Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Það hefur komið glöggt fram í umræðunni í dag hversu vegamál eru þingmönnum hugleikin, enda eru samgöngumálin eitthvert brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar allrar. Það er mikilvægara en margir gera sér ljóst að samgöngur séu sem greiðastar og bestar. Í raun og veru eru góðar samgöngur ein meginforsenda þess að byggð haldist um landið á svipuðum nótum og verið hefur. Því er allhart að una því ár eftir ár að skertar séu tekjur til Vegagerðarinnar og nú síðast seilst í sérmarkaða tekjustofna og þeir skertir svo freklega sem raun ber vitni án þess að nokkurs staðar komi fram að ætlunin sé að skila þessu fé aftur. Bifreiðaeigendum þykir að vonum illt að vera skattlagðir sérstaklega vegna uppbyggingar vegakerfisins og mega síðan í ár horfa á eftir 682 millj. kr. af því fé beint í ríkissjóð til allt annarra hluta. Þetta og þvílíkt er auðvitað með öllu óþolandi og við kvennalistakonur mótmæltum þessu harðlega við gerð fjárlaga.
    Vegáætlun fyrir árið í ár ber auðvitað merki þessarar skerðingar eins og lýst hefur verið hér af öðrum og ég fer ekki frekar út í það. En um vegáætlun hvað varðar árin þrjú að þessu loknu, þ.e. árinu í ár, má sitthvað segja. Þar er að vísu nokkur nýbreytni svo sem að færa á næsta ári liðinn Bundið slitlag undir Almenn verkefni og liðurinn Stórverkefni, sem á að vera utan kvóta kjördæmanna, er tekinn upp og höfuðborgarsvæðið og Ó-vegir færðir þangað. Þetta tel ég til bóta þó að sjálfsagt séu skiptar skoðanir um það eins og við höfum heyrt hér. Finnst ýmsum að fleira mætti heyra undir þennan lið.
    Það sést einnig á áætlun fyrir 1990, 1991 og 1992 að þar er ekki gert ráð fyrir að tekjustofnar Vegagerðar ríkisins verði skertir á þeim árum. En getum við treyst þessu? Til hvers er verið að gera áætlanir eins og vegáætlun, sem Vegagerð ríkisins gerir af stakri samviskusemi og miðar vitanlega við þær tekjur sem lögboðið er að hún fái, ef svo sífelldlega er seilst til teknanna af ríkisvaldinu? Ég ítreka það enn að slíkur hráskinnaleikur er gersamlega óþolandi.
    Menn hafa talað um það að endurskoðun langtímaáætlunar sé nauðsynleg. Víst er nauðsynlegt að hafa framtíðarsýn um hvernig samgöngumálum skuli háttað í heild og og að gerðar séu áætlanir um þau mál. Þar vil ég taka undir með hv. 7. þm. Reykn. sem talaði um að nauðsynlegt væri að gera heildaráætlun um samgöngur, og þá um öll samgöngumannvirki, hafnir, flugvelli og vegagerð, á þann hátt að þetta tengdist hvað öðru og væri byggt upp af hagsýni þannig að ekki væri verið að byggja upp of mörg dýr mannvirki. Mér sýnist að að þessum málum þurfi að huga. Því fyrr, því betra. En áætlanir koma fyrir lítið ef áfram verða skornar niður fjárveitingar og seilst til markaðra tekjustofna. Flokkur fjmrh. og samgrh. hafði ekki dálæti á þess konar aðgerðum fyrir ári síðan og ég vænti þess að þeir haldi ekki áfram uppteknum hætti með þessar ráðstafanir.

    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. sem talaði hér á undan mér gerði mjög góða grein fyrir því hvernig vegáætlun er sett upp og hvað honum líst um fyrirhugaða fjármögnun. Ég er honum sammála um það flest og hef ekki við það að bæta. Fjvn. á eftir að fjalla um vegáætlunina og ég geri ráð fyrir að þar sé mikil vinna fram undan því að margir lausir endar eru í þessu og breytinga von og þörf. En með tilliti til þess að enn eru nokkrir á mælendaskrá og ætlað var að halda áfram utandagskrárumræðum, þá lengi ég ekki mál mitt neitt frekar að sinni.