Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Tveir hæstv. ráðherrar hafa kallað það málfundaæfingu að við skulum í dag og í kvöld inna einstaka ráðherra eftir því hvernig þeir meti þá stöðu sem nú er komin upp í atvinnu- og kjaramálum. Hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. hafa báðir kalla þetta málfundaæfingu og hæstv. viðskrh. var að reyna að gera lítið úr því að stjórnarandstaðan skuli vilja fá svör við þeim krefjandi spurningum sem uppi eru í þjóðfélaginu.
    Sá er munur á þeim tveimur ráðherrum, hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh., sem sitja hér hlið við hlið við hliðina á mér, að hæstv. sjútvrh. metur stöðuna svo að sjávarútvegurinn geti ekki tekið við neinni launahækkun. Hann gerir sér grein fyrir því að ef sambærilegar launahækkanir og þær sem gengið hafa til opinberra starfsmanna eiga að ganga til fólks í fiskvinnslu og til sjómannanna sé óhjákvæmilegt að það verði að hreyfa gengið, það verði að fella gengið á árinu. Hann gerir sér jafnframt grein fyrir því að ástandið í atvinnulífinu er þannig að kostnaðarhækkanir vegna hærri launa hljóti að fara út í verðlagið.
    Á hinn bóginn var svo að heyra á hæstv. iðnrh. sem hann teldi alveg óþarfa að grípa til einhverra ráðstafana. Hann sagði að vísu: Samkeppnisiðnaðurinn stendur ekki nú þannig að hann geti bætt kjör fólks svo að neinu nemi við þær aðstæður sem nú ríkja. Ég skil orð hans svo að hann telji að samkeppnisiðnaðurinn geti ekki tekið á sig þær launahækkanir sem hæstv. fjmrh. --- sem nú hlær hvað glaðast --- hefur samið um fyrir það fólk sem vinnur hjá ríkinu. Þess vegna hljóta að vakna spurningar þegar hæstv. viðskrh. talar jafnframt um það að atvinnureksturinn hljóti að meta launahækkanir svo að samsvari þeim rekstri sem hann stendur undir, að hann telji óþarfa að sambærilegar launahækkanir gangi til þess fólks sem vinnur við samkeppnisiðnaðinn. Það er ekki hægt að skilja hans ummæli öðruvísi nema hann telji að það geri svo sem ekki mikið til þó að einhver iðnfyrirtæki loki til viðbótar þeim sem þegar hafa lokað og að atvinnuleysið haldi áfram að vaxa hér í landinu, þótt fólk á hinum frjálsa vinnumarkaði búi við vaxandi óöryggi í atvinnumálum.
    Ég hygg það sé rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það er ekki á vísan að róa. Það er áreiðanlega ekki á vísan að róa þar sem þessi ríkisstjórn er. Fólkið getur ekki vísað á svo sem eitt né neitt. Spurningar vakna hér í þingsalnum, spurningar vakna meðal fólksins í landinu og það er örugglega rétt, sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, að aðilar vinnumarkaðarins munu koma til fundar við ríkisstjórnina og þeir munu krefjast svara. Ef svörin verða á þá lund sem hæstv. viðskrh. gaf í þingsalnum í dag, þ.e. að hann telji að fulltrúar vinnuveitenda og verkalýðsfélaga séu að fara á málfundaæfingu við ríkisstjórnina og ef hann telur að það sé hægt að vísa á einhverjar verðhækkanir á fiski eða eitthvað þvílíkt sem ekki er fyrir séð, þá eru það auðvitað engin svör, ekki nokkur svör.

Ríkisstjórnin hefur haft frumkvæði að þessum kjarasamningum. Það er laukrétt, sem fram hefur komið, að kjarabæturnar eru ekki miklar borið saman við þá kjararýrnun sem orðið hefur. Auðvitað hefði verið eðlilegra, í þeirri þröngu stöðu sem atvinnulífið er núna, að hæstv. fjmrh. hefði reynt að finna einhverjar leiðir til þess að spara í ríkisrekstrinum, einhverjar leiðir t.d. til þess að lækka matarverð, lækka verð á nauðþurftum og lækka t.d. tekjuskattinn sem hækkaði nú um áramótin eða hækka barnabætur. Það hefði auðvitað verið miklu, miklu vænlegri leið. En að velja þá leið að koma af stað nýrri kaupskriðu, þó að hún sé ekki stór, þegar bæði viðskrh. og sjútvrh. viðurkenna að þær atvinnugreinar, sem eiga í samkeppni við erlenda aðila, hafi enga stöðu til að bæta einni einustu krónu við sín útgjöld, að þeir skuli þá efna til slíkrar útgjaldaaukningar hlýtur að teljast ábyrgðarleysi og getur ekki talist neitt annað. Auðvitað hefði verið rétt við þessar kringumstæður að reyna að haga kjarasamningum þannig að ríkið hefði gefið eftir af sínum miklu skattahækkunum og það hefði verið með þeim hætti reynt að vinna sig niður þannig að dregið hefði úr verðbólgu í staðinn fyrir að fyrirsjáanlegt er að verðbólgan mun halda áfram það sem eftir er þessa árs á svipuðum nótum og hún hefur verið það sem af er árinu.