Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessa umræðu, enda er klukkan orðin ansi margt. Þessi umræða hefur verið með hálfgerðum endemum verð ég að segja. Eftir að hafa vikið þessari umræðu tvisvar fyrir öðrum málum hefur ýmislegt gengið með brösum í dag og áhuga þingmanna, hvað þá hæstv. ráðherra, er varla hægt að hrósa. Þeir sitja að vísu þrír hér inni núna og jafnvel fleiri einhvers staðar nálægt, en svo hefur það ekki aldeilis verið í allan dag. Þeir sem hafa sýnt sig við umræðuna hafa nánast verið eins og flær á skinni og stundum var enginn þeirra í salnum þegar verið var að ræða málin. Það er heldur bágt að trúa því að ekki sé meiri áhugi og áhyggjur manna vegna þessara mála sem við höfum fengið að ræða í dag, þ.e. ástandinu í kjaramálum og atvinnumálum landsmanna.
    Menn hljóta að telja þessi mál þess virði að ræða þau af fullkominni alvöru og án útúrsnúninga. Vegna þeirrar uppákomu sem varð hér fyrr í kvöld verð ég að lýsa furðu minni á þeim vinnubrögðum sem við voru höfð þegar hæstv. forseti leyfði sér að semja um tilhögun umræðunnar við einn þingflokkinn án þess svo mikið sem ræða það við málshefjanda. Mér fannst það aldeilis furðuleg vinnubrögð og hlýt að mótmæla þeim harðlega og vona sannarlega að slík vinnubrögð verði ekki endurtekin. Tilmæli sjálfstæðismanna voru í hæsta máta eðlileg og ekki stóð heldur á okkur kvennalistakonum að bíða komu hæstv. sjútvrh., sem hafði gefið tilefni til þess að hans væri vænst hér áfram við umræðuna, og við höfum áfram verið viðstaddar og hlýtt á hans mál þegar hann náði að koma til okkar. Það hefði ekki aðeins verið eðlilegt að hafa samráð við alla þingflokka, eða a.m.k. við málshefjanda, um þessa tilhögun, þ.e. um frestun umræðunnar, heldur var það blátt áfram sjálfsagt. Nóg um það.
    Hvað efni þessarar utandagskrárumræðu varðar þá hefur hún því miður ekki verið sérlega upplýsandi um hvers við megum vænta á næstu dögum og sem er nú mjög mikið áhyggjuefni allra. Hæstv. fjmrh. er lærður í morfísstíl og eyddi hér stórum hluta, a.m.k. fyrri ræðu sinnar, í útúrsnúninga og hroka. Hann sá ástæðu til þess að hrósa sér af því að samningur ríkisins við BSRB væri í fjölmörgum atriðum sérstaklega hagstæður konum. Minna fór nú fyrir herlegheitunum þegar hann kom sér að því að telja upp þau atriði sem væru þess verð að bendla við þetta. Þau atriði eru satt að segja eingöngu fólgin í því að krónutöluhækkun og lífaldurshækkanir koma helst konum til góða og það orðuðu einmitt hv. þm. Kvennalista sem töluðu hér fyrr í umræðunni, hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir og Danfríður Skarphéðinsdóttir. Ástæðurnar eru auðvitað þær að í láglaunahópunum eru konurnar flestar. Þessi atriði, hæstv. ráðherra, kunnum við kvennalistakonur að meta vegna þess að bæði þessi atriði höfum við borið fram og haft sem okkar baráttumál og haldið þeim til streitu alveg frá upphafi. Í því sambandi vil ég minna á þær tillögur sem við vorum með í stjórnarmyndunarviðræðum árið

1983. Þá lögðum við einmitt þessi atriði til grundvallar að þannig yrði farið að við lausn mála þá, þ.e. að leggja krónutölu til grundvallar frekar en prósentuhækkanir og reyna að ná fram launajöfnuði með því að sem mest kæmi til þeirra láglaunuðu en þeir hærra launuðu og hæst launuðu fengju ekki neitt. Svo róttækar vorum við nú þá, en þetta er vissulega í þá átt. Þess vegna sem sagt erum við út af fyrir sig ánægðar með þennan þátt og það kom fram strax í ræðu hv. 18. þm. Reykv. þótt hæstv. ráðherra kysi að heyra það ekki.
