Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Það er orðinn árviss viðburður hér á hinu háa Alþingi að um þetta leyti árs tökum við til meðferðar og umfjöllunar till. til þál. um vegáætlun. Það er í sjálfu sér eitt af því fáa sem er gott um þetta mál að segja, þ.e. að málin skuli þó hafa farið á þann veg að það er gerð tilraun til að stjórna framkvæmdum í samgöngumálum, í vegagerð með þeim hætti sem hér kemur fram. En ég leyfi mér að gera hér ýmsar athugasemdir við það með hvaða hætti við höfum staðið að samgöngumálum undanfarin mörg, mörg ár og hvernig við höfum reynt að nýta þá takmörkuðu fjármuni sem þessi fámenna þjóð, sem býr í mjög erfiðu og harðbýlu landi, hefur til umráða og getur sett í samgöngumál.
    Nú er það alveg ljóst að samgöngumálin eru einn mikilvægasti málaflokkur þessarar þjóðar. Til þess að byggð geti haldist í landinu öllu þurfa samgöngur að vera eins góðar og framast er unnt. Það er í raun frumforsenda þess að við getum haldið öllu landinu í byggð, en ég er alls ekki viss um að við höfum staðið þannig að málum að við höfum gert það á sem skynsamlegastan hátt. Það hefur oft valdið mér áhyggjum og ég hef reyndar verið sannfærður um að við höfum ekki varið fjármunum til vegagerðar í landinu á eins hagkvæman hátt og við hefðum getað gert. Við höfum í raun ekki fengið eins mikið fyrir krónurnar og hægt hefði verið.
    Ég bjóst satt að segja við því og hélt að við mundum sjá hér frv. til l. um breytingu á vegalögunum sjálfum, en þau eru að mínum dómi orðin mjög úrelt og mjög brýnt að taka þau til gagngerðrar endurskoðunar. T.d. má benda á að í vegalögum er fjallað um þó ekki sé minnst á annað en sýsluvegi og sýslunefndir sem er orðið úrelt hugtak. Hér hefur farið fram veruleg lagahreinsun í vetur þar sem verið er að nema hugtakið sýslunefndir brott úr gömlum lögum. Ég hef ekkert slíkt séð í tengslum við vegalög.
    Þá sakna ég þess að hvorki í vegalögum né í till. til þál. um vegáætlun eru tæknimálum gerð fullnægjandi skil. Það er nefnilega þannig að það er löngu orðið tímabært að það sé skilgreint mjög rækilega bæði í lögum og eins að það komi fram í vegáætlun á hvaða tæknistigi við ætlum að haga okkar vegagerð og mannvirkjagerð okkar í samgöngumálum yfirleitt. T.d. vil ég setja spurningarmerki við hugtakið ,,bundið slitlag`` sem mjög er tíundað og notað í öllum áætlunum og öllum umræðum sem fara fram um vegaframkvæmdir, en mér er mjög til efs að það sem við nefnum bundið slitlag fullnægi þeim kröfum til þess sem við verðum að gera til þess sem við viljum kalla bundið slitlag á þjóðvegum okkar almennt.
    Nú er það svo að þegar lagt var á stað með að binda þjóðvegina varanlegu slitlagi var úr vöndu að ráða. Við höfðum ekki fjármuni til að fara út í mjög dýra vegagerð með mjög fullkomnu slitlagi og okkur lánaðist að finna aðferð sem reyndist bæði hagkvæm og ódýr. Ég held að þessi aðferð hafi í raun reynst okkur mjög vel gegnum árin, en ég vil samt sem áður

spyrja: Er ekki löngu orðið tímabært að endurskoða þær starfsaðferðir sem við höfum notað í sambandi við vegagerðina og skilgreina á nýjan leik tæknilegan undirbúning og gerð bundinna slitlaga yfirleitt til þess að við lendum ekki þegar fram í sækir í mjög dýru viðhaldi á þeim vegarköflum sem þegar eru lagðir bundnu slitlagi?
    Þá hef ég líka haft mínar efasemdir um það á hvaða hátt hefur verið staðið að framkvæmdum við vegagerð yfirleitt. Því miður hefur vegalagningunni yfirleitt verið háttað þannig að þar hefur bútastefnan svokallaða verið ráðandi. Við höfum forðast að fara út í mjög stórar og viðamiklar vegaframkvæmdir í heilum áföngum heldur kosið að skipta framkvæmdum niður í smáverkefni og þar hafa togast á mismunandi sjónarmið og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Heimamenn hafa oft og tíðum viljað fá að stjórna með hvaða hætti framkvæmdirnar hafa verið og viljað fá þar sína hlutdeild og er það ósköp eðlilegt. En á hinn bóginn hefur sjónarmiðum þess efnis að með stórútboðum væri hægt að ná miklu, miklu hagkvæmari og ódýrari vegarlagningu að sjálfsögðu vaxið fylgi. Og það er spurningin með hvaða hætti væri hægt að samræma þessi tvö sjónarmið.
