Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem farið hefur fram hér í dag, sér í lagi málshefjendum. Það var vissulega tími til kominn að ræða um kjaramálin og þá einkum og sér í lagi í ljósi þess samnings sem gerður hefur verið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og afleiðingar af þeim kjarasamningi eins og gert hefur verið hér í umræðunni í dag. Mér þykir leitt að viss misskilningur varð þegar ákveðið var að fresta fundi og bíða hæstv. sjútvrh. Þá var okkur virðulegum forseta sagt að engir væru á mælendaskrá utan þess sem hér stendur. Þar var um misskilning að ræða og alls ekki okkar ætlun að koma í veg fyrir að þeir sem ætluðu að taka til máls gætu gert það á sæmilega skikkanlegum tíma.
    Ég vil enn frekar þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að koma hér og taka þátt í þessari umræðu. Mér er kunnugt um að hann vissi ekki af þessari umræðu fyrr en rétt áður en hún hófst í dag, en hann sinnir nú störfum hæstv. forsrh.
    Hæstv. fjmrh. lét þau orð falla hér áðan í umræðunni að Sjálfstfl. væri á móti þessum samningi sem gerður hefði verið vegna þess að Sjálfstfl. teldi hann allt of háan. Hér er rangt farið með. Það hefur hvergi komið fram í okkar máli. Það eina sem við höfum verið að biðja um þegar við höfum rætt við hæstv. ríkisstjórn er að fá að vita hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst halda á málum í framhaldi af þessum gerða samningi. Mér er það ljóst að ýmislegt í samningnum er sjálfsagt ágætt. Annað er lakara eftir því hvaðan horft er á slíkan samning eins og auðvitað er um alla samninga. Ég er t.d. viss um það að hæstv. fjmrh. hefði viljað hafa samninginn eitthvað öðruvísi. Annars hefði ekki tekið allan þennan tíma að semja um þessi atriði. Það breytir ekki því að hann er til orðinn og er nú á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar.
    Það sem hins vegar hefur dálítið velkst fyrir mönnum er að hæstv. fjmrh. lét hafa eftir sér í fjölmiðlum, ekki bara í einum, heldur í nokkrum, aðallega þó í Morgunblaðinu sem síðan hefur tekið þessi ummæli upp í leiðara, að hæstv. ríkisstjórn hafi samið við ríkisstarfsmenn og að hæstv. ríkisstjórn sé fullkomlega ábyrg fyrir þessum samningi sem sé gerður innan þeirra marka sem ríkisstjórnin vildi. Hann segir síðan að það sé, orðrétt með leyfi forseta, ,,verkefni hinna sem eru á hinum frjálsa vinnumarkaði að gera frjálsa kjarasamninga sem eru í sams konar samræmi við þá ábyrgð sem þeir eiga að gæta í sínum fyrirtækjum``.
    Þessi ummæli hafa verið túlkuð á þann veg, þar á meðal af framkvæmdastjóra Vinnumálasambands samvinnufélaganna, að með þessu sé hæstv. ríkisstjórn að segja við vinnuveitendur: Þið getið ekki samið um eina einustu krónu til kauphækkunar. Þessi ummæli eru staðfest bæði í ljósvakafjölmiðlunum en enn fremur í dagblaðinu Tímanum og það hefur verið sagt frá því í þessari umræðu.
    Þessi ummæli Hjartar Eiríkssonar eru auðvitað eðlileg í ljósi þess að atvinnulífið hér á landi er í

viðjum ríkisvaldsins. Það er ríkisvaldið sem hefur skattheimtuvaldið, það er ríkisvaldið sem skráir gengið og það er þess vegna ríkisvaldið sem ákvarðar á hverjum tíma hver sé starfsgrundvöllur atvinnufyrirtækjanna í landinu. Þessi sjónarmið sem komu fram hjá hæstv. fjmrh. í dagblöðum og öðrum fjölmiðlum hefur hann ítrekað aftur í sinni ræðu sem hann flutti hér fyrr í kvöld. Því til viðbótar réðist hann á forráðamenn Vinnuveitendasambandsins og annarra atvinnurekendasamtaka og taldi að engin nauðsyn væri að hreyfa til gengi eða auka verðbólguna þótt þessi samningur, sem nú hefur verið gerður við opinbera starfsmenn, verði fordæmi fyrir samningagerð á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta ítrekaði hæstv. ráðherra hér í sinni síðari ræðu við þessa umræðu.