    Hitt er nú vafasamara, hæstv. ráðherra, að telja sér sérstaklega til tekna atriði sem varða rétt barnshafandi kvenna. Það eru atriði sem launafólk á ekki að þurfa að nota í skiptum fyrir launabætur. Þetta eru réttindamál, sjálfsögð réttindamál sem við höfum m.a. barist fyrir á þingi, reyndar því miður við lítinn fögnuð þingkarla. En það er alger óþarfi fyrir hæstv. ráðherra að taka orð kvennalistakvenna í þessari umræðu á þann veg að við séum að forsmá starf kvenna í samninganefnd ríkisins. Slíkur málflutningur sæmir ekki ábyrgum stjórnmálamanni. Við fögnum hverju einasta skrefi í átt til vitundar ögn betri aðstæðna barna og kvenna í þessu þjóðfélagi og auknum áhrifum kvenna á það hvernig staðið er að málum og það er ósmekklegt af hæstv. ráðherra að reyna að snúa út úr orðum kvennalistakvenna í þessu efni. Ef hann vildi taka ofan ráðherragleraugun eitt andartak þá held ég að hann hljóti að sjá að Bókun 1, svo og yfirlýsing um styrkingu velferðarkerfisins, eru ekki beint blómvöndur í hans hnappagat. Ég verð nú að segja það. Hann tók reyndar dálítið skemmtilega til orða í fyrri ræðu sinni þegar hann spurði sjálfan sig hvers vegna launafólk ætti að treysta orðum hans frekar en fyrirrennara hans, sem ýmsir hafa nú lofað einu og öðru og lítið kannski orðið um efndir. Hann svaraði sjálfum sér orðrétt, ég skrifaði það upp eftir honum um leið og hann sagði það: ,,Okkar vörn felst í því að þeir hafa ekki prófað okkar orð.`` Það var ekki beint skotheld vörn, hæstv. ráðherra, enda gerir ráðherra sér áreiðanlega grein fyrir því að margir launamenn eru fullir tortryggni gagnvart honum, ríkisvaldinu og ráðherrum þessarar ríkisstjórnar sem byrjaði sinn feril á því, ég segi það einu sinni enn, að herða tökin á launafólki og lagði síðan á það skatta svo milljörðum skipti, dembdi yfir það hækkunum á opinberum gjöldum og
ýtti því beinlínis út í átök um kjör sín.
    Þá er það þáttur hæstv. sjútvrh. Hann hefur oftar en einu sinni fullyrt að ekkert svigrúm sé til launahækkana á almennum vinnumarkaði og helst ætti kaupið að lækka. Eftir allt sem launafólk er búið að leggja á sig og sauma að sér, hlýða kalli stjórnvalda um að nú sé hart í ári og hver verði að leggja sitt af mörkun. Alltaf er það launafólk sem skal leggja sitt af mörkum og alltaf á það að taka á sig meira og meira og þegar það ætlar að reyna að sækja sinn rétt og fá örlítið til baka er því strax lögð sú ábyrgð á herðar að það beri alla sök á því ef gengi er lækkað eða að aðrar aðgerðir fylgi í kjölfarið. Þó er búið að

flytja marga milljarða til, þó einkum til sjávarútvegsins, nú á síðustu mánuðum og launafólkið hefur tekið á sig byrðar. Það hefur þrengt sín kjör til þess að leggja sitt af mörkum í þessum erfiðleikum en hvernig er því þakkað? Ríkisvaldinu hefur ekki þótt launafólk fórna nægilega miklu þegar það var neytt til þess að vinna án umsamdra launahækkana. Það hefur lagt skatta á almenning, hækkað gjaldskrá fyrir opinbera þjónustu en enga tilburði haft í frammi til þess að bæta kjör almennings, sem hefði þá getað létt þetta ástand, gert það bærilegra og orðið þá um leið atvinnuvegunum að liði. Þessi ríkisstjórn hefði getað markað launastefnu á þann hátt að bæta kjör almennings til að draga úr þörf fyrir beinar launahækkanir og þá er ég vitanlega fyrst og fremst að tala um skattamálin. Ég get sannarlega tekið undir orð hæstv. sjútvrh. um að það er rangt sem margir fullyrða að ríkisstjórnin hafi ekkert gert til að bæta ástandið í sjávarútveginum. Það hefur mikið verið gert. Það hafa verið færðir milljarðar fyrst og fremst til sjávarútvegsins, en ástandið sýnir því miður að það er ekki nóg að gert. Þetta er ekki raunveruleg lækning. Það er kannski réttara að tala um tímabundna sprautu, eins og hv. 7. þm. Reykn. talaði um fyrr í dag, og innan tíðar verða nýjar aðgerðir að koma til. Ég held að á því sé ekki minnsti vafi. Spurningin er bara hvenær og enn þá stærri spurning hvað verður gert.
    Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri, hæstv. forseti. Þessi umræða hefur vissulega gert sitt gagn þótt hún hafi ekki verið nægilega upplýsandi að mínu mati og vitaskuld hljótum við að óska þess að náð verði farsælli lendingu í því erfiða samningastríði sem nú á sér stað.