Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti hlýtur að upplýsa að það er óframkvæmanlegt að halda fund í sameinuðu þingi á morgun. Sú utandagskrárumræða sem hér hefur farið fram í dag var ætluð þessum fundi og ekki öðrum. Hv. forsetar efri og neðri deildar hafa gefið út dagskrá fyrir fundi sína á morgun og forseti sameinaðs Alþingis hefur ekki minnsta umboð til að breyta þeirri áætlun. Þetta vænti ég að hv. þm. skilji og að sjálfsögðu fer þessi utandagskrárumræða fram eins og áætlað var, ella verður hún að bíða fimmtudags. Ég vil þó taka fram að ég tel ólíklegt að það væri gerlegt þar sem á fimmtudaginn mun hæstv. utanrrh. birta þinginu skýrslu um kafbátsslysið í Atlantshafinu. Þetta er eini tíminn sem hugsanlegur er fyrir þessa umræðu í þessari viku og vil ég biðja hv. þm. að reyna að sætta sig við það.