    Nú er það svo að sumir hæstv. ráðherrar hafa látið hafa eftir sér og gefið það í skyn að farið verði með sérstakri gát í verðhækkanir og gengishreyfingar og þeirra ummæli hefur Ögmundur Jónasson, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, túlkað sem svo að hér muni gengið nánast ekkert hreyfast í sumar og verðhækkunum verði stillt mjög verulega í hóf og að öðrum kosti verði um að ræða einhvers konar bætur, enda mundi hæstv. ríkisstjórn ræða við viðsemjendur sína á tveggja mánaða fresti.
    Síðan gerist það hér í dag í umræðunum að hæstv. sjútvrh. tekur til máls og það eru auðvitað ummæli sem komu fram í ræðu hans sem hafa orðið til þess að óskað var eftir nærveru hans við lok þessara umræðna. Hæstv. sjútvrh. sagði, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að, að BSRB-samningarnir hlytu að verða leiðandi samningar. Þetta þýðir að mínu viti að hæstv. ríkisstjórn skrifar vitandi vits undir samningana við BSRB, vitandi það í hvaða erfiðleikum vinnuveitendur í landinu geta orðið ef þeir ætla að skrifa undir öðruvísi samninga. Með öðrum orðum, hæstv. sjútvrh. skilur að ef opinberir starfsmenn fá launahækkun verður slík launahækkun að ganga yfir til fiskvinnslufólks einnig. Síðan bætir hæstv. sjútvrh. því við að gangi þessir samningar yfir allt atvinnulífið þýði það meiri verðbólgu og meiri hreyfingu á gengi.
    Hæstv. ráðherra sagði enn fremur í sinni ræðu að hann áliti eða teldi --- ég man ekki nákvæmlega hvort hann bar fyrir sig einhverja útreikningsstofnun ríkisstjórnarinnar eða hvort það var hans mat --- að sú hækkun sem fram kæmi í
samningum við BSRB þýddi að afkoma sjávarútvegsins, þ.e. fiskvinnslunnar, mundi versna um 2% og þá væri ekki tekið tillit til óbeinna áhrifa. M.ö.o.: Hæstv. sjútvrh. segir, og hefur áreiðanlega rétt fyrir sér í þeim efnum, að ef aðeins laun starfsmanna í fiskvinnslunni mundu hækka samsvarandi og hækkunin var hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, þá þýddi það eitt út af fyrir sig 2% verri afkomu. Ef hins vegar þetta gengur yfir allan vinnumarkaðinn og inn í hráefnisverðið, þ.e. til sjómanna jafnframt, til þeirra sem veita sjávarútvegsfyrirtækjunum þjónustu, þá má a.m.k. bæta 1--2% við. Þetta fæst með því að meta sundurliðaðar tölur úr afkomureikningum

fiskvinnslunnar. Þetta held ég að menn þurfi að hafa í huga. Og þessu til viðbótar ber að geta þess að launahækkanir nú hafa meiri áhrif á ávöxtunarkjörin, á fjármagnskostnað fyrirtækjanna heldur en áður, einfaldlega vegna þess að hæstv. ríkisstjórn lék þann snilldarleik snemma á þessu ári að breyta lánskjaravísitölunni þannig að launahækkanir hafa nú meiri áhrif á lánskjaravísitöluna en áður, m.ö.o. að fjármagnskostnaður fyrirtækja og einstaklinga, þar á meðal launþeganna, mun að sjálfsögðu hækka meira en ella vegna launahækkana sem verða. Við því er kannski ekkert að segja. Á móti mætti auðvitað hugsa sér að lækka raunvextina, þá vexti sem koma til viðbótar verðbótum, þegar slík tilfærsla á sér stað frá vöxtum til verðbóta eins og gera má ráð fyrir að gerist með nýju lánskjaravísitölunni.
