Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Þær umræður sem hafa farið fram í dag um stöðu kjaramála og stöðu atvinnulífsins eru í senn bæði tímabærar og nauðsynlegar, ekki síst eftir þá atburði að nú hafa tekist kjarasamningar með ríkisvaldinu og BSRB sem á margan hátt hafa gerbreytt stöðunni þó að vart verði sagt, sérstaklega ekki eftir þær umræður sem fram hafa farið í dag, að þær hafi orðið til þess að skýra stöðuna í kjaramálum eða atvinnumálum í landinu. Sannleikurinn er sá að enn þá standa menn frammi fyrir jafnóleystum vanda og áður varðandi þá kjarasamninga sem fram undan eru bæði hjá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, ASÍ og VSÍ. Þrátt fyrir ýmsar óljósar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um vonir hans og væntingar varðandi samninga við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna hefur ekkert komið fram sem gefur ákveðnar vísbendingar um að það sé að skína í sættir í þessum kjaradeilum og yfirlýsingar talsmanna atvinnulífsins og talsmanna verkalýðshreyfingarinnar á síðustu dögum í kjölfar samninga ríkisins og BSRB benda síður en svo til þess að lausn sé í sjónmáli, a.m.k. ekki lausn sem getur kallast farsæl fyrir atvinnulífið og launþegana í landinu.
    Kjarni málsins er sá að staða atvinnulífsins í landinu og því miður ekki lengur einungis útflutningsatvinnuveganna heldur staða atvinnulífsins nær undantekningarlaust er þannig að hún gefur því miður ekki svigrúm til mikilla kauphækkana. Raunar tók hæstv. sjútvrh. af tvímæli um það í ræðu sinni í dag þegar hann sagði það bókstaflega og beint út að raunverulega væri svarið nei við þeirri spurningu hvort hægt sé að greiða hærri laun en nú er gert í sjávarútvegi. Þetta er hinn blákaldi veruleiki sem blasir við þeim samningamönnum sem nú sitja á ströngum fundum VSÍ og ASÍ í því skyni að reyna að leysa þann kjaradeiluhnút sem kominn er í þessar viðræður.
    Sannleikurinn er sá að eftir margra mánaða og missira taprekstur í atvinnulífi landsmanna, einkum útflutningsatvinnuvegunum, er einfaldlega ekki fyrir hendi í dag það svigrúm til kjarasamninga sem samningar BSRB og ríkisvaldsins krefjast. Formaður Vinnumálasambands samvinnufélaganna, Hjörtur Eiríksson, útskýrir þetta mjög vel í Tímanum á laugardaginn þegar hann segir sem svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við fengum í hádeginu skilaboð frá Ólafi Ragnari Grímssyni fjmrh. og þau voru mjög skýr.`` Og Hjörtur Eiríksson segir jafnframt að skilaboð Ólafs Ragnars hefðu verið þau að það væri frjáls samningsréttur í þessu landi. Ríkið semdi um það sem það hefði efni á, vinnuveitendur ættu að semja um það sem þeir hefðu efni á. Síðan segir Hjörtur: ,,Staðan í öllum atvinnurekstri í landinu í dag er þannig að það er taprekstur þannig að þar með vita menn um hvað verið er að semja og um hvað á að semja.`` Hann segir enn fremur að það sé alveg ljóst að fyrirtækin í landinu hefðu ekki efni á því að semja um launahækkanir. ,,Við höfum margoft sagt við

ríkisstjórnina að atvinnuvegirnir í landinu þoli enga kauphækkun. Við höfum sagt að ríkisstjórnin verði að koma atvinnuvegunum á réttan rekstrargrundvöll. Það er forsenda þess að möguleiki sé á því að ræða um launahækkanir.``
    Þetta er ákaflega athyglisverð yfirlýsing í ljósi nýgerðs kjarasamnings og ákaflega athyglisverð yfirlýsing í ljósi þeirra yfirlýsinga og þeirra frýjunarorða sem hæstv. fjmrh. hefur æ ofan í æ beint að atvinnulífinu í landinu. Ráðherrann hefur sagt sem svo að það sé ekki á ábyrgð ríkisins hvernig til tekst um kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Hann hefur réttilega minnt á þá grundvallarstaðreynd og það grundvallaratriði að við viljum viðhalda frjálsum samningsrétti. Um þetta er enginn ágreiningur í þessu þjóðfélagi. Það er einungis í einstaka neyðartilvikum sem menn hafa talið sér nauðsynlegt að grípa inn í kjarasamninga og þá hefur ekki gilt neinu hver hefur setið í ríkisstjórn. Alþb. jafnt og aðrir stjórnmálaflokkar hefur gripið inn í kjarasamninga um tímabundið skeið í því skyni að ná tökum á efnahagslífinu, en það hefur ekki breytt þeirri meginstaðreynd að menn eru sammála um það að hér eigi að ríkja frjáls samningsréttur.
