Frestun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að harma það að ekki skuli vera hægt að fallast á það af hæstv. forseta að umræðan um efnahagsmál og kjaramál sem hér var hafin skuli geta haldið áfram viðstöðulaust. Síðast þegar rætt var um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þegar þing kom saman að nýju eftir áramótin var sú umræða skorin þannig niður að hún var orðin að tætingi undir lokin og ekki var hægt að segja að síðari hluti þeirrar umræðu væri í rauninni efnislega mögulegur þar sem allar forsendur höfðu breyst á þeim tíma sem leið á milli yfirlýsinga forsrh. og þess að þeirri umræðu lauk fyrir svo utan það að menn fengu ekki að ljúka ræðum sínum.
    Ég hlýt líka að láta í ljós undrun mína yfir því að hæstv. sjútvrh. skuli lýsa því yfir hér síðari hluta dags að það jafngildi því að setja sjávarútveginn á höfuðið ef ekki verði gripið til gengisfellingar nú í kjölfar samninganna við BSRB því að hann viðurkenndi að eðlilegt væri að krafa yrði gerð um að þær launahækkanir sem þar náðust fram gengju yfir allt þjóðfélagið. Ég hlýt að árétta beiðni hv. 18. þm. Reykv. um leið og ég skýri frá því að Sjálfstfl. hafði ákveðið að biðja um utandagskrárumræðu um stöðu atvinnulífsins nú í dag, en féllst auðvitað á að þær umræður gætu vel fallið saman við þær utandagskrárumræður sem Samtök um kennalista höfðu beðið um. Ég get ekki skilið að umræður um vegamál séu brýnni. Ég get undir engum kringumstæðum skilið það.
    Það vakti líka athygli mína þegar við efrideildarmenn fengum á þingflokksfund dagskrá Ed. á morgun og uppkast að dagskrá Ed. á miðvikudaginn að þar var ekki gert ráð fyrir að halda áfram umræðum um frv. hv. 7. þm. Reykn. sem miklar umræður höfðu orðið um og fullkomið samkomulag, ég skildi það svo, hafði orðið milli Borgaraflokks og forseta Ed. um að þeirri umræðu mundi ljúka í Ed. á morgun. Það er auðvitað gamalkunnugt hér í þinginu að ríkisstjórnin hafi mest um það að segja í hvaða röð mál séu tekin fyrir, en hitt hygg ég að sé algjört einsdæmi að forsetar skuli ekki reyna að sjá um það að efnislegar umræður að gefnu tilefni, eins og umræðan nú um launamálin, skuli geta gengið snurðulaust fyrir sig og auðvitað ámælisefni að þessi utandagskrárumræða skuli ekki hafa hafist þegar í dag kl. eitt þar sem hæstv. forseta mátti ljóst vera að þessi umræða yrði löng og ströng. Ráðherrar höfðu gefið yfirlýsingar en stjórnarandstöðunni hafði ekki gefist tækifæri til þess að gera athugasemdir við það sem þessir einstöku ráðherrar höfðu að segja. Það eru auðvitað mikil tíðindi þegar annars vegar liggur fyrir að hæstv. forsrh., sá sem myndaði ríkisstjórnina, lýsti því yfir áður en hann hvarf af landi brott að nú yrðu atvinnuvegirnir að semja um kjarabætur innan þess ramma sem rekstrarforsendur atvinnuveganna leyfðu. Þegar settur forsrh. kemur nú í dag í kjölfarið og lýsir hinu gagnstæða yfir, að þessar launahækkanir hljóti að ganga yfir þjóðfélagið og talar jafnframt um það að óhjákvæmilegt sé annað en leiðrétta stöðu

atvinnuveganna með gengisfellingu síðar á árinu og opnaði meira að segja möguleika fyrir því að slík gengisfelling gæti orðið þegar í þessum mánuði og í síðasta lagi í þeim næsta, þess vegna, því að hann var mjög ónákvæmur í sambandi við tímasetningar í sinni ræðu.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því að fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga, en fyrir þau samtök eru bæði hæstv. forsrh. og settur forsrh. á þingi, lýstu því yfir í sjónvarpi í dag að kjarasamningarnir hefðu verið slys. Ég vil því mjög mælast til þess að hæstv. forseti endurskoði ákvörðun sína og geri stjórnarandstöðunni mögulegt að ræða efnislega um kjaramálin og um efnahagsmálin um leið og ég bið hæstv. forseta að gera ráðstafanir til þess að hæstv. forsrh. sitji þingfund og svari fyrirspurnum sem honum hlýtur að vera ljóst að óhjákvæmilegt er að komi frá einstökum þm. vegna þeirra yfirlýsinga sem hann gaf í ræðu sinni hér í dag.