Frestun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa nokkurri óánægju með þá ákvörðun forseta að fresta utandagskrárumræðu þar til eftir að umræðu um vegamálin lýkur. Nú háttar svo til að ég hafði tvisvar áður beðið um þessa utandagskrárumræðu, sl. mánudag og sl. fimmtudag, og taldi mig hafa sýnt mikla sanngirni með því að hliðra til báða þá daga og sætti mig þess vegna ekki alveg við þegar þessi utandagskrárumræða kemst loksins að við þriðju beiðni að henni skuli frestað með þessum hætti langt fram á nótt eða a.m.k. langt fram á kvöld. Allar líkur eru til þess og þá lítil von til þess að hún í rauninni hljóti þær undirtektir og þann hljómgrunn sem umræðu af þessu tagi ber. Ég vil því fara fram á það við hæstv. forseta að hann íhugi hvort ekki er hægt að breyta tilhögun þingmála í kvöld.