Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Við erum að ræða eitt af þýðingarmestu málum sem eru til umræðu á Alþingi, þ.e. vegáætlun. Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram áður, að þetta er eitt af stærri byggðamálum og mikilvægustu málum sem við stöndum frammi fyrir og það er ekkert mál sem getur treyst byggð í landinu eins og framfarir í samgöngumálum og þá ekki síst í vegamálum. En það sem mig langar til að koma inn á er það að ég get ekki látið hjá líða þrátt fyrir það að ég mun sem fulltrúi í fjvn. fjalla um þetta allítarlega að láta koma fram þá skoðun mína að hér er um stefnubreytingu að ræða. Það má segja um þá langtímaáætlun sem Alþingi fjallaði um á sínum tíma og allir voru sammála um að nota sem tæki í sambandi við framfarir í vegamálum, þó að hún hafi aldrei verið formlega samþykkt, að vegáætlun hefur á hverju ári verið byggð á þessari áætlun. Hún gerði ráð fyrir stefnubreytingu frá því sem áður var að taka skipulega höndum saman um það að reyna að byggja upp aðalvegakerfi landsins. Þar með, sem var eitt af fyrstu atriðum í þeirri langtímaáætlun, var það atriði að allir aðalvegir, allar stofnbrautir yrðu styrktar þannig að þær bæru a.m.k. 10 tonna öxulþunga. Þessu marki er því miður ekki náð enn. Við vitum að hringinn í kringum landið eru ótal vegir sem detta niður og þola ekki einu sinn 7 tonn eða niður fyrir 5 tonn þó að þessi vegir séu merktir sem stofnbrautir sem eigi að þjóna því mikilvæga hlutverki að við tryggjum samgöngur á aðalvegum um allt landið.
    Hins vegar hefur tekist með mjög mikilli útsjónarsemi Vegagerðar ríkisins og þeim ber að þakka fyrir það að ná fram í langtímaáætluninni þeim hugmyndum að ná fram bundnu slitlagi nokkurn veginn eftir því sem ráð var fyrir gert. Þetta tókst bæði með nýjum aðferðum, útboðum og hagkvæmni í vinnubrögðum og nýrri tækni. Hins vegar er alveg ljóst og rétt að hv. þm. geri sér grein fyrir því að þetta þýddi að það voru tekin öll léttari verkefnin í vegagerðinni en flest erfiðustu verkefnin í stofnbrautakerfinu eru eftir óleyst. Þau kosta miklu, miklu meira fjármagn en þær framkvæmdir allar sem hér hefur verið um rætt. Það er þessi vandi sem mér finnst að við stöndum frammi fyrir í dag. Þegar við ræðum núna nýja vegáætlun fyrir næstu fjögur ár finnst mér þyngst á metunum: Hvernig ætlum við að brúa þetta bil? Þarna tel ég að sé um nokkra stefnubreytingu að ræða þar sem gert er ráð fyrir að við tökum inn, umfram það sem er í gildandi vegáætlun, ný stórverk umfram þau Ó-verkefni sem hafa verið í langtímaáætlun og á vegáætlun til þessa dags. Þar er stærsta verkefnið óleyst, þ.e. jarðgöngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla. Ég vil rifja það upp að við vegáætlun á sl. ári gerði ég margítrekaðar fyrirspurnir til þáv. samgrh., sem flutti ágæta ræðu hér áðan, um hvernig hugmyndin væri að fjármagna þegar gerðan samning um byggingu jarðganga í gegnum Ólafsfjarðarmúla í einum áfanga eða svo til óslitið. Auðvitað komu engin svör. Það lá alveg ljóst fyrir í

áætluninni fyrir árið í fyrra, 1988, í sambandi við Ólafsfjarðarmúlann að það vantaði 35 millj. kr. Það var ýjað að því að þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra yrðu að sjá um lántöku til þessa verkefnis miðað við verkútboðið. Það sem svo skeði var að hæstv. fjmrh. lagði fram aukafjárveitingu á gamlársdag eða þar um, 35 millj. kr., til að greiða þessa fjárhæð þannig að hún er raunverulega úr sögunni. ( M ÁM: Hann dró það af inneign Vegasjóðs.) Hins vegar er ljóst í mínum huga að stórverk eins og Ólafsfjarðarmúlinn og til þess að standa við það verk sem verður að gera og við erum allir, hv. þm., sammála um, þá þýðir ekki svona kák. Það verður að taka til þess erlent lán. Og ég vek athygli á því að þrátt fyrir þá tillögu sem er gerð í þessari till. til þál. um 200 millj. kr. vantar 100 millj. minnst í viðbót. Það kom fram í upplýsingum frá Vegagerð ríkisins á fundi fjvn. í morgun. Og hvar á að taka það? Það er ekki stafkrókur um það.
