Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég bar áðan fram ósk um að þessari umræðu yrði fram haldið á morgun þar sem hæstv. sjútvrh. þurfti að fara upp í Borgarfjörð og gat ekki setið þennan fund, en hann gaf yfirlýsingu um það hér í dag að gengisfelling yrði óhjákvæmileg í kjölfar þeirra samninga sem hæstv. fjmrh. hefur gert við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Ég sé raunar að fjmrh. er ekki í húsinu. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta að fundi verði frestað til kl. 1 á morgun. Þá getum við haldið þessari umræðu áfram og lokið henni þannig að þessar þýðingarmiklu umræður geti haldið áfram.
    Ég vil ítreka það, sem ég sagði fyrr í kvöld, að það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að hæstv. fjmrh. geri Alþingi grein fyrir kjarasamningum sem hann gerir við opinbera starfsmenn og að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir þeirri stöðu sem er í kjaradeilu ríkisins við Bandalag háskólamenntaðra manna og það er jafnframt nauðsynlegt að sá maður sem gegnir störfum forsrh., hæstv. sjútvrh., sé viðstaddur þá umræðu, jafndjúpt og hann tók í árinni um afleiðingar samninganna nú í dag. Ég vil því mælast til þess við hæstv. forseta hvort ekki sé rétt að gera hlé á þessum fundi nú þannig að hæstv. forseta gefist ráðrúm til að ræða við stjórnarandstöðuna og þá ráðherra sem við eru um það hvort við getum ekki orðið ásátt um að halda umræðunni áfram á morgun þannig að hún þjóni sínum tilgangi. Það er algjörlega út í bláinn að ætla að stjórnarandstaðan geti haldið umræðunni áfram hér í kvöld án þess að hæstv. sjútvrh. sé viðstaddur, gjörsamlega út í hött. Ég veit að hæstv. forseti vill eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna og mun taka þessari málaleitan vel.