    En þetta segir ekki alla söguna því að til viðbótar er ljóst að fiskvinnslunni, a.m.k. frystingunni, er haldið gangandi með því að greiða í millifærslum sem nemur um það bil 5--6% í afkomu. Þá er tekið tillit til annars vegar þess sem greiðist í gegnum Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og hins vegar til rafmagnsniðurgreiðslunnar sem nemur um 20 eða 25% og getur lagað afkomuna um *y1/2*y% eða þar um bil. Þetta eru alkunn sannindi, tekin upp úr reikningum sem viðurkenndir eru af ríkisstjórninni.
    Nú er það svo, og það hefur ítrekað verið bent á það í þessum umræðum hér í dag, að það liggur fyrir viðurkenning hæstv. ríkisstjórnar á því að það fjármagn sem ætlað er til að greiða til Verðjöfnunarsjóðsins dugir ekki nema í einn til tvo mánuði í viðbót. Það liggur enn fremur fyrir að það er ekkert sem bendir til þess að sá afkomubati eigi sér stað í sjávarútveginum sem muni mæta þessari fjárvöntun sem verður þegar hæstv. ríkisstjórn hefur ekki lengur fjármagn til þess að greiða í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Þess vegna hlýtur það á þessari stundu að vera eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn og þá einkum og sér í lagi hæstv. sjútvrh. segi okkur hv. þm. frá því hvað ríkisstjórnin hyggist gera þegar ekki eru til meiri peningar til þess að greiða inn í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins sem þýðir að afkoma þar mun hrapa verulega eins og ég hef áður talað um.
    Ég held, virðulegur forseti, að yfirlýsingar sem tveir hæstv. ráðherrar hafa gefið hér í dag stangist gjörsamlega á. Annars vegar segir hæstv. sjútvrh. í sinni ræðu: Það er ekki hægt að hækka laun í fiskvinnslunni og annars staðar á vinnumarkaðinum nema það hafi áhrif á verðlag, nema það hafi áhrif á gengisstefnu ríkisstjórnarinnar. Það verður að hreyfa gengið örar en ella. Að lokinni þessari ræðu stendur hins vegar hæstv. fjmrh. upp og segir: Þessi samningur, jafnvel þótt hann gangi út yfir allan vinnumarkaðinn, breytir engu í þessum efnum. M.ö.o.: Það sem einn ráðherra segir, starfandi forsrh. í landinu, er tekið aftur af hæstv. fjmrh. sem sjálfur lítur á sig sem yfirráðherra í þessari ríkisstjórn, beint ofan í yfirlýsingu hæstv. starfandi forsrh. Og í fjarveru hæstv. forsrh. kemur hæstv. fjmrh. og segir: Þetta er allt saman tóm vitleysa sem hæstv. sjútvrh.

og starfandi forsrh. sagði. Finnst nú hv. þm. það vera skrýtið að þingmenn stjórnarandstöðunnar spyrji hver sé stjórnarstefnan? Hefur ríkisstjórnin gert sér einhverja hugmynd um það hver sé afleiðing þeirra eigin gerða? Út á það ganga m.a. þessar umræður sem eiga sér stað utan dagskrár í dag. Yfirlýsingarnar stangast á.
    Það er auðvitað óþarfi að fara mörgum orðum hér um stjórnarstefnuna, ef hægt er að tala um stjórnarstefnu. Það er ljóst að það er haldið uppi millifærslum til sumra greina atvinnulífsins, auðvitað á kostnað annarra getur maður sagt, því að millifærslur þarf auðvitað að greiða einhvern tíma með skattpeningum og það er ljóst af yfirlýsingum sjálfs hæstv. sjútvrh. að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins eigi ekki að greiða þessa fjármuni til baka. Millifærslur í þessum stíl þýða það að verið er að halda uppi fölsku gengi hér á landi.