    Ég tel að þegar við horfumst í augu við þann mikla niðurskurð sem hefur orðið á framlögum til vegamála verði það ekkert umflúið lengur að taka þessi mál öll upp til rækilegrar endurskoðunar, þ.e. bæði tæknilegar skilgreiningar á vegaframkvæmdunum sem slíkum, hvers konar vegi viljum við leggja, hvert á að vera tæknistig þeirra, gæðastig þeirra framkvæmda sem við ráðumst í og með hvaða hætti ætlum við að haga þessum framkvæmdum. Getum við t.d. klárað hringveginn í einum áfanga með því að skilgreina stórútboð þar sem erlendum jafnt sem innlendum verktakafyrirtækjum væri boðið að taka þátt í að gera tilboð í slíka framkvæmd?
    Þá kem ég að þeim þætti vegáætlunar sem lýtur að því með hvaða hætti við bæði flokkum vegi og skiptum niður fjármagninu á ýmsa framkvæmdaliði. Í umræðum sem fóru fram um vegáætlun á síðasta þingi vakti ég máls á þeirri hugmynd að flokka vegaframkvæmdir með öðrum hætti en hingað til hefur verið gert, þ.e. að taka upp sérstakan flokk sem ég hef viljað kalla þjóðfélagsleg verkefni sem ætti að vera óháður kjördæmapotinu. Mér þykir vænt um að eitthvað
af þessum hugmyndum sem ég vakti athygli á fyrir ári virðist hafa síast inn í höfuðið á núv. hæstv. samgrh. og það er vel að það er þó farið að gæta einhvers árangurs af starfi Borgfl. á Alþingi.
    Ég er þó ekki alveg sáttur við þessa skiptingu eða þessa skilgreiningu á stórverkefnum eins og liggur fyrir í hinni nýju vegáætlun og hefði viljað gera þetta með allt öðrum hætti. Ég hefði talið að við hefðum átt eins og ég gat um í upphafi málsins að breyta vegalögum. Þar hefðum við átt að flokka framkvæmdir í vegamálum niður í fjóra flokka. Þar hefði ég fyrstan viljað telja 1. flokk, þ.e. þjóðfélagsleg verkefni sem ekki er hægt að tengja einu eða öðru

kjördæmi.
    Slíkt verkefni tel ég að sjálfsögðu allan hringveginn, þ.e. þjóðveg nr. 1, vera. Hann tengist í raun ekki neinu sérstöku kjördæmi þó svo að hann liggi um nær öll kjördæmi landsins ef frá er talið Vestfjarðakjördæmi. En hringvegurinn er eitt almikilvægasta samgöngumannvirki landsins og kannski líklegasta mannvirkið til þess að við getum í framtíðinni haldið öllu landinu í byggð. Þess vegna hefði hann að mínum dómi átt að hafa algeran forgang í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir. Það hefði átt að taka hann út úr vegáætluninni með þeim hætti, sem ég er að lýsa hér, að gera hringveginn sem slíkan að sérstöku þjóðfélagslegu verkefni. Til hans hefði átt að veita fjármunum sérstaklega og reyna að ljúka honum í einum áfanga með stórútboði á alþjóðlegum markaði með þátttöku þeirra verktakafyrirtækja sem stærst eru á þessu sviði.
    Önnur slík þjóðfélagsleg verkefni sem ég sé fyrir mér eru Reykjanesbrautin, samgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu sem eru orðnar aldeilis óviðunandi og eins má flokka undir slík þjóðfélagsleg verkefni jarðgöng eins og reyndar kemur fram í þeirri nýju flokkun sem þó er komið inn á í vegáætluninni.
    Í 2. flokki tel ég að ætti að vera stofnbrautir og þjóðvegir, aðrar en hringvegurinn og þau mannvirki sem ég hef verið að lýsa. Síðan mætti í 3. flokki tala um héraðsvegi sem eru minni að mikilvægi en stofnbrautir og þjóðvegir í kjördæmunum og í 4. flokki yrðu þá aðrir vegir svo sem eins og fjallvegir og reiðvegir svo og vegir til ferðamannastaða með meiru.
    Ég hef líka áður vikið að því að ég er mjög ósáttur með það með hvaða hætti Alþingi ráðstafar fjármunum til vegaframkvæmda. Ég tel að sú aðferð, sem lengst af hefur verið viðhöfð, að þingmenn viðkomandi kjördæma í samvinnu við sérfræðinga Vegagerðarinnar ráði sínum ráðum, þ.e. fyrir viðkomandi kjördæmi, og ákveði í hvaða forgangsröð framkvæmdir innan þess kjördæmis skuli vera, sé aldeilis óviðunandi stjórn á samgöngumálum og vegaframkvæmdum landsmanna. Ég hefði talið að Alþingi, þ.e. fjárveitingarvaldið, ætti að grófskipta þeim fjárveitingum sem ætlaðar eru til samgöngumála, þ.e. til vegaframkvæmda, með þeim hætti að að sjálfsögðu ætti Alþingi að ráðstafa fjármunum til 1. flokks, þ.e. til þjóðfélagslegra verkefna sem varða allt landið í heild sinni. Um það er ekki spurning að Alþingi hlýtur að ráðstafa fjármunum til slíkra verkefna. En fjármunum til 2. flokks og 3. flokks, þ.e. stofnbrauta, þjóðvega og héraðsvega í kjördæmunum, tel ég að eigi að ráðstafa með allt öðrum hætti en hingað til hefur verið gert. Hér kem ég inn á hugmyndir okkar sem lúta að því að koma á aukinni valddreifingu og færa vald heim í hérað, heim til landshlutanna. Ef hægt væri að koma á einhvers konar yfirstjórn eða heimastjórn í landshlutunum bæri henni að skipta þeim fjármunum niður sem viðkomandi landshluta eru ætlaðir til samgönguverkefna, til vegaframkvæmda, en ekki þingmönnum viðkomandi

kjördæmis. Mér finnst það gjörsamlega fráleitt.
