Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki láta hjá líða við þessa umræðu að þakka nefndinni, félmn., sem hefur fjallað um frv., fyrir mikil og góð störf. Nefndin hefur haft frv. til meðferðar síðan í desembermánuði og skilar af sér núna eftir að hafa lagt í þetta mál mjög ítarlega vinnu og góða og það sem er kannski mest um vert að hér hefur náðst mjög breið samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu sem er frekar óvanalegt í svo stóru og miklu máli sem þetta mál er. Því ber að fagna sérstaklega og eins þeirri breiðu samstöðu sem er milli sveitarfélaganna um allt land að þetta mál nái fram að ganga.
    Ég er alveg sannfærð um að frv., ef að lögum verður, ásamt frv. um tekjustofnana muni marka þáttaskil í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og verða til góðs fyrir samvinnu og samráð ríkis og sveitarfélaga ekki bara í þessum málum heldur öðrum.
    Það er alveg ljóst eins og hér hefur komið fram að frv. mun auka valddreifingu og sjálfstæði og sjálfsforræði sveitarfélaganna og það er það sem allir stjórnmálaflokkar hafa haft á sinni dagskrá í mörg undanfarin ár. Hér erum við að ná áfanga, ef þetta mál verður að lögum, sem menn hafa lagt mikla vinnu í vegna þess að, eins og hér hefur komið fram, þetta er verk sem hefur verið unnið af mörgum ríkisstjórnum og ráðherrum í kannski sl. einn eða tvo áratugi. Þess vegna er það mjög ánægjulegt og gleðilegt fyrir þetta þing ef afrakstur þess verður að skila af sér í formi laga þessu frv. ásamt lögunum um tekjustofna sveitarfélaga.
    Það var vissulega komið inn á það áðan að frv. eins og það var lagt fram á síðasta þingi olli nokkrum deilum. Ég held að það hafi kannski átt sér sína skýringu í því að margir óttuðust að hafa ekki heildarmyndina af málinu öllu fyrir framan sig heldur var einungis verið að samþykkja einn áfanga í þessu máli. Þess vegna hefur það auðveldað alla meðferð þessa máls að samhliða er lagt fram frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Einnig hygg ég að það hafi auðveldað störf nefndarinnar og hjálpað til að ná svo breiðri og góðri samstöðu þar að fyrir hana voru einnig lögð drög að reglugerð um framlögin úr jöfnunarsjóðnum og hvernig þau koma til með að líta út eftir að frv. um tekjustofna sveitarfélaga hefur orðið að lögum. Allt þetta held ég að hafi hjálpað til að ná þeim áfanga sem við væntanlega náum á þessu þingi.
    Ég sé ekki mikla ástæðu til að fara ofan í einstakar athugasemdir sem fram hafa komið frá einstökum þingmönnum um þetta mál. Það er mjög eðlilegt að í svona stóru máli komi fram efasemdir um einstaka þætti málsins. Þær eru vissulega ekki margar sem hér hafa verið dregnar fram í dag og ýmsir sem hér hafa komið upp hafa líka svarað þeim athugasemdum sem fram hafa komið sérstaklega hvað varðar tónlistarfræðsluna og dagvistarstofnanirnar sem ég hef litlu við að bæta. Ég get tekið undir það sem fram kom hjá hv. þm. Salome Þorkelsdóttur, Jóhanni Einvarðssyni og Karli Steinari Guðnasyni um það að

ég hef ekki áhyggjur af því að dagvistarmálefnum verði verr fyrir komið þegar þau eru komin í hendur sveitarfélaganna. Þvert á móti tel ég fulla ástæðu til að ætla að sveitarfélögin muni sérstaklega sinna þessu máli af kostgæfni og afsanna þá kenningu, sem sumir hafa haldið fram, að þessu máli væri ekki eins vel borgið í höndum sveitarfélaganna og ríkisins. Sveitarfélögin eru þeir aðilar sem þekkja best þarfir, staðhætti og hvernig þessum málum er háttað í sveitarfélögunum og ættu því að vera við því búin að takast á við þau. Eins vitum við að minni og vanmegnugri sveitarfélögunum er bætt þetta upp gegnum framlögin úr Jöfnunarsjóðnum.
