Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því sem hæstv. samgrh. sagði í lok ræðu sinnar varðandi vegamálin, vegagerðina, að hér er um að ræða málefni sem er grunnforsenda mikilla framfara fyrir eitt lítið þjóðfélag. Mér fannst hins vegar að það sem ráðherrann hafði áður sagt í sambandi við þá sérstöku vegáætlun sem hér er til umræðu stangaðist mjög margt á við einmitt þessa niðurstöðu sem hann hafði sjálfur og ég efast ekkert um að hann hefur sem hugsun varðandi vegaframkvæmdir. Ef skoðuð er örlítið betur ræðan sem hann flutti hér og við áttum okkur á því að hér er um að ræða vegáætlun til fjögurra ára, þá varð ráðherranum miklu tíðræddara um árin 1990--1992 og er það ofur skiljanlegt þegar vegáætlunin er skoðuð að það var minna sem hann hafði um að segja árið 1989, þ.e. það ár sem við lifum á, og þessa vegáætlun varðandi þá hluti.
    Mig langar til þess að ræða aðeins um áætlunina sem slíka, uppbyggingu þess með hvaða hætti unnið er að því að fá fjármagn til vegaframkvæmda, en með vegáætlun og því sem henni fylgir, þ.e. skiptingu vegafjár, er mjög mikið fylgst og ekki hvað síst út um landsbyggðina þar sem unnið hefur verið að því að gera vegakerfið enn betra á hverju ári og vissulega vel til tekist á undanförnum árum og oft verið náð betri árangri en menn þá höfðu reiknað með.
    Tekjur af bifreiðum og umferðinni eru annars vegar eignarskattar og svo síðan neysluskattar og það hefur verið um langan tíma með þeim hætti að eignarskattarnir hafa runnið til ríkissjóðs. Hins vegar er skýrt tekið fram að bensíngjald, þungaskattur sem árgjald og þungaskattur sem kílómetragjald skyldi renna til Vegasjóðs til vegaframkvæmda. En það segir líka í lögunum um öflun fjár til vegaframkvæmda að auk þess skuli koma til fé úr ríkissjóði og þá var vitaskuld gert ráð fyrir því að þar sé verið að nýta það fjármagn sem bifreiðar og þeir sem þær eiga hafa greitt í sambandi við eignarskatta af þeim.
    Það er vissulega rétt, sem hæstv. ráðherra sagði, að síðustu árin hefur ekki verið talið fært að leggja úr ríkissjóði fjármagn til vegaframkvæmda. Það hefur ekki verið kannski hugsunin að það yrði til frambúðar, en mér sýnist á því sem hér kemur, þ.e. þessari vegáætlun, að þá sé hæstv. ráðherra hreinlega búinn að gefast upp við að á þessu geti orðið breyting.
    En það er miklu meira en það sem kemur fram í þessari vegáætlun og við höfum fjallað um á þessu þingi, en það er að nú er ekki einu sinni ætlað að tekjur Vegasjóðs af bensíngjaldi, þungaskattsárgjaldinu og þungaskatti sem kílómetragjaldi skuli renna til Vegasjóðs alfarið. Við fjárlagagerð og við lánsfjárlagasamþykkt, þá þegar, lagði ríkisstjórnin til að þrátt fyrir þessi lög skyldi ákveðin upphæð, þ.e. 682 millj. sem hér er getið um, renna til ríkissjóðs og mér sýnist að þeim verði ekki skilað til baka heldur eigi þær að notast til þess að bæta um fyrir ríkissjóði og stöðu hans sem vissulega er slæm. Mér er sagt að í dag sé hún svo slæm að það séu 6 milljarðar sem ríkissjóður skuldi Seðlabanka Íslands á

viðskiptareikningi. Það er hærri upphæð en á sama tíma var á sl. ári.