    En auðvitað standa menn frammi fyrir þeim vanda að atvinnulífinu eru skömmtuð starfsskilyrði, m.a. með efnahagsstefnu hverrar ríkisstjórnar í landinu. Starfsskilyrðin eru þau sem Hjörtur Eiríksson lýsti svo rækilega og ágætlega í Tímanum á laugardaginn og eru sá rammi sem ríkisvaldið ætlar atvinnulífinu til þess að semja við starfsfólk sitt. Það er sá frjálsi samningsréttur sem menn búa við í dag. Sé það einlæg skoðun ríkisvaldsins að það eigi að vera grundvöllurinn að samningaviðræðunum nú hljóta allir að sjá hver niðurstaðan verði á því, enda fór ekkert á milli mála hver var skoðun hæstv. sjútvrh. í þessum efnum í ræðu hans í dag. Það fór ekkert á milli mála og hefur verið rækilega tíundað.
    Hann sagði einfaldlega að svarið væri nei við spurningunni um hvort hægt sé að greiða hærri laun í sjávarútvegi í dag. Hann gaf enn fremur yfirlýsingu um að það væri nánast óhjákvæmilegt að gengið félli. Það væri gengissig í einu stökki. Gengissig væri óhjákvæmilegt þegar liði á árið. Þetta er mjög
athyglisverð yfirlýsing, ekki síst vegna þess að hið gagnstæða hefur komið fram í máli formanns BSRB sem vísað hefur í endurskoðaða þjóðhagsáætlun því máli sínu til stuðnings að ekki sé ástæða til að ætla að ríkisstjórnin muni efna til gengisfellingar í kjölfar kjarasamninga eins og þeirra sem BSRB og ríkisstjórnin hafa nýlega gert.
    Það er þess vegna ekki annað en gamaldags málfundakarp, svo að ég noti orð hæstv. fjmrh., þegar hann er að reyna að hliðra sér undan því að ræða þá pólitísku ábyrgð sem ríkisstjórnin ber þegar farið verður í að reyna að leysa þá kjaradeilu sem er nú ríkjandi milli ASÍ og VSÍ. Þegar hinn blákaldi raunveruleiki er sá að atvinnulífið stendur nú sem rjúkandi rúst. Almennur taprekstur varð í atvinnulífinu

á síðasta ári og niðurstaða ársreikninga fyrirtækjanna, sem nú eru sem óðast að líta dagsins ljós, er öll á sama veg. Endurskoðendur, sem hafa hvað best yfirlit yfir stöðu atvinnulífsins, segjast aldrei hafa séð annað eins. Þegar svo er komið málum er það algjörlega óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin beri þarna pólitíska ábyrgð, átti sig á því hlutverki sínu að skapa almennan rekstrarramma, það vinsamlega efnahagsumhverfi sem atvinnulífið þarf til þess að geta greitt bærileg laun í landinu.
    Ég held að flestum hafi brugðið við þau harkalegu viðbrögð fjmrh. við einföldum spurningum atvinnulífsins sem kviknuðu í kjölfar BSRB-samkomulagsins, þessum yfirlýsingum á borð við þær sem ráðherrann lét frá sér fara til að mynda í Morgunblaðinu skömmu eftir að samningurinn var undirritaður, en þar segir svo: ,,Nú, ef frjáls samningsréttur er grundvallarreglan þá er það verkefni atvinnurekenda á almenna vinnumarkaðnum og samtaka launafólks sem þar eru að gera sína kjarasamninga. Það er nánast fáránlegur málflutningur, segir hæstv. ráðherra, að segja að við séum að gera kjarasamninga fyrir hönd þeirra og allra sérkennilegast þegar það kemur úr munni þeirra sem eru að heimta frelsi á öllum sviðum og ætla sér þess vegna núna að gerast talsmenn fullkominnar ríkisforsjár í launamálum.`` Þetta er gamaldags málfundakarp í hæstv. fjmrh.
    Það er enginn að fara fram á neina fullkomna ríkisforsjá í þessum efnum. Menn ætla hins vegar eingöngu að ríkið hafi til að bera þá ábyrgð og það sé pólitískur vilji núv. hæstv. ríkisstjórnar að almenningur í landinu beri úr býtum hliðstæðar kjarabætur við þessi þröngu skilyrði sem nú eru í okkar þjóðfélagi. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir þessari pólitísku grundvallarspurningu hvort stjórnvöld hyggist búa þannig áfram að fyrirtækjunum í landinu að þau geti ekki mætt kröfum starfsmanna sinna um sambærilegar launahækkanir og BSRB fékk í samningunum við ríkisvaldið. Þetta er sú grundvallarspurning sem jafnt atvinnurekendur og launþegar innan ASÍ spyrja þessa dagana. Það sem er sérstaklega athyglisvert við þessa umræðu hér í dag er það að hvorki í máli hæstv. fjmrh. né í máli hæstv. sjútvrh. örlaði á neinum tilburðum til þess að svara þessari spurningu beint. Ef maður hins vegar reynir að lesa bókstaflega út úr málflutningi hæstv. ráðherra, þá hlýtur niðurstaðan að vera sú að úr því að atvinnulífið eigi að búa við óbreytt starfsskilyrði og gera sína kjarasamninga á eigin ábyrgð svo sem eðlilegt er, þá sé það pólitísk viljayfirlýsing og pólitísk ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að kjarabætur þær, sem opinberir starfsmenn hafa fengið með þessum kjarasamningum nú, eigi ekki að breiðast út til starfsfólks á hinum almenna launamarkaði í landinu.
