Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Í máli mínu fyrr í dag varð mér nokkuð tíðrætt um hve hæstv. fjmrh. fetaði dyggilega í fótspor fyrirrennara sinna í ráðherrastóli og væri lítinn mun að finna á félagshyggju- og jafnréttisstefnu hans og frjálshyggjustefnunni svokallaðri.
    Nú sannast í máli hans að honum svipar í fleiru til fyrirrennara sinna en mér hugkvæmdist í fyrstu. Það var löngum sagt um þann fyrirrennara hans sem tók þá ákvörðun að svipta opinbera starfsmenn í verkfalli launum líkt og hæstv. fjmrh. gerir nú, að hann, þ.e. fyrrv. hv. þm. Albert Guðmundsson, væri vinur litla mannsins. Með sama rétti verður nú sagt um hæstv. núv. fjmrh. að hann er sannkallaður vinur kvenna. Það sést best á þeim tímamótasamningi sem undirritaður var fyrir helgina. Aldrei hafa konur fengið aðra eins leiðréttingu sinna mála ef marka má orð hans.
    Hæstv. fjmrh. bar mér hvað eftir annað á brýn kvenfyrirlitningu og þykir mér langt seilst til þess að verja vondan málstað. ( Fjmrh.: Einu sinni.) Nei, hvað eftir annað. Við skulum ekki þrátta um það en bíða eftir því að ræðan birtist á prenti, en þá hygg ég að það muni sannast að það hafi verið oftar en einu sinni sem orðið ,,kvenfyrirlitning`` hraut af hans vörum. Hann segir mig ekki hafa minnst einu orði á, og margítrekaði það, hve stórlega nýgerður samningur rétti hlut kvenna og kjör. Það er að vísu ekki rétt hermt. Ég tók einmitt fram að þeir lægst launuðu hefðu riðið feitari hesti frá samningaborðinu en þeir betur settu. Ég áttaði mig ekki á því að hæstv. fjmrh. vissi ekki að það væru konur. Þær fengu að sönnu sömu krónutölu og aðrir til hækkunar og auk þess eru heimildir um að gera breytingar á röðun í launaflokka eða starfsheitum sem svara til að allt að *y1/6*y félagsmanna færist til um einn launaflokk. Vissulega er þetta til bóta fyrir lægst launaða fólkið og aðallega konur, en það breytir engu um það, sem ég gerði að aðaltilefni minnar gagnrýni á ríkisstjórnina, að enn býr stór hluti launafólks innan BSRB við óviðunandi lífskjör. Í þeim hópi eru aðallega konur. Konur fylla enn alla neðstu launaflokkana og þær eru enn varla hálfdrættingar á við karla í launum og eru þó fyrirvinnur ýmist einar sér eða önnur af tveimur. Vísaði ég því ekki að ófyrirsynju ítrekað í fyrri yfirlýsingar alþýðubandalagsmanna og ekki síst hæstv. fjmrh. og hélt ekki að hann hefði verið á málfundaæfingum í sinni fyrri umfjöllun um launamál, ýmist á blaðamannafundum, á kössum í stórmörkuðum eða á Alþingi. Mér er ómögulegt að dást að góðvild hæstv. fjmrh. í garð kvenna þó að hann hafi rétt að þeim 2000 kr. til að byrja með og þó ég efist ekki um það að þær 2000 kr. koma þeim betur sem hafa 40 þús. kr. á mánuði í laun en þeim sem 80 þús. hafa. En ég ítreka að enn er langt frá því að laun stórs hluta kvenna innan BSRB nægi til framfærslu eftir samninga.
    Hæstv. fjmrh. kvartaði yfir skorti á formlegum spurningum í fyrra máli mínu og því vil ég spyrja hann nú: Telur hann laun kvenna innan BSRB nú viðunandi? Hvað telur hann nægileg laun til

framfærslu? Og telur hann að nýgerðir kjarasamningar hafi breytt verulega launamismun karla og kvenna?
    Hæstv. fjmrh. sagði að kvenfyrirlitning mín og Kvennalistans birtist einnig í því vantrausti sem við lýstum á hendur konum í samninganefnd ríkisins. Þegar núverandi samninganefnd var skipuð varð mörgum að orði að nú ætti að búa svo um hnútana að hægt yrði að kenna konum um ef illa tækist til um samninga. Það sannaðist í máli hæstv. fjmrh. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að hann flokki það undir kvenfyrirlitningu eða óþarfa karldýrkun að eigna formanni nefndarinnar heiðurinn af störfum hennar. Ég flokka það heldur undir raunsæi en kvenfyrirlitningu.
