Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Af ræðu hæstv. samgrh. hér rétt áðan gátum við gert okkur grein fyrir hversu mjög þær umræður sem hér hafa átt sér stað hafa farið í taugar þeirra alþýðubandalagsmanna. Þannig var málflutningur hans hér áðan. Það er vissulega ástæða til þess þegar slíkar yfirlýsingar eru gefnar eins og fram komu hér frá hæstv. forsrh., í svo viðamiklu máli, að um það skapist umræður. Ég held hins vegar að til þess að koma öllu til skila, þeim rangfærslum sem m.a. komu fram í ræðu hæstv. samgrh., þyrfti miklu, miklu lengri tíma og við fáum að sjálfsögðu tækifæri til þess þegar umræður fara fram um utanríkismál áður en langt um líður.
    Þegar hoggið er í embættismenn og sagt, þeir eru hér í hliðarsölum til þess að segja og láta frá sér fara það sem má koma og passa upp á að ekki komi fram það sem ekki má koma, vil ég nú leyfa mér að vísa til þess að oft á tíðum eru hér í hliðarsölum embættismenn ráðherra til þess einmitt að vera til staðar, veita upplýsingar, ekki í þessum málum eingöngu, hér í fjölmörgum málum sem fjallað er um og það er gert til þess einmitt að Alþingi og alþingismenn geti fengið upplýsingar og þær séu á reiðum höndum.
    Ég bendi hæstv. ráðherra á það hver það var sem hóf þessar umræður. Hér hjó hann til sjálfstæðismanna, til þingmanna Sjálfstfl., einfaldlega vegna þess að það voru þeir sem brugðust við og voru reiðubúnir til þess að snúast til varnar í því máli sem hér kom upp. Það voru ekki þeir sem vöktu upp málið, og það var ekki verið að upplýsa eitthvað hér í útvarpi fyrir stuttu síðan, hversu margir varaliðsaðilar kæmu til landsins. Það eru margir mánuðir síðan þetta birtist í Morgunblaðinu og það vissu það allir. Mönnum þótti hins vegar passa, eins og hér hefur verið á bent --- af því að það var verið að minnast 40 ára afmælis eins þýðingarmesta friðarbandalags sem stofnað hefur verið og ég er líka sannfærður um það að það að þetta er tekið hér upp, það hvernig þeir alþýðubandalagsmenn tala, sýnir hvað í raun og veru þeir eru pirraðir út í þetta mjög svo sterka og góða friðarbandalag sem hefur virkilega tryggt það sem það var stofnað til á sínum tíma.
    Það kom eitt fram í ræðu hæstv. samgrh. sem vert er að taka eftir og við munum að sjálfsögðu fylgjast mjög vel með. Hann lýsti því yfir að hann hefði lagt til í ríkisstjórninni að þessar varaliðsæfingar yrðu felldar niður. ( ÞP: Hann meinti nú ekkert með því.) Það var gripið fram í fyrir honum og sagt: Þið munuð að sjálfsögðu éta þetta ofan í ykkur. (Gripið fram í.) Étið þetta allt, sagði þingmaðurinn. Þetta fáum við allt saman að sjá, hvort menn meintu nokkuð með þessu, hvort þeir borðuðu það allt saman eða átu það allt saman eins og það var nú orðað, og með hvaða hætti hæstv. forsrh., sem hér hefur komið með gagnrýni á samstarfsaðila okkar í Atlantshafsbandalaginu, kemur til með að snúast í þessu máli.
    Ég verð svo að segja það að ég er mjög hissa á því sem hæstv. forsrh. lét hér frá sér fara. Ég er mjög

hissa á því hvernig hans málflutningur hefur verið fram að því að hann kom hér í dag, og mér fannst í raun og veru að hann tæki allt það til baka, þ.e. varðandi vitneskju sína í raun og veru miðað við það sem hann hafði sagt.
    Ef við hverfum örlítið aftur í tímann og það vill svo til að í greinargerðum til Alþingis sem ég lagði fram sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar er skýrt tekið fram að hverju stefnt sé í þessum málum og með hvaða hætti verði að því staðið. Umræður fóru fram hér og áður en sú skýrsla, sem var fyrri skýrslan sem lögð var fyrir Alþingi í minni tíð sem utanríkisráðherra, hafði forveri minn í því embætti, Geir Hallgrímsson, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, lagt fram sínar skýrslur og þar á meðal gert grein fyrir því hver hefði verið þróunin í sambandi við þessi mál varðandi stjórnarstefnuna og stjórnarsáttmálann. Og ég bendi á að í þessum skýrslum eru ítarlegri greinargerðir og hæstv. fyrrv. utanrrh., Geir Hallgrímsson, gerði ítarlegri grein fyrir þessum málum fyrir utanrmn. Alþingis en áður hafði verið gert.
    Mig langar aðeins til að endurteka það sem kemur fram í þessari skýrslu og ég trúi því ekki að hæstv. forsrh., sem fylgist vel með í þessum málum, að ég hélt, hafi ekki gert sér grein fyrir því sem þar stendur þegar sérstaklega er vikið að því að samræma þurfi varnar- og liðsaukaáætlanir fyrir Ísland á hættu- og ófriðartímum öðrum áætlunum er tengjast öryggis- og varnarmálum. Og það er haldið áfram, með leyfi forseta: ,,Koma þarf á samstarfi við Almannavarnir ríkisins sem stuðli að samræmi við skipulagningu og gerð áætlana um þá þætti er varða öryggis- og varnarmál og tryggja verður að almannavarnaráð fái þær upplýsingar sem þörf krefur.``
    Ef við flettum upp þeirri skýrslu sem hæstv. núv. forsrh. gaf Alþingi þá hann gegndi embætti utanríkisráðherra má sjá að honum var þetta allt saman ljóst. En hann sagði nokkuð áðan í sinni ræðu, þegar hann var að reyna að afsaka það sem hann orðaði sem tímaskekkju, vísaði þá til þess að hér hefði farið fram stórveldafundur, það væri komið á stað afvopnunarsamkomulag stórveldanna og þess vegna skildi hann ekkert í því að það ætti að standa að
einhverjum slíkum hlutum, þ.e. varaliðsæfingum með 1000 manna liði, en taldi sig geta misskilið það að þessir 1000 ættu að vera af þeim 3000 sem hér væru en það væri auðvitað líka hægt að skilja það svo að þetta væri til viðbótar við þessa 3000 sem hér væru fyrir.
    Ef við lesum það sem hann leggur fyrir Alþingi fyrir aðeins rúmu ári síðan kemur í ljós að honum er þetta allt saman ljóst. Og ég vil, með leyfi forseta, aðeins víkja að þessum hlutum hér. Eftirlit varnarliðsins beinist fyrst og fremst að ferðum flugvélaskipa og kafbáta umhverfis landið, segir í skýrslu þáv. hæstv. utanrrh.
    Síðan heldur hann áfram: ,,Þessi eftirlits- og varnarviðbúnaður er jafnframt mikilvægur hlekkur í

varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins. Tengsl annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins við varnarliðið hafa verið treyst á undanförnum árum og starfa nú liðsforingjar frá Kanada, Danmörku, Hollandi og Noregi við yfirstjórn varnarliðsins og til athugunar er að breskur liðsforingi komi einnig til starfa þar. Hollensk flugvélasveit hefur nú starfað með varnarliðinu á annað ár og náin samskipti eru reglulega milli varnarliðsins og bandalagsþjóða okkar í Evrópu um kafbáta- og skipaeftirlit.``
    Svo kemur áherslupunkturinn hjá hæstv. ráðherra og taki menn eftir, þetta er skrifað 1988: ,,Ef til átaka drægi er ljóst að varnarliðið þyrfti aukinn liðsafla. Hersveit í varaliði bandaríska landhersins hefur verið þjálfuð og búin undir að koma til landsins á hættu- eða ófriðartímum. Hluti hennar``, svo vel var hæstv. utanrrh. að sér þegar þetta er skrifað, ,,tók þátt í umfangsmiklum æfingum í Kanada í sumar og fylgdust fulltrúar varnarmálaskrifstofu með þeim æfingum. Til að slík þjálfun komi að fullu gagni er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hafi hönd í bagga og tryggi að allar varnaráætlanir séu í sem bestu samræmi við íslenska hagsmuni og staðhætti. Samræmis þarf að gæta milli almannavarnaáætlana okkar og skipulags lögreglu og Landhelgisgæslu og þessara varnaráætlana. Að því hefur verið unnið.`` En svo kemur í lokin, og þá minni ég á það sem sá sem vakti upp þessar umræður orðaði það með fréttatilkynningum: ,,En eðli málsins vegna verður ekki greint frekar frá því.`` Hvers vegna? Vegna þess að hér var verið að vinna að hlutum sem ekki var talið eðlilegt að skýrt yrði frá með einhvers konar blaðafregnum eins og hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., taldi að varnarmálaskrifstofan ætti að gera.
    Það sem lesið var nú upp er skrifað fyrir aðeins einu ári síðan. Í dag kemur hæstv. forsrh. og talar um tímaskekkju, en það sem hér er skrifað er nákvæmlega jafnillt í dag og það var fyrir einu ári síðan.
    Í upptalningu hæstv. forsrh. hér áðan mátti í raun og veru skilja að þetta voru hlutir sem honum voru ljósir, en hann brá fyrir sig minnisleysi. Hann dró þó í land í ræðu hér miðað við það sem hann hafði sagt í fréttatímum fjölmiðlanna og þess vegna er eðlilegt að hv. 2. þm. Norðurl. e. biðji um að það sem hæstv. forsrh. hefur sagt í þessum efnum verði tekið saman og menn hafi það til samanburðar. Þegar hann tekur við sínu embætti sem utanrrh., að hann hafi þá ekki fengið allar þær upplýsingar sem hann óskaði eftir. Ég er sannfærður um það að m.a.s. hefur honum verið sagt margt umfram það sem hann óskaði eftir, einfaldlega til þess að honum væru eins vel kunn þessi störf og það sem væri á dagskrá hjá varnarmálaskrifstofunni og samstarfi okkar og varnarliðsins. A.m.k. get ég staðfest það að eftir að ég tók við embætti utanrrh. var þannig að málunum staðið.
    Ég er þeirrar skoðunar að yfirlýsingar hæstv. forsrh. hér séu ekki til þess að skapa aukið traust á milli bandalagsþjóða Atlantshafsbandalagsins. Ég er

sannfærður um að það er eftir þeim tekið, því miður, og ég er líka sannfærður um það að ef á þeim væri tekið mark, þá væri það til þess að veikja það samstarf sem við erum í með vestrænum lýðræðisþjóðum. Ég hef hins vegar þá skoðun að hæstv. utanrrh. muni þegar þessari orðahrinu er lokið afgreiða þetta mál og hann muni afgreiða það með þeim hætti að við getum haldið áfram því samstarfi sem við erum í, haldið áfram að efla þann þátt þess sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983 hóf, þ.e. að við sjálf værum færari en áður um að taka ákvarðanir í þessum málum og við vildum að þeir sem við værum í samstarfi við gerðu sér grein fyrir þessum hlutum.