ég hv. fyrirspyrjanda svo að hann sé þar að tala um sérstaka könnun sem sett verði í gang og þá e.t.v. á vegum landbrn., er það rétt að slíkt hefur ekki verið gert, en það má þó ekki skilja sem svo að ýmislegt hafi ekki verið að þessum málum starfað. Auðvitað liggja fyrir gríðarlega miklar upplýsingar, eins og reyndar hv. síðasti ræðumaður benti á, m.a. hjá Orkustofnun, ferskvatnsdeildinni þar sem hefur um langt árabil sinnt vatnamælingum og ýmsum slíkum hlutum, og hjá Háskólanum þar sem þessum málum er sinnt meira á vísindalegum grunni, aflað t.d. grundvallarupplýsinga um efnasamsetningu og eiginleika vatnsins. En ég ítreka þó að vegna þess hversu seint menn tóku við sér almennt að hefja skoðun á ferskvatninu og lághitavatninu sem auðlind er enn mikið starf óunnið hvað varðar grundvallarupplýsingar af ýmsu tagi sem hljóta að vera forsendan fyrir frekari kortlagningu og nýtingarmöguleikum í þessu sambandi.
    Ég mun láta athuga hvort tímabært sé að setja af stað sérstaka könnun af því tagi sem fyrirspyrjandi nefndi, en tel þó að enn þurfi að vinna ýmsar grundvallarupplýsingar áður en að slíku verki geti lokið a.m.k.