Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég kemst ekki hjá því að gera athugasemd við þau vinnubrögð að hér sé verið að taka til umræðu skýrslu sem beðið var um 31. okt. á síðasta ári. Það var beðið um skýrslu um stöðu og rekstur fiskvinnslufyrirtækja, níu þingmenn báru fram skriflega beiðni, og tveimur mánuðum eftir að við biðjum um þetta kemur svarið um áramót og síðan er verið að taka þetta til umræðu hér þremur mánuðum seinna. Þetta er orðið allt of gamalt plagg. Það er farið að slá í þetta. Ég held að það þætti skrýtið, án þess að það sé hægt að líkja þessu beint saman, ef skipin þyrftu að vera tvo mánuði á fiskveiðum og svo væri afli tekinn til vinnslu þremur mánuðum eftir að hann kæmi á land. Svona vinnubrögð ganga ekki í hinu háa Alþingi.
    Ég vil líka minna á það að gefnu tilefni að 9. mars sl. lagði ég fram skriflega fsp. til forsrh. um stöðu fiskvinnslufyrirtækja, hver eiginfjárrýrnun þeirra hafi orðið á síðasta ári, hver hún verði á yfirstandandi ári og hvað hagnaðurinn þurfi að vera mikill til að geta greitt þær skuldir sem hvíla á sjávarútvegi. Það er nauðsynlegt, ég tala nú ekki um þá umræðu sem fer fram í þjóðfélaginu í dag, að þessar upplýsingar komi fram. Og hvað á það að þýða að framkvæmdarvaldið lúri á upplýsingum til löggjafarvaldsins? Af hverju er ekki hægt að fá upplýsingar um svona hluti sem eru allir saman til í tölvum hjá framkvæmdarvaldinu? Það er ekki nema í mesta lagi nokkurra klukkutíma verk fyrir færan mann að skrifa þessa greinargerð. Þessar upplýsingar eru allar til. Því þá að vera að lúra á þeim?
    Ég kemst ekki hjá því að mótmæla svona vinnubrögðum og ítreka þá beiðni til hæstv. forseta að það verði séð til þess að þeirri skriflegu fsp. sem ég beindi til forsrh. 9. mars sl. verði svarað tafarlaust.