Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna og fer að tilmælum hv. framsögumanns hvað það snertir. Ég ætla aðeins að lýsa ánægju minni með að þetta margrædda verkaskiptingarmál á milli ríkis og sveitarfélaga er komið til 2. umr. og að um það hefur myndast slík samstaða sem nál. ber vitni og eins þær umræður sem hafa farið fram í hv. deild. Samstaðan er ekki síður á meðal sveitarstjórnarmanna. Þetta hlýtur að geta talist nokkuð góð trygging fyrir því að málið geti gengið í gegnum hv. Nd. á yfirstandandi þingi. En það er alveg ljóst að þegar verið er að breyta lögum og málaflokkum sem hér um ræðir eru ýmis atriði sem erfitt er að gera sér fulla grein fyrir hvernig verka þegar út í framkvæmdina er komið. Þess vegna er mikilvægt að þessi lög verði endurskoðuð fljótlega. Það hefði kannski komið til greina að hafa endurskoðunarákvæði í lögunum.
    Það eru alls 14 lög sem er verið að breyta með þessu frumvarpi þannig að það má segja að það sé nánast um bandorm að ræða. Má segja það um þau lög að þau hljóta öll að verða til endurskoðunar eða allflest í náinni framtíð. Hv. þm. hafa nefnt einstaka greinar sem þeir eru ekki alveg fyllilega sáttir við og það er sjálfsagt þannig með okkur öll að það er einhvers staðar eitthvað sem okkur fyndist að mætti betur fara. Ég get þá nefnt í því sambandi 7. gr. sem snertir stjórnir sjúkrahúsa, einkasjúkrahúsa og sjálfseignarstofnana. Þar sem ríkið er nú að yfirtaka rekstur þessara stofnana að öllu leyti fyndist mér ákaflega eðlilegt að ráðherra skipaði einn stjórnarmann í stjórnirnar. En eins og hv. frsm. kom inn á er þetta mál sem möguleiki er á að breyta með nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu sem eru þegar í vinnslu.
    Ég verð að lýsa ánægju með það hversu mikill áhugi virðist vera meðal þingmanna um tónlistarfræðslu í landinu. Það hlýtur að vera af hinu góða. Og ég gat sagt eins og hv. 4. þm. Vesturl. sagði áðan áður en við hófum starf í nefndinni. Ég var ákaflega efins um að þetta væri rétt breyting, að færa skólana alfarið yfir til sveitarfélaganna. En eftir þær umræður sem fóru fram og eftir það sem ég hef sett mig í samband við fólk og eins þau áhrif sem sú breyting kæmi til með að hafa á útdeilingu úr Jöfnunarsjóði ef þessu yrði breytt á síðustu stigum meðferðar málsins, þá hef ég fallið algerlega frá þeim skoðunum og tel að sveitarstjórnum sé fyllilega treystandi til að sjá til þess að tónlistarfræðsla verði hér eftir sem hingað til í góðu lagi. Hún hefur verið að batna með árunum. Hún var ekki góð fyrir tveimur eða þremur áratugum eins og menn hafa verið að vitna í í blaðagreinum. En ég held að það séu óþarfa áhyggjur sem tónlistarkennarar hafa lýst sig hafa varðandi þetta mál og þetta verði allt í besta lagi.
    Ég vil þá að síðustu segja það sem nefndarmaður í hv. félmn., sem ekki hef setið í sveitarstjórn, að mér hefur þótt umræðan í nefndinni bæði mjög fróðleg og uppbyggileg. Ég hefði ekki viljað fara á mis við þá umræðu.