Frestun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Mér finnst það fullkomlega eðlileg og rétt ráðstöfun hjá forseta að halda nú áfram umræðum um vegáætlun. Það skiptir miklu máli að vegáætlun fái hér greiða umfjöllun í þinginu. Hún er dagskrármál og ég lýsi þeirri skoðun minni að sem dagskrármál á vegáætlunin að hafa forgang yfir þá umræðu utan dagskrár sem hér er vakin í auglýsingaskyni. Og mér finnst það fullkomlega eðlilegt að sú umræða sem hefur tekið töluverðan tíma af fundartíma Sþ. í dag verði nú látin doka af þeim ástæðum sem ég hef hér tilgreint og umræðum um dagskrármál verði haldið áfram. Ég held að það sé hinn eðlilegi framgangsmáti og fullkomlega rétt og eðlilegt.