    Það er ekki aðeins að það sé meiningin að þessar 682 millj. verði eftir í ríkishítinni og notaðar til útgjalda á öðrum sviðum. Það er heldur ekki gert ráð fyrir í þessari vegáætlun því sem ríkissjóður skuldar Vegasjóði af umframtekjum ársins 1987 og 1988 sem munu vera 140 millj. kr. þegar frá er dregin 35 millj. kr. fjárveiting sem eðlilegt er að sé dregin frá til Ólafsfjarðarmúla á sl. ári. Upprunalega var í vegáætlun sl. árs gert ráð fyrir að þessar mörkuðu tekjur yrðu til útgjalda á þessu ári, þá ætlaðar 160 millj. frá 1987 og síðan í viðbót. Hins vegar kemur í ljós að um ofáætlun var að ræða þannig að þegar frá er dregið 35 millj. til Ólafsfjarðarganga eru 140 millj. sem ríkissjóður þar með skuldar Vegasjóði. Þannig eru þetta 822 millj. sem þannig eru í ríkissjóði og mér sýnist á öllu að hæstv. ráðherra geri ekki ráð fyrir því einu sinni að þessu fjármagni verði skilað til baka. Þegar þannig er staðið að málum eins og ég hér hef lýst liggur í augum uppi að það verður samdráttur í vegagerð á árinu 1989 miðað við það sem var t.d. á sl. ári. Það er hins vegar alveg hárrétt, sem fram kemur í greinargerðinni með vegáætluninni, að miðað við hlutfall af þjóðarframleiðslu er ekki ýkja mikill munur á árinu 1988 og 1989, 1,18% 1988 og 1,16% ætlað 1989. En þegar horft er á þessar tölur verða menn að gera sér grein fyrir hverjar eru forsendur, en þjóðarframleiðslan hefur minnkað töluvert mikið frá 1988 til 1989 og því skiljanlegt af þeim ástæðum að hér sé ekki mikill munur á því hlutfalli sem gert er ráð fyrir að fari til vegaframkvæmda á árinu 1989 og var 1988. 2,3% minnkun hefur töluverð áhrif þegar verið er að reikna út prósentutölur sem hér er gert, en til þess að ná því sem Alþingi áður hafði samþykkt, 2,08%, þarf nokkuð stórar tölur til viðbótar og það er í áætluninni gert ráð fyrir öllum tekjum Vegasjóðs 1990, 1991 og 1992 og þá er miðað við 2,1% aukningu á þjóðarframleiðslu. Þá er gert ráð fyrir og þá kemur út að 1,45% verði til vegaframkvæmda af þjóðarframleiðslunni.
    Það kom alveg skýrt fram í ræðu hæstv. samgrh. að hér hefur hann orðið að lúta í lægra valdi fyrir fjárveitingavaldinu, fyrir þeim sem stýrir ekki bara
hans flokki heldur, eins og hér hefur margoft verið bent á, næstum því öllu í núv. hæstv. ríkisstjórn. ( Gripið fram í: Á hverju hefur hann ekki stjórn?) Á hverju hefur hann ekki stjórn? Það gæti verið atriði sem við gætum rætt um annars staðar en ég mun ekki tíunda hér úr ræðustól. --- En hæstv. ráðherra hefur eins og ég sagði orðið að lúta í lægra haldi og það svo að það munar miklu og á eftir að koma fram ekki bara í tölum heldur og í því hversu framkvæmdir í vegamálum munu dragast saman á árinu 1989.
    Það er út af fyrir sig ekki ástæða til að vera með mikinn samanburð á tölum frá liðnum tíma. Það er þó ástæða til að gera það og átta sig á því að hér er um að ræða stefnubreytingu og það spyrja allir hvað verði þá á næsta ári. Það liggur alveg ljóst fyrir að það sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi í dag er með þeim

hætti að það sýnist ekki stefna í neina þá átt að hæstv. ráðherra hafi betri stöðu til þess að berjast gegn þessum aðilum og halda þeim tekjum sem markaðar eru með lögunum um tekjuöflun til vegamála. Það er nokkuð ljóst að á næsta ári, ef hæstv. ráðherra hyggst láta skipta upp því sem áætlunin gerir ráð fyrir á næsta ári, 1990, nú við gerð og samþykkt þessarar áætlunar og venja er að gerist af fjvn. eftir að haft hefur verið samráð við þingmannanefndir einstakra kjördæma, ef hæstv. ráðherrar ætlast til þess að það bíði til næsta árs til þess að menn þá átti sig á því hvernig honum tekst baráttan við fjárveitingavaldið, er verið með breytt vinnubrögð. Svo má vel vera að það verði einfaldlega svo að menn verði látnir skipta en síðan komi eitthvað sem heiti niðurskurður. Við skulum vona að þetta séu allt saman hugarórar og við þurfum ekki að standa frammi fyrir slíku á næsta ári. Aðrir aðilar verði þá komnir til að stýra þessum málum.
