Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil biðja hv. þm. afsökunar á því að einhverjir þeirra hafa þurft að vaka heldur lengur vegna þess að ég var ekki hér viðstaddur í deildinni. Ég tel að það sem hér hefur fyrst og fremst verið spurt um --- að vísu hefur ræða mín í dag verið endurtekin hér nokkuð rækilega og þar allt rétt eftir því sem ég best heyrði. Ég vil aðeins vitna til þess sem ég sagði þá og ætla mér ekki á nokkurn hátt að draga úr því sem ég sagði hér í umræðunum í dag og ætti að vera óþarft að endurtaka það. Hins vegar hafa komið hér fram ákveðnar fyrirspurnir.
    Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Halldór Blöndal um það hvort mér hafi verið kunnugt um hversu miklar launahækkanir fælust í kjarasamningi ríkisins við BSRB. Að sjálfsögðu var mér kunnugt um það, þ.e. að niðurstaðan varð sú að í aprílmánuði hækka laun um 2000 kr., í sept. um 1500 kr., í nóv. um 1000 kr., síðan er orlofsframlag í júní og í desember hækkun á uppbót, sem felst í þessum kjarasamningi. Það er nú eins og gengur að það eru nokkuð skiptar skoðanir um það hvað þessi samningur felur í sér nákvæmlega í prósentum, enda hefur það ávallt reynst svo við gerð kjarasamninga að það hefur verið erfitt að leggja mat á það og hefur það jafnframt komið fram í þessum samningi að menn leggja á það nokkuð mismunandi mat, en þar er ekki um neinn teljandi mismun að ræða, sýnist mér, en hann er þó nokkur.
    Í öðru lagi spurði hv. þm. um það hvort ég hygðist beita mér fyrir því að aðrir aðilar á vinnumarkaðinum gætu samið á svipuðum nótum. Á þessari stundu eiga sér stað samningaviðræður á hinum almenna vinnumarkaði. Fundur hefur þar verið boðaður milli aðila á miðvikudag eftir því sem ég best veit og við hljótum að bíða þess að þessir aðilar ræðist við. Þeir munu áreiðanlega óska eftir viðræðum við ríkisstjórnina og ég tel ótímabært að ríkisstjórnin sé með einhverjar yfirlýsingar í því sambandi á þessari stundu. Það hlýtur að bíða þess tíma að aðilar vinnumarkaðarins óski eftir fundi sem ég veit að þeir munu gera.
    Í þriðja lagi spurði hv. þm. um það hvað mundi taka við þegar greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði lyki. Því get ég ekki svarað. Ég vitna til þess sem ég hef áður sagt. Það liggur fyrir að verðbætur úr frystideildinni munu líklega duga út júnímánuð. Það er alveg rétt, eins og hér hefur komið fram, að menn hafa verið að vænta þess að einhverjar verðhækkanir ættu sér stað sem gætu tekið við af þessum greiðslum og vonandi gerist eitthvað á mörkuðum sem gæti bætt þar stöðuna. Hitt er svo annað mál að á það er alls ekki hægt að treysta og ekkert ákveðið sem bendir til þess að svo muni verða. Það er t.d. ljóst að það hafa komið upp erfiðleikar á saltfiskmarkaði og ástæða er til að hafa jafnframt áhyggjur af því, því að saltfiskdeild Verðjöfnunarsjóðs er að greiða verulegar bætur sem munu jafnframt þrjóta, jafnvel seinni hluta þessa árs. Verðjöfnunarsjóður mun því ekki eiga neitt fé til að greiða út á saltfiskframleiðslu á árinu 1990.
    Það hefur verið um það rætt að bíða og sjá

hvernig þessi mál muni fara og taka ákvarðanir á síðari stigum. Ég get ekki séð að það sé hægt að fullyrða um það í dag hvað muni taka við og þótt hv. þm. Sjálfstfl. hafi ítrekað farið fram á það að fá slíkar upplýsingar, sem er eðlilegt að þeir geri, ég veit að þeir hafa áhyggjur af því eins og aðrir, þá er því miður á þessari stundu ekki hægt að svara þeirri spurningu.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson spurði um nánast það sama, þ.e. í fyrsta lagi um millifærslur, og ég veit að hann á þar við það sama og hv. þm. Halldór Blöndal þegar hann spurði um greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði. Hann spurði jafnframt um gengismál sem er svipuð spurning og hv. þm. Halldór Blöndal bar fram þegar hann spurði um rekstrarskilyrði. Að því er gengismálin varðar vitna ég í það sem ég sagði í ræðu minni fyrr í dag. Hann spurði í þriðja lagi um það hvað ég ætti við með því að segja að það hefðu ekki verið gerðar nægilegar ráðstafanir fyrir sjávarútveginn. Það er í sjálfu sér ósköp einfalt svar við því. Í fyrsta lagi er sjávarútvegurinn rekinn með tapi sem þýðir það að hann stendur ekki nægilega vel og er því miður ekki að bæta sína stöðu sem skyldi. Í öðru lagi hefur enn ekki verið lokið þeirri vinnu sem hafin var með starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs. Í þriðja lagi hefur ekki verið lokið þeirri vinnu sem hafin var með stofnsetningu Hlutafjársjóðsins. Þetta eru m.a. atriði sem ég hef í huga þegar ég hef sagt að ekki hafi verið gerðar nægilegar ráðstafanir fyrir sjávarútveginn í landinu.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, virðulegur forseti, en vil að öðru leyti vitna til þess sem kom fram í máli mínu hér fyrr í dag.