Frestun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir stuðningi mínum við þær hugmyndir hv. 18. þm. Reykv. Þórhildar Þorleifsdóttur og 2. þm. Norðurl. e. að það er eðlilegra og réttara að ljúka þessari utandagskrárumræðu um kjaramál og efnahagsmál þannig að hún verði ekki slitin í sundur. Mér er sjálfum málið skylt þar sem ég er hér í miðri ræðu og þó ég hafi reyndar gleymt gleraugunum mínum heima er mér ekkert að vanbúnaði að halda ræðu minni áfram. Það er nú svo að þó að vegamálin séu eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. mikilvægur málaflokkur og nauðsynlegt að ljúka þeirri umræðu einnig, þá er hér um að ræða kannski það mál sem brennur hvað mest á þjóðinni allri, en það er sú óstjórn sem nú ríkir í efnahags- og atvinnumálum landsins og raunverulega það sem blasir við, að það virðist stefna í algjört hrun fram undan í þjóðfélaginu. Atvinnulífið verður hér nánast í rúst á næstu mánuðum og það er ekki nema eðlilegt að alþingismenn vilji fá að ræða þetta og það án þess að sú umræða verði trufluð. Því legg ég nú til, hæstv. forseti, að við höldum þessari umræðu áfram.