    Í ræðu sinni vék hæstv. ráðherra að ýmsum breytingum sem eru í þessari áætlun og ég get vissulega tekið undir. Þar er þá sérstaklega þar sem ætlaður er nýr liður til nýrra þjóðvega, þ.e. svokölluð stórverkefni, og höfuðborgarsvæðisframlagið ásamt Ó-vegaframlaginu falli þar undir. Það er síður en svo að það sé ekki reynt að gylla þetta fyrir mönnum því að það er hvorki meira né minna en að á næsta ári er ætlað til þessara framkvæmda 550 millj. kr., 600 og svo 650. En ég veit að þessi þáttur í byggingu nýrra þjóðvega hefur verið til umræðu. Bæði var það gert af mínum forvera, sjálfur átti ég viðræður við þá hjá vegamálaskrifstofunni og hæstv. ráðherra hefur tekið það upp og það er af hinu góða að mínum dómi. Ég vil bara að það komi fram að mér sýnist að hér sé staðið rétt að málum. Hefði verið betra að ýmislegt fleira hefði verið þar á sömu nótum.
    Ef við horfum svo á tillöguna og það fjármagn sem ætlað er til vegagerðar á þessu ári, þá kemur í ljós að þar er um að ræða geysilega mikinn samdrátt. Ef bornar eru saman tölur sem ætlaðar eru til stjórnar og undirbúnings ásamt og með viðhaldi þjóðvega kemur í ljós að hér er um að ræða hækkun sem nemur 4,7%, þ.e. raunhækkun. Það er búið að gera ýmsar breytingar m.a. á snjómokstri þannig að þarna er sennilega síst um ofáætlun að ræða miðað við þann vetur sem senn er nú á enda og hefur orðið að þessu leyti mjög kostnaðarsamur þannig að hér er ekki gert meira en að halda í við það sem áður var og ég efast um að það náist sem hér er ætlað til aukningar.
    Þá komum við að liðunum sem heita Til nýrra þjóðvega, Til brúargerða og fjallvega. Hér kemur nokkuð annað í ljós. Á árinu þessu, sem hér er fjallað um, er gert ráð fyrir 1375 millj. kr. samtals. Miðað við þær framkvæmdir og þá upphæð sem var nýtt til framkvæmda á sl. ári, og ég tek þá með í því dæmi 35 millj. kr. til Ólafsfjarðarmúlans, þyrftu að vera í áætluninni í dag 1560 millj. kr. Bara þetta eitt gerir það að verkum að hér er um að ræða 12% magnsamdrátt í vegagerð á árinu 1989.
    Nú eru í gangi miklar framkvæmdir, þ.e.

Ólafsfjarðarmúli, og til hans þarf á þessu ári um það bil 350 millj. kr. Þessar 350 millj. kr. verða ekki teknar annars staðar en af þessu fjármagni. Við höfum 200 millj. í stórverkefni, 70 millj. í Ó-vegi og síðan almenn verkefni sem skiptast á hin einstöku kjördæmi. Ef 350 millj. kr. fara til þess að gera það sem gera skal, göngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla, hvað halda menn þá að samdrátturinn verði mikill á almennum vegaframkvæmdum? Mér reiknast til að það sé um það bil 25% sem samdrátturinn verði og ímynda ég mér að ég sé aðeins í lægri kantinum. Á milli 25 og 28% mundi ég telja ef allar 350 millj. sem þar þarf eru teknar af þessum lið. Hvar annars staðar ætti að taka þær? Við erum búnir að samþykkja lánsfjárlög. Það er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni þar til þessara framkvæmda. En þessar framkvæmdir verða vitaskuld að halda áfram, það liggur alveg ljóst fyrir, þannig að þegar þessu er stillt svona upp er bara 12% minnkun vegaframkvæmda ef miðað er við framkvæmdafé á sl. ári og það fært til meðalverðlags 1989 og mismuninn á því fjármagni sem vegáætlun og fjárlögin gera ráð fyrir. Þegar svo hins vegar nokkur hundruð milljóna kr. er ætlað að fara til þessa stóra verkefnis af þessari upphæð stöndum við eftir með milli 25 og 28% samdrátt í vegaframkvæmdum í landinu.