    Það er hins vegar mikilvægt að við fáum úr þessu skorið mjög ákveðið. Ekki síst þess vegna hefði verið nauðsynlegt að hér hefði verið staddur hæstv. sjútvrh. sem, eins og margoft hefur komið fram í umræðum hér í dag og kvöld, gaf ákaflega miklar yfirlýsingar

um stöðu efnahagslífsins og vilja sinn til þess að fella gengi íslensku krónunnar. Það hefði verið ákaflega fróðlegt og forvitnilegt fyrir okkur sem sátum og hlýddum á þessar umræður að fá frekari skýringar ráðherrans á þessum sjónarmiðum.
    Ég held, virðulegi forseti, að þessar umræður hafi leitt það í ljós að þrátt fyrir það að ríkisstjórnin hafi gert þennan kjarasamning við BSRB, þá sé innan hennar ágreiningur um það með hvaða hætti eigi að leysa málin gagnvart atvinnulífinu í landinu. Hæstv. fjmrh. hefur gefið út þær yfirlýsingar í fjölmiðlum að BSRB-samkomulagið gefi ekki tilefni til þess að taka undir ,,gengisfellingargrátkórinn`` --- eða svo minnir mig að hann hafi tekið til orða --- en hæstv. sjútvrh. hefur talað á allt öðrum nótum. Hvorugur hefur þó tekið af skarið um það hvernig mæta eigi þeim mikla vanda sem atvinnulífið stendur frammi fyrir og hvernig mæta eigi þeirri eðlilegu kröfu forseta ASÍ, sem hann kom fram með þegar í kjölfar BSRB-samkomulagsins, að eðlilegt væri að þessir samningar væru fyrirmyndin að samningum ASÍ og VSÍ. Raunar er það svo að hæstv. sjútvrh. viðurkenndi þetta líka í dag þegar hann sagði að auðvitað væri þessi samningur ríkisvaldsins og BSRB leiðandi um alla samningagerð í landinu á komandi vori. En jafnframt lýsti hann því yfir að tap sjávarútvegsins í landinu mundi aukast um 2% ef þetta gengi eftir. Ef þessi samningur yrði ,,kópíeraður`` fyrir ASÍ og VSÍ, þá þýddi þetta 2% aukningu á tapi
sjávarútvegsins og er það þó ærið fyrir.
    Það er þess vegna ekki vonum seinna að nú þegar í þessari umræðu verði upplýst á hvern hátt ríkisstjórnin hyggist taka á þessu vandamáli. Það gengur einfaldlega ekki og það er ekkert svar gagnvart fólkinu í landinu, sem hefur orðið að búa við atvinnulegt óöryggi í fyrsta skipti í mörg ár á þessu ári, það er ekkert svar að tala í einhverjum gamaldags málfundakarpsstíl og vísa til þess að nú geti menn bara samið á eigin ábyrgð þegar staðan er eins og margoft hefur komið fram. Hingað til hefur þessi lýsing á stöðu atvinnulífsins ekki verið vefengd, a.m.k. vefengdi hæstv. sjútvrh. hana ekki, og því er það brýnt að fram komi nú á þessum fundi, í þessari umræðu klárlega hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við.
    Það hefur verið haft á orði undir þessum umræðum að sumpart hafi komið fram hin tvö andlit ríkisstjórnarinnar í kjara- og efnahagsmálum, andlit fjmrh. og andlit sjútvrh. sem á margan hátt hafa talað í tvær ólíkar áttir. Það eiga þeir þó sameiginlegt að hvorugur treystir sér til þess að svara þeim spurningum sem til þeirra var beint og varða þessi aðalatriði. Á meðan þau svör liggja ekki fyrir er ekki við því að búast að fulltrúar atvinnulífsins og launþegahreyfingarinnar í landinu geti af sæmilegu öryggi sest niður til þess að ræða af einhverri alvöru um lausn kjaradeilu sinnar og þess vegna er um tómt mál að tala að reyna að víkja sér undan eðlilegri pólitískri ábyrgð með gaspri um það að nú eigi það atvinnulíf sem rekið er með bullandi halla að semja

um kjarabætur á eigin ábyrgð.