Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég vona að frsm. nefndarinnar taki það ekki illa upp þó að ég komi hér aðeins upp í ræðustól þó að lokaorð hv. þm. hafi verið þau að væntanlega yrði ekkert til þess að tefja framgang þessa máls frekar en orðið er. Minna má nú gagn gera. Ég gat ekki setið á mér að koma hér aðeins upp og benda á tvö atriði sem ég tel að hefðu ekki átt að vera í frv. Ég mun ekki flytja þar um neina brtt., en ég vil aðeins láta skoðun mína koma í ljós.
    Það er í fyrsta lagi það að tónlistarfræðsla skuli nú alfarið færð til sveitarfélaga. Það hefur komið mjög víða fram, bæði frá forustumönnum tónlistarskóla um landið og sveitarstjórnarmönnum og áhugafólki um tónlistarfræðslu, að það efast um að þarna sé verið að fara inn á rétta braut og það hefur komið fram í umræðu um þessi mál að þátttaka ríkisins á síðustu árum hefur einmitt orðið til þess að byggja þessa starfsemi upp mjög öfluga út um landið. Og menn eru yfirleitt sammála um að ef ekki hefði komið til þessa stuðnings, þá væri ekki eins vel komið fyrir þessari fræðslu, þessari menningarstarfsemi, eins og raun ber vitni víða úti um land. Það hefur verið viðurkennt að einmitt tónlistarfræðslan er kannski mikið betur á veg komin víða út um land og tónlistarstarfsemi en hér á höfuðborgarsvæðinu og það er sem sagt eitt af því þar sem dreifbýlið getur bent á að fólkið úti á landsbyggðinni búi við betri aðstæður en fólk hér á þessu svæði.
    Hitt er með dagvistunarstofnanir, að í þessu frv. er lagt til að sveitarfélögin taki alfarið yfir byggingu og rekstur dagvistunarstofnana. Ég tel að þarna sé líka horfið inn á vafasama braut, tel að þarna hefði átt að vera svipað og nú er, ekki síst þegar það kemur fram í framsöguræðu hér fyrir meirihlutaáliti nefndarinnar að nú skuli lagt til hliðar eftirlit og, mætti segja, viss gæðastjórnun ríkisins, gæðaeftirlitsstjórnun ríkisins á þessari starfsemi, að sveitarfélögunum sé núna fullkomlega í sjálfsvald sett hvernig rekstur þessara stofnana verði. Ég tel að þetta sé vitaskuld hlutverk ríkisins að fylgjast með því að þarna sé lágmarksþjónustu sinnt á réttan máta.
    Ég taldi rétt að þessi skoðun kæmi hér fram og ég vil undirstrika það að ég veit það að þetta er skoðun ótal margra sveitarstjórnarmanna að þessi tvö atriði hafi ekki átt að vera í þessari verkaskiptingu sem hér er núna greinilega að verða að lögum.