Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að þessari umræðu verði nú frestað til kl. 1 sem er eini kosturinn til þess að hæstv. sjútvrh. og starfandi forsrh. geti tekið þátt í þessari umræðu. Þannig vill til að hæstv. ráðherra, sem er staðgengill forsrh., fer af landi brott á miðvikudagsmorgun í opinbera heimsókn til Þýskalands og hæstv. forsrh., eins og fram hefur komið, er ekki á landinu. Mér er að vísu ljóst að Kvennalistinn hóf þessa umræðu og hv. 18. þm. Reykv. Það er hins vegar svo að hv. frummælandi getur aldrei orðið eigandi umræðunnar í neinum skilningi. Ég harma að ekki náðist að gera samkomulag á milli allra flokka, en vegna ummæla hæstv. sjútvrh. og starfandi forsrh. í þessum umræðum, sem kannski mesta athygli hafa vakið, teljum við óhjákvæmilegt annað en umræðunni verði frestað og á það hefur forseti fallist og ég vil fyrir mitt leyti fagna því. Ég vonast satt að segja til þess að um það geti aðilar orðið sammála vegna þess að við teljum brýnt að hæstv. ráðherra sé viðstaddur umræðuna það sem eftir lifir af henni.