Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Frsm. og formaður félmn., hv. 4. þm. Suðurl., hefur mælt fyrir nál. félmn. og gert ítarlega grein fyrir breytingartillögum sem nefndin flytur á sérstöku þingskjali. Eins og kom fram í hennar máli hefur orðið góð samstaða innan nefndarinnar og stendur hún einhuga að þessu nál. og leggur til að frv. verði samþykkt, eins og hér hefur komið fram, með þeim breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj.
    Það er ekkert óeðlilegt að hv. 4. þm. Vesturl. hafi hér gert grein fyrir sínum sérstöku skoðunum á tveimur þáttum þessa frv. sem vissulega hafa verið skiptar skoðanir um, við höfum svo sem orðið vör við það, og þá ekki síst varðandi tónlistarfræðsluna eins og hann kom inn á. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég treysti sveitarfélögunum algjörlega í þessum efnum og ég sé ekki ástæðu til að vantreysta þeim varðandi tónlistarfræðsluna. Ég tek undir það að vissulega er það með aðstoð ríkisins sem komið hefur verið upp, það má segja kannski um allt land, öflugri og góðri tónlistarfræðslu, tónlistarskólum, en ég vil líka leggja áherslu á það að einmitt þessi fræðsla, sem haldið er uppi og rekin er af hinum ýmsu sveitarfélögum og er stolt þeirra og metnaður, að halda uppi öflugu og góðu tónlistar- og menningarlífi. Þess vegna finnst mér að það verði að treysta sveitarfélögunum að þessu leyti. Við verðum að hafa það hugfast að sveitarfélögin hafa yfirleitt greitt miklu meira af þessum kostnaði heldur en þeim í raun og veru ber samkvæmt lögum. Það hefur einmitt komið í þeirra hlut. Ég held því að við verðum að gefa sveitarfélögunum tækifæri til þess að sýna það að þau standa undir nafni að þessu leyti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ákveða það fyrir fram að svo verði ekki.
    Eins er það með hinn þáttinn, dagvistarmálin, sem hv. 4. þm. Vesturl. gat um. Ég tel að þau séu svo staðbundin verkefni og skipti svo miklu máli víða í sveitarfélögum að aðhaldið sé vissulega nægjanlegt heima fyrir og að þessi mál verði ekki síður í lagi á þeirra hendi.
    En það sem ég ætlaði að segja hér var fyrst og fremst það að fagna þeirri breiðu samstöðu sem nú loksins hefur náðst um þetta mál hér á hv. Alþingi og ekki síður þeirri breiðu samstöðu sem hefur náðst á vettvangi sveitarfélaganna í landinu. Við þekkjum það hér á hv. Alþingi að það er einmitt vegna þess að það hefur ekki verið nægjanleg samstaða meðal sveitarstjórnarmanna, sem er kannski ekkert óeðlilegt því að sveitarfélögin eru misjafnlega í sveit sett hvað varðar stærð og aðstæður, að það hefur ekki tekist að koma þessum málum í gegn hér á hv. Alþingi. En ég vil trúa því að nú verði tímamót hjá sveitarfélögunum í landinu þegar þetta mál verður komið í höfn og ég vil leyfa mér að treysta því að hv. Nd. muni afgreiða þetta mál eins og það mun koma héðan frá hv. Ed.
    Það er fyrst og fremst þetta sem ég vildi leggja áherslu á. Ég tel að meginmarkmið sveitarstjórnarmanna og væntanlega hv. alþm. sé í þessu frv. sem er að koma á hreinni skilum á

verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga og færa þeim sem mest vald heim í héruð. Ég fagna því að þetta frv. er komið þetta áleiðis og treysti því að það fái greiðan aðgang í gegnum þingið.