    Liðirnir til sýsluvega, vega í kaupstöðum og kauptúnum, vélakaupa, til tilrauna, sú upphæð er í vegáætlun í 345 millj. kr., hefði þurft að vera 349
ef það hefði átt að vera sama verðmæti og var á sl. ári. Þannig lítur þessi vegáætlun út þegar hún er skoðuð ofan í kjölinn. Það liggur ljóst fyrir að hér er ekki aðeins verið að hverfa frá með áætluninni, verði hún samþykkt svona, að frá ríkissjóði komi fjármagn til vegaframkvæmda. Það má um það deila, miðað við þá aukningu á tekjum sem verður vegna umferðarinnar, hvort aðrar tekjur eigi að koma frá ríkissjóði, en þannig stendur dæmið í dag samkvæmt lögunum. Þeim má auðvitað breyta og þessu var þannig fyrir komið á síðasta ári og árinu 1987. Hins vegar er með þessari ályktun ætlað að afgreiða það að á þessum fjórum árum verði ekkert frá ríkissjóði til þessara framkvæmda.
    Þá kem ég aftur að því sem ráðherrann endaði sína ræðu á. Er það þá álit hans að vegamálin séu, vegagerðin, grunnforsenda allra framfara á landsbyggðinni og annars staðar? Er ekki hér verið að tala þvert um hug sinn? Er ekki hér verið að tala með allt öðrum hætti en menn framkvæma? Ef það fjármagn sem ætlað er til vegagerðar samkvæmt lögunum um tekjuöflun og það fjármagn sem ríkissjóður skuldar Vegasjóði væri til ráðstöfunar væru það 822 millj. kr. Þá hefðu menn fjármagn til þess stóra verkefnis sem nú er unnið að og þá hefðum við einnig fjármagn til að halda sama hraða og þó heldur auka framkvæmdahraðann í vegagerð sem þó hefur verið á síðustu árum, ýmsum fundist of lítið lagt til þeirra mála og hafa sumir af flokksbræðrum hæstv. samgrh. komið hér í ræðustólinn og látið í sér heyra í þeim efnum. Ég vænti þess að þeir ágætu menn láti

í sér heyra núna, að það sé ekki bara hæstv. ráðherra sem hefur verið handjárnaður í þessum málum, þannig að það heyrist þá a.m.k. frá óbreyttum þingmönnum sem hafa viljað standa að þessum málum með öðrum hætti að undanförnu, hafa nú tækifæri þar sem þeir eru stuðningsmenn ríkisstjórnar og að sjálfsögðu áhrifamenn til að ná þessum málaflokki á betra skrið en þeir hafa talið að hann hafi verið á.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til við fyrri umræðu þessarar tillögu að fjölyrða meir um tillöguna og um það sem fram kom hjá hæstv. ráðherra. Ég endurtek að það er ljóst af því sem hér er til umræðu að verið er að tala um samdrátt í vegaframkvæmdum á bilinu 20--25%, jafnvel 28% eftir því með hvaða hætti skipting vegafjárins verður í fjvn. að því leyti sem um er að ræða göngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla. Hér erum að ræða mikinn samdrátt og ég er sannfærður um að ofan á allt annað eru hér ekki starfsaðferðir og vinnubrögð sem koma til með að skila okkur, þessari litlu þjóð, áfram veginn því að það er verið að draga svo úr í þeim efnum.