    Hv. þm. Halldór Blöndal kallaði fram í fyrir hæstv. fjmrh. áðan og sagði að formaður samninganefndar væri ekki maður einhamur og mun það mála sannast, enda dettur engum í hug að bera neinn annan en hann fyrir störfum nefndarinnar, hvorki karlmenn né konur. Lýsir það kannski kvenfyrirlitningu fjölmiðla allra að detta ekki í hug að tala við aðra en karlmenn um samningana, hæstv. fjmrh. sem óumdeilanlega telst karlmaður samkvæmt bestu heimildum, formann samninganefndar sem líka er karlmaður og formann BSRB sem tilheyrir sama kyni og hæstv. fjmrh.? Ekki hef ég orðið vör við að hæstv. fjmrh. hefði teljandi áhyggjur af kvenfyrirlitningu í fjölmiðlum þrátt fyrir þessa staðreynd.
    Í stjórnarmyndunarviðræðunum í haust varð hæstv. núv. fjmrh. það einu sinni að orði að hann reyndi alltaf að líta á konu sem jafningja. Þrátt fyrir þann góða vilja mistekst honum það stundum.
    Vegna orða um Bókun 1 með samkomulagi fjmrh. og BSRB sem hæstv. fjmrh. fullyrti að ég og aðrar kvennalistakonur hefðu ekki lesið vil ég segja þetta:
    Í fyrsta lagi er aðeins kveðið á um endurskoðun reglugerðar um barnsburðarleyfi. Þar er um starfsréttindi að ræða en ekki aukin laun. Auk þess er um að ræða atriði sem miklu fremur ætti að leggja fram í frumvarpsformi hér á þinginu svo sjálfsögð mannréttindi sem þar um ræðir. En ég vil spyrja hve mikið Bókun 1 kostaði ríkissjóð ef og þegar endurskoðun reglugerðar um barnsburðarleyfi hefur farið fram.
    Ég gæti skattyrst lengi við hæstv. fjmrh. um útúrsnúninga í málflutningi hans, en hirði ekki um það meir en ég hef þegar gert. Hans eigin orð lýsa betur en nokkuð annað hug hans til kvenna. En ég undrast aðeins í lokin að hann skyldi ekki gera að umtalsefni í ræðu sinni í dag þau grundvallarmannréttindi, sem voru aðalinntak ræðu minnar, að geta séð sér og sínum farborða með heiðarlegri vinnu.
    En hæstv. fjmrh. er svo sem ekki einn um að grípa til sérstaks orðalags þegar talað er til kvenna. Hæstv. sjútvrh. var í engu eftirbátur hans, en fyrst hann er væntanlegur mun ég geyma mér athugasemdir um hans málflutning þangað til hann kemur í þingsali. En ég held að hugur ráðamanna til launafólks og afkomu þess lýsi sér einmitt vel í því áhugaleysi sem þeir sýna þessari umræðu sem hér er yfirstandandi um launakjör og nýgerða kjarasamninga og yfirstandandi

samninga. Enginn ráðherra hefur séð ástæðu til að vera viðstaddur umræðuna nema hæstv. fjmrh. Hæstv. forseti sá ástæðu til að atyrða varaþingkonu Kvennalistans fyrr í vetur fyrir að sjá sér ekki fært að taka sæti á Alþingi vegna annarra starfa, en ráðherra segist hæstv. forseti ekki geta hamið í salnum eða í húsinu og er þá ekki verið að fjölyrða um vanvirðu sýnda hinu háa Alþingi. En vanvirðan sem launafólki er sýnd er augljós.
    Að lokum hef ég nokkrar spurningar að auki við það sem ég hef þegar sett fram til hæstv. fjmrh.
    Hví tók hæstv. fjmrh. þá ákvörðun að svipta BHMR-fólk sem boðað hafði verkfall launum eftir 6. apríl? Telur hann það standast fyrir lögum í fyrsta lagi og í öðru lagi: telur hann það liðka fyrir samningum?
    Spurning nr. 2: Hvaða ráðstafanir hefur hæstv. fjmrh. hugsað sér að gera í komandi samningum og í framtíðinni til að hið opinbera verði samkeppnisfært við almennan vinnumarkað um hæft starfsfólk?
    Þriðja spurning er reyndar ítrekun á fyrri spurningu: Telur hæstv. fjmrh. nýgerða kjarasamninga við BSRB í raun vera tímamótasamning fyrir konur? Og ef svo er vildi ég biðja hann að útlista það fyrir mér í beinhörðum tölum og staðreyndum.
    4. Hve mikið kostuðu útreikningar og útkeyrsla á þeim sex daga launum sem hæstv. fjmrh. þóknaðist að bjóða verkfallsfólki BHMR? Hefði ekki verið ódýrara að draga af launum opinberra starfsmanna eftir á þegar vitað væri um lengd verkfalls?
    Og þó að sú spurning verði borin upp á eftir við hæstv. sjútvrh. vil ég samt spyrja hæstv. fjmrh., því það hljóta nú að vera mál sem standa honum nærri, hvort þegar hafi verið tekin ákvörðun í ríkisstjórninni um gengisfellingu og ef svo er, þá hve mikla?