    DV gerði grein fyrir því um daginn að líklega væru það um það bil 10 milljarðar sem hefðu farið í tilfærslur til atvinnulífsins frá því í haust, þ.e. á valdatíma þessarar hæstv. ríkisstjórnar, þar af 3 milljarðar með beinum hætti, með beinum óafturtækum hætti, 7 milljarðar í formi ábyrgða og með öðrum hætti sem enginn vissi í dag hvort kæmi nokkurn tíma til baka. Þetta eru háar upphæðir og fyrir þessu var gerð grein í þessari Dagblaðsgrein og ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem þar stóð. Það geta allir lesið, a.m.k. allir þeir hæstv. ráðherrar sem eru læsir eða nenna að lesa. En nú vita allir að sumir hæstv. ráðherrar lesa ekki dagblöð, a.m.k. ekki sum dagblöð, og þess vegna verður stundum að tyggja þetta ofan í þá hérna í þessum þingsölum til þess að
þeir hafi hugmynd um hvað er að gerast í kringum þá. En sá sem ég á hér við er ekki staddur hér nú og ég skal ekki heldur hafa fleiri orð um það.
    Það er líka ljóst að skattar núv. ríkisstjórnar hafa hækkað stórkostlega. Og halda menn að hæstv. fjmrh. hafi búið þá peninga til? Standa menn í þeirri trú að ríkisstjórnin hafi ungað þessum peningum út? Þessum 7 milljörðum? Nei. Þessir peningar eru teknir annars vegar af fyrirtækjunum í landinu, þeim fyrirtækjum sem enn eru aflögufær, og hins vegar af fólkinu í landinu. Þetta eru þeir peningar sem auðvitað má nýta til þess að greiða hærri laun í ríkisrekstrinum, en þá verður líka hæstv. ríkisstjórn að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefur fyrir atvinnulífið í landinu.
    Fyrir utan þetta er ljóst að hæstv. ríkisstjórn stefnir að því að brúa bilið með erlendum lántökum og nú er það svo, virðulegur forseti, að til þess að brúa bilið á milli þess sem við framleiðum og flytjum úr landi og hins sem við flytjum inn í landið, þá tökum við á dag 30--40 millj. kr. að láni, á hverjum einasta degi, allt árið. 30--40 millj. kr. eru alla daga ársins teknar að láni erlendis til þess að brúa það bil sem er orðið vegna viðskiptahallans. Og hvað þýðir nú þessi viðskiptahalli? Hann þýðir annars vegar það að hæstv. ríkisstjórn sjálf er að búa til verðbólgu hér í landinu í fyrsta lagi, og þýðir það jafnframt, eins og ég veit

að flestir hæstv. ráðherrar vita, þar á meðal iðnaðar- og viðskrh., að það er mælistika á það að gengi íslensku krónunnar er rangt skráð. Svo einfalt er það mál.
    Ég ætla ekki heldur að ræða hér um vextina og lánskjaravísitöluna frekar en ég hef gert, en það er þó alveg ljóst að ríkisvaldið hefur með sínum samningum, hvort sem það eru samningar um að ná sér í lánsfé eða jafnvel með skattaákvörðunum eða með kjarasamningum, áhrif á lánskjörin í landinu. Það eina sem við leggjum sérstaka áherslu á í þessari umræðu, þeir þingmenn Sjálfstfl. sem hér hafa talað, er þetta:
    Hæstv. ríkisstjórn hlýtur að bera ábyrgð á þeim samningi sem gerður hefur verið og hún hlýtur að hafa áttað sig á því að þessi samningur gengur yfir til annarra stétta og það verður tekið mið af honum í samningum. Og hæstv. ríkisstjórn getur ekki vikist undan ábyrgð á því. Hæstv. ríkisstjórn verður líka að átta sig á hinu að peningarnir verða ekki til í ríkisrekstrinum. Peningarnir, sem við þurfum á að halda til þess að byggja upp heilbrigðisþjónustu, til þess að hafa menntamálin í lagi, til þess að hafa félagsmálin í lagi o.s.frv., verða til frá atvinnulífinu. Það er þess vegna frumskylda hverrar ríkisstjórnar að sjá til þess að rekstrargrundvöllur atvinnuveganna sé í lagi. Það er undirstaðan.