    Ég ætla að lýsa því hér yfir að ég er algerlega andvígur því að það sé sett upp eins og hér er gert að það eigi að taka 200 millj. kr. af óskiptu fjármagni frá öðrum þáttum til nýrra þjóðvega inn í þetta verkefni á þessu ári. Það verður að finna aðra leið til þeirrar fjármögnunar. Ég tel að ríkisstjórnin sé skyldug til þess. Það verður að harma það að þrátt fyrir allar upplýsingar sem fyrir lágu, að það vantaði um 300 millj. kr. á þessu ári til þess að ná því markmiði sem búið er að semja um, er ekki einn einasti stafkrókur, hvorki í lánsfjárlögum né annars staðar. Það er útilokað að ganga á rétt annarra kjördæma í sambandi við þau verkefni sem búið er að semja um á þennan hátt. Ég tel að það sé rétt að láta þetta koma fram strax við 1. umr. málsins um leið og ég rifja upp umræðurnar við hæstv. fyrrv. samgrh. á sl. ári, einmitt um þetta atriði, að ríkisstjórnin yrði að gera það upp, þáv. ríkisstjórn, hvernig hún hygðist standa fyrir þessu stórverki sem búið var að semja um, sem var algerlega opið í umræðunni um vegáætlunina á sl. ári. Ég tel skyldu mína að rifja þetta upp þó að við munum hins vegar ræða þetta vandlega í fjvn. En þarna vantar 100 millj. í viðbót við þær 200 millj. sem gert er ráð fyrir að taka af óskiptu frá öðrum verkefnum sem ég er algerlega andvígur.
    Ég ætla ekki að fara ítarlega ofan í þessa vegáætlun við þetta tækifæri. Ég geri það í sambandi við störf mín í fjvn. og þegar sú niðurstaða sem þar fæst
verður kynnt. En ég get ekki látið hjá líða að minna einnig á annað mál í þessu sambandi sem var mjög umdeilt við afgreiðslu vegáætlunar á sl. ári, það fjármagn sem Vegasjóður á samkvæmt gildandi lögum frá 1986--1987 og frá 1988, þ.e. tekjur Vegasjóðs umfram áætlunina sem hann réttilega á og voru 285 millj. í vegáætlun fyrir árið 1988 og var við afgreiðslu málsins á hv. Alþingi af fjvn. skipt upp milli kjördæmanna nákvæmlega á verkefni sem er hægt að sjá í þingskjölum frá sl. ári.
    Við afgreiðslu fjárlaga í ár upplýstist að þessi fjárhæð er komin niður í 180 millj. vegna þess að

tekjur af þeim tekjustofnum sem Vegagerðin hefur innheimtust ekki eins og ráð var fyrir gert 1987--1988 og það er ekki nema eðlilegt að það sé tekið til viðmiðunar, en það voru 180 millj. Ég dreg ekki þarna frá 35 millj. vegna Ólafsfjarðarmúla eins og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen taldi að þurfi að gera hér. Það er búið að afgreiða þá upphæð með aukafjárveitingu þannig að það er afgreitt mál. En það eru 180 millj. og við afgreiðslu fjárlaga á sl. hausti og í vetur var tekið fram að það væri alveg útilokað annað en það væri skýrt og skorinort að þetta væri inneign Vegasjóðs hjá ríkissjóði sem ríkissjóður yrði að skila í vegáætlun annaðhvort þetta ár eða næsta ár. Það var spurning um hvort ríkisstjórnin gæti það eða ekki, en alla vega var það neglt niður að þetta væri fjármagn sem ekki væri hægt að nota í annað og það vil ég sérstaklega undirstrika þannig að það komi ekki aftan að neinum í sambandi við þessi mál.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, lengja þessar umræður mikið meira, en það mætti margt um þetta tala. Ég verð að segja alveg eins og er að ég reiknaði ekki með því, og segi það alveg í fullri hreinskilni hér, að hæstv. samgrh. treysti sér til að breyta þessari langtímaáætlun þannig að taka þessi stórverkefni, þar á ég við jarðgöngin, inn í vegáætlunina fyrr en eftir að langtímaáætlunartímabili lýkur, þ.e. við værum búnir að ná tökum á því að byggja upp þá þætti í stofnbrautunum sem eru núna Ó-vegir í hverju einasta kjördæmi. Ég vænti þess að reynslan í vetur hafi sannað enn betur hvar þessir vegarkaflar eru í hverju kjördæminu á fætur öðru sem á eftir að leggja í tugi og hundruð milljóna. Ég get nefnt bara eitt lítið dæmi sem er aðalþröskuldurinn frá Borgarnesi og vestur á Vesturland, Mýrarnar. Það eru ekki nema 21 og 22 km. En það kostar yfir 200 millj. að gera þennan veg svo að viðunandi sé. Þessi þáttur í samgöngumálum Vesturlands hefur orðið að bíða m.a. meðan verið var að leggja varanlegan veg norður Holtavörðuheiði og upp Norðurárdal, en vegur vestur Mýrar er út undan og það er ekki hægt að sjá það í sambandi við þessa uppsetningu í hinu almenna stofnbrautakerfi að við hefðum fjármagn í þennan veg næstu fjögur ár, hvað þá heldur næstu 5--6 ár, miðað við þær fjárhæðir sem hér eru lagðar til grundvallar.