    Ég er sannfærður um það að heimamenn, þ.e. þeir sem eru í héraði eða í viðkomandi landshluta, sveitarstjórnarmenn, og ef hægt væri, eins og ég segi, með tiltölulega einföldum hætti koma á einhverri yfirstjórn þeirra mála í viðkomandi landshluta, þeir hafa miklu betri tök á því að meta og ráða fram úr því með hvaða hætti forgangsröðun verkefna ætti að fara fram í viðkomandi landshluta. Með þessum hætti væri hægt að stíga fyrsta skrefið í þá veru að koma völdum og verkefnum heim í hérað í staðinn fyrir, eins og hér hefur verið gert og er verið að gera þessi árin, að stórauka miðstýringuna og safna öllum þráðum saman hjá Alþingi og ráðuneytunum í Reykjavík. Þetta endar líklega með því að jafnvel 5000 kr. framkvæmdum verður ráðstafað héðan úr Reykjavík. Heimamönnum verður ekki einu sinni treystandi fyrir því að ráðstafa slíkum fjármunum. Það stefnir í þvílíka miðstýringu að ég veit eiginlega ekki hvernig það ætlar að enda hjá þessu þjóðfélagi ef fer sem horfir.
    Ég ætla ekki að ræða hér mikið um hvort við fáum meiri fjármuni í ár til samgönguframkvæmda en undanfarin ár. Ég vil þó taka undir með síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Reykn., að það er ansi hart að sjá að hæstv. fjmrh. tókst að ná sér þarna í einar 680 millj. kr. beint í ríkissjóðshítina af þeim peningum sem annars hefðu átt að renna til vegaframkvæmda þrátt fyrir mótmæli okkar í stjórnarandstöðunni þegar við vorum að afgreiða fjárlög á sínum tíma um áramótin. Ég tel að þeim fjármunum hefði betur verið varið til að ljúka ýmsum þeim brýnu verkefnum sem við stöndum frammi fyrir í vegamálum og samgöngumálum yfirleitt frekar en að missa þessa fjármuni beint í ríkishítina.
    Þá langar mig undir lokin að benda á eitt atriði sem ég tel að sé mjög þýðingarmikið og reyndar lykilatriði ef við ætlum að reyna að nýta fjármuni okkar betur í samgöngumálum en hingað til hefur verið gert. Það er að það er í raun tilgangslaust eða tilgangslítið að leggja fram vegáætlun eina sér. Það hlýtur að vera miklu skynsamlegra að reyna að horfa á samgöngumálin í heild sinni. Ég get ekki séð betur en hafnargerð og flugvallagerð hljóti að vera mjög ákveðinn þáttur í samgöngumálum og tengjast öllum okkar áætlunum í vegamálum. Það er vart hægt að ræða áætlun um framkvæmdir í vegamálum nema í sömu andránni séu ræddar áætlanir um hafnargerð og framkvæmdir í flugvallamálum einfaldlega vegna þess að það skiptir verulegu máli ef á t.d. að byggja höfn á einum stað hvernig vegarlagningu er þá háttað í nágrenni við þann stað eða ef á að byggja flugvöll á öðrum stað, þá skiptir það líka máli. Það hlýtur að hafa veruleg áhrif á hugmyndir manna um hvernig vegaframkvæmdum skuli þá háttað í því nágrenni. Eða er það hugmynd manna að þegar t.d. er búið að tengja tvo staði saman með mjög fullkomnum vegi, þá sé sjálfsagt að byggja flugvelli og hafnir á báðum stöðum? Dæmi um þetta sjáum við því miður út um allt land þar sem kannski er verið að byggja upp

mjög fullkomnar og viðamiklar hafnir með stuttu millibili. Meðan vegasamband er mjög lélegt á milli slíkra staða er hægt að verja slíkar framkvæmdir, en þegar er búið að koma á mjög góðu og fullkomnu vegasambandi á milli tveggja staða er þá réttlætanlegt að leggja fjármuni í það að byggja fullkomnar hafnir á báðum stöðunum? Þess vegna finnst mér það vera markleysa að ræða hér vegáætlun nema við ræðum samtímis henni áætlanir í hafnargerð og í flugvallagerð.
    Þetta vildi ég sagt hafa að lokum.