    Það er þess vegna, virðulegur forseti, sem við ítrekum spurningar okkar til hæstv. ráðherra og þá einkum hæstv. sjútvrh. og starfandi forsrh.: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera?
    Í fyrsta lagi: Hvað ætlar hún að gera þegar millifærslufé þrýtur? Það verður að fást svar við því, því að það er ljóst að það verður ekki samið nema menn hafi þá öryggi fyrir því að annaðhvort komi þar meiri peningar eða eitthvað annað sem mætir því ef þessar millifærslur falla niður.
    Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera í gengismálum? Ætlar hún að bæta fiskvinnslunni og öðrum samkeppnisgreinum það upp ef samningar sem nú gilda milli ríkisins og opinberra starfsmanna færast yfir í atvinnulífið? Treystir hæstv. sjútvrh. sér til þess að staðfesta það sem mátti skilja af orðum hans í dag? Og áttar hann sig á því að það sem kom fram í hans ræðu verður að sjálfsögðu túlkað þannig að hæstv. ríkisstjórn muni hreyfa gengið til örar en hún ætlaði sér þegar og ef þessir samningar koma til með að ganga yfir atvinnulífið? Eða hyggst hæstv. ríkisstjórn lækka skattana til þess að mæta þörfum fyrirtækjanna, til þess að fyrirtækin geti borgað hærri laun? Það væri freistandi að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvernig það gangi að lækka ríkisútgjöldin, launaþáttinn um 4% í lok þessara kjarasamninga. Hann stóð hér í ræðustól ekki alls fyrir löngu og sagði: Það verður gert án þess að skerða þjónustuna. Nú liggur það fyrir t.d. í spítalakerfinu að það verður dregið úr þjónustunni. Þannig verður þessu mætt.
    Síðan langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. vegna ummæla hans sem birt voru í sjónvarpinu í kvöld og hann sagði í sinni ræðu. Hann sagði: Það er ljóst að

það hafa ekki verið gerðar nægilegar ráðstafanir fyrir sjávarútveginn. Og mig langar til að spyrja: Getur hæstv. ráðherra verið heldur nákvæmari og sagt okkur hvað þarf að gera til þess að um nægilegar ráðstafanir sé að ræða? Og nú tölum við bara um það án þess að nokkrir kjarasamningar hafi verið gerðir. Það skiptir nefnilega ákaflega miklu máli, ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að hafa trúnað og traust þeirra sem fara með samningavaldið, ef það á að fara að þeim ráðum sem hæstv. fjmrh. gaf í sinni ræðu að það eigi að vera frjálsir kjarasamningar, þá verður atvinnulífið, bæði launþegar og vinnuveitendur, að vita hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að gefa sín spil. Hvað er það sem hún kallar eðlilegan rekstrargrundvöll atvinnuveganna? Og eftir ummæli hæstv. sjútvrh. verður hann að svara þessari spurningu nákvæmar.
    Ég vil að allra síðustu minna á þá fyrirspurn sem liggur hér til hæstv. iðnrh. um það hvort iðnaðurinn og þá einkum samkeppnis- og útflutningsiðnaðurinn þoli það, án þess að stjórnarstefnan breytist eða um sé að ræða meiri verðhækkanir og gengisbreytingar, að gera samning eins og þann sem gerður var við opinbera starfsmenn. Ég spyr í ljósi ummæla hæstv. forsrh. sem hefur viðurkennt úr þessum ræðustól að iðnaðurinn hafi farið verr út úr skakkaföllum síðustu missira heldur en nokkurn tíma sjávarútvegurinn.