    Þetta er aðeins lítið dæmi um hvar við stöndum í þessum málum. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég harma það mjög þrátt fyrir ábendingar á undanförnum árum, á hverju ári fyrir sig og síðast á sl. ári þegar við vorum að ræða vegáætlunina, að það hefur ekki verið hreyft hönd eða fótur til að endurskoða langtímaáætlunina á sama hátt og gert var þegar hún var sett á og undirbúin. Þá voru þingmenn í nefndum sem lögðu mánuð eftir mánuð í að búa þessa áætlun til með Vegagerð ríkisins og finna skynsamlegar aðferðir til að ná þeim árangri, sem við öll erum sammála um, að gera vegi hér á landi varanlega og a.m.k. þannig úr garði að við getum borið höfuðið sæmilega hátt miðað við að öll svæði landsins eigi nokkuð öruggar samgöngur á landi. Þessu er ekki lokið. Ég er ekki á móti, síður en svo,

að setja jarðgöng af stað og stórbrýr yfir firði o.s.frv., sem við erum auðvitað öll sammála um, en það verður að vera einhver skynsemi í því og við séum ekki að setja eitthvað upp til sýnis sem við getum svo alls ekki staðið við að setja af stað. Það er þetta sem skilur á milli. Auðvitað eru þetta verkefni upp á kannski 12--14--15 milljarða kr. sem hér eru talin upp. Ég er síður en svo að hafa á móti því að áætlun um þetta komi fram og það strax og raunhæf áætlun. En ég vil bara að það sé ekki um leið hlaupið frá þeirri skyldu, sem við höfum og höfum viðurkennt og lofað fólkinu í byggðarlögunum, að vinna eftir langtímaáætluninni, að ná því markmiði að a.m.k. allir aðalvegir landsins, stofnbrautirnar, séu þannig úr garði gerðir að venjulegir flutningabílar geti farið um þá með nokkru öryggi allt árið um kring. Hvað er þar eftir? Það kemur ekki hérna fram, en auðvitað vitum við sjálfir hvernig þau mál standa.
    Ég taldi rétt, virðulegi forseti, að láta þetta koma fram hér. Það má enginn skilja það svo að ég sé að draga úr stórum áformum í vegagerð. Það hefur verið mitt hjartans mál frá því að ég kom á þing að vinna að því og ég mun að sjálfsögðu halda því áfram, en ég vil að við séum svolítið raunsæ miðað við það ástand sem er í þessum málum og miðað við það fjármagn sem við höfum í höndunum. Ekki skal standa á mér að styðja að því ef við getum fundið nýtt fjármagn og auðvitað fagna ég því hjá hæstv. samgrh. að hann slær því núna föstu að þeir tekjustofnar sem Vegagerðin á og hefur átt í áraraðir skuli allir koma með skilum til verkefnisins. Auðvitað fagna ég því. En jafnframt
vil ég benda á þetta og um leið endurtaka að ég get ekki fallist á þá uppsetningu að taka 200 millj. af nývegafénu í ár og setja það í Ólafsfjarðarmúla. Það verður að finna aðrar leiðir til að fjármagna þetta mikilvæga verkefni sem allir eru sammála um að verði að ljúka samkvæmt áætlun.
    Ég ætla svo ekki að segja meira, virðulegi forseti. Ég mun ræða þetta og skoða alla þætti þessa máls í meðferð þáltill. í fjvn., en ég tel að við þurfum að skoða marga þætti vandlega.