Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Hér hefur átt sér stað mikil umræða og stórfróðleg og ég er mjög ánægður með að hafa haft frumkvæði um að hún hófst því hún hefur leitt ýmislegt í ljós sem a.m.k. mér var áður hulið. Reyndar hafa einnig verið fluttar hér leiðinlegar ræður sem hefur verið mikil mannraun að hlusta á en þó ómaksins vert því að menn hafa blottað sig, menn hafa sýnt hvað þeim býr í brjósti og sannarlega á varnarliðið á Keflavíkurflugvelli dygga málsvara hér á Alþingi. Mér er það til efs að nokkrir hagsmunir hafi verið varðir af meiri tilfinningahita á Alþingi í vetur heldur en hagsmunir eða öllu heldur ímyndaðir hagsmunir varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Sjálfstæðismenn hafa ekki staðið upp hér á þingi í vetur til að verja hagsmuni atvinnulífsins í landinu með þvílíkum tilfinningahita og þeir ganga hér fram til varnar varnarliðinu. Niðurstaðan af umræðunum er sú að varnarliðið á hér eldheita, fórnfúsa og gagnrýnislausa málsvara sem eru fúsir til að vaða í vatnið fyrir það hvar og hvenær sem er.
    Í öðru lagi hefur komið í ljós hver viðhorf varnarliðsins til íslensku þjóðarinnar og íslenskra stjórnvalda eru. Það er að sjá að varnarliðið telji að Íslendingar muni gera sér að góðu eða verði að gera sér að góðu hvað sem er. Þeir boða til heræfinga sem hefjast á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga. Heræfingar hefjast náttúrlega þegar liðið leggur af stað frá Bandaríkjunum. Þeir telja sig ekki þurfa að upplýsa íslensk stjórnvöld um áform sín eða umfang heræfinganna, telja sig ekki þurfa að leita formlegs leyfis hjá íslenskum stjórnvöldum fyrr en sunnudaginn 2. apríl, samkvæmt ræðu hæstv. utanrrh. á mánudaginn var. Þeir telja sig geta margfaldað umfang heræfinganna án þess að tilkynna það ríkisstjórn Íslands.
    Þá er komið að alvarlegasta kafla þessa máls og það eru starfshættir varnarmálaskrifstofunnar. Það hefur komið í ljós að varnarmálaskrifstofan skrásetur ekki fundargerðir af fundum við varnarliðið með fullnægjandi hætti. Varnarmálaskrifstofan greinir ekki utanrrh. frá því sem á góma ber, a.m.k. ekki með fullnægjandi hætti og utanrrh. þjóðarinnar, hver sem hann er, hlýtur að eiga heimtingu á að fá nákvæma vitneskju um starfsemi varnarmálaskrifstofunnar og það sem menn taka sér þar fyrir hendur. Ekki veit ég hvort núv. utanrrh. nýtur fullkomins trúnaðar varnarmálaskrifstofunnar, en svo mikið er víst að fyrrv. utanrrh. var ekki gerð nógu nákvæm grein fyrir því sem á döfinni var á milli hersins og varnarmálaskrifstofunnar og það hefur komið berlega í ljós hér í þessum umræðum.
    Núv. utanrrh. fór hér í ræðustól á þriðjudagsnóttina með punkta frá varnarmálaskrifstofunni. Grundvallargögn þykir mér hins vegar að skorti enn þá. Viðkomandi fundargerðir liggja ekki á lausu. Það er vitnað í persónuleg óskrásett samtöl manna á milli. Hæstv. utanrrh. láðist því miður að geta þess hvernig þessi framleiðsla, sem hann var með hér í ræðustólnum, er tilkomin. Mér finnst þetta ekki

trúverðug skýrsla enda var hún, eins og hæstv. utanrrh. orðaði það hér rétt áðan, ,,tekin saman`` af varnarmálanefnd og það hefði þurft að koma fram í ræðu utanrrh. að svo var. Einnig hefði mátt fylgja að hæstv. forsrh., sem hæstv. utanrrh. hafði sýnt þessa punkta frá varnarmálaskrifstofunni, hafði ekki fallist á að þeir væru réttir. Forsrh. kannaðist ekki við sannleiksgildi þeirra staðhæfinga sem voru á þessum blöðum sem hæstv. utanrrh. las.
    Varnarmálaskrifstofa á Íslandi á ekki að vera í neinum CIA-leik. Hún á ekki að vera að pukrast með þau verkefni sem hún vinnur að. Það er lágmarkskrafa að utanríkisráðherra, stjórnskipulegum yfirmanni skrifstofunnar, sé gerð grein fyrir öllum málefnum sem starfsmenn fjalla um í embættisnafni. Það er höfuðnauðsyn að breyta starfsháttum varnarmálaskrifstofu í kjölfar þess hvernig utanrrh. hefur nú upplýst um starfshætti skrifstofunnar. Og það vona ég að verði niðurstaða sem fylgi í kjölfar þessarar umræðu.
    Utanrrh. var hér áðan að reyna að greina frá heimildum sem voru að baki þeirra punkta sem hann fór með hér í ræðustól á þriðjudagsnóttina. Mér fannst þetta vera frekar rýrar heimildir og þær voru ekki tiltækar handa forsrh. á þriðjudaginn var þegar hann gekk eftir þeim. Ég fer hér með fram á að fá afhent ljósrit af staðfestum fundargerðum varnarmálanefndar, svo og af þeim skriflegum gögnum sem utanrrh. vitnaði til. Ég mun fara með það sem trúnaðarmál ef utanrrh. óskar þess. Mig varðar hins vegar ekkert um dagbækur annarra manna eða hvað í þeim stendur og ætlast ekki til að fá að sjá þær.
    Að endingu vona ég, frú forseti, að niðurstaða hæstv. utanrrh. eftir þessar umræður verði sú að hann annaðhvort synji um heimild til að halda þessar æfingar eða a.m.k. beiti sér fyrir því að dregið verði úr umfangi þeirra svo mjög sem unnt er.