    Einn þátt að því er varðar málefni tónlistarskóla sé ég ástæðu til að draga fram sem kannski hefur ekki komið fram hér en fjallað er um í skýrslu sem lögð var fyrir nefndina og unnin var á síðustu tveimur mánuðum af nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði í samráði við mig, nefnd til að skoða sérstaklega áhrif verkaskiptamálsins á málefni tónlistarskólanna. Það sem mér finnst kannski hvað athyglisverðast í þeirri skýrslu, sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir eins og þar kemur fram, er að af 216 grunnskólum í landinu öllu er tónmennt einungis kennd í 141 skóla, en engin tónmenntafræðsla í 75 skólum eða 35% skólanna. Einnig það að aðeins 55% nemenda á skólaskyldualdri í 1. til 8. bekk hljóta lögboðna fræðslu í tónmennt, en 45% hlutu enga fræðslu í greininni.
    Ég tel að sú niðurstaða sem er dregin fram í þessari skýrslu sé slík að hv. þm. hljóti að hafa af þessari niðurstöðu verulegar áhyggjur. Það hlýtur að vekja athygli og spurningar að tónmenntafræðslu í grunnskólum sé ekki betur sinnt en þessi niðurstaða gefur til kynna og að nær helmingur grunnskólanema fær enga kennslu í greininni. Ekkert skal þó úr því dregið að það er mjög ágætt starf unnið í tónlistarskólunum sjálfum, en þar munu nú vera starfandi um 600 kennarar með 480 stöðugildi. En þrátt fyrir að við erum með svo marga menntaða tónlistarkennara er tónlistarkennslan í grunnskólunum með þessum hætti. Það er engan veginn ásættanlegt að svo stór hluti grunnskólanema fái enga tónlistarfræðslu.
    Samkvæmt því sem fram kemur í verkaskiptingarfrumvarpinu mun menntmrh. ætla að láta endurskoða lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Ég vil
taka undir það með þeim sem hér hafa talað sem telja að sú breyting að færa þetta verkefni alfarið yfir til sveitarfélaganna eigi ekki að hafa áhrif til hins verra. Það kom mjög skýrt fram í máli hv. þm. Jóhanns Einvarðssonar hvernig þessum málum er fyrir komið nú þar sem lítill hluti af þessu hefur verið í höndum ríkisins. Frumkvæðið, allur rekstur og kostnaður, nema að hluta til að ríkið hefur greitt kennslulaun, hefur verið í höndum sveitarfélaganna. Aftur vil ég segja að minni sveitarfélögunum er bætt þetta upp í gegnum sérstök framlög úr Jöfnunarsjóði, sjóði sveitarfélaga.
    Hv. 4. þm. Austurl. Egill Jónsson kom inn á að

það ylli honum vonbrigðum að hann taldi að ekki væri nægjanlega vel séð fyrir hlut smæstu sveitarfélaganna og nefndi þar sérstaklega hreppana í sínu máli. Ég deili ekki þessum áhyggjum með honum vegna þess að ég tel að það sé einmitt hlutur smærri sveitarfélaganna og hreppanna sem sé vel borgið í frv. ásamt því frv. sem fjallað verður um á eftir um tekjustofna sveitarfélaga.
    Ég nefni sem dæmi um sérstök framlög sem koma eiga í gegnum Jöfnunarsjóðinn bæði sérstök framlög vegna kostnaðarsamra stofnframkvæmda, sem eru upp á 88 millj., sérstök verkaskiptaframlög upp á 170 millj. og önnur verkaskiptaframlög upp á 80 millj. eða alls yfir 300 millj. Og það eru einmitt þessir liðir sem eru ætlaðir til þess að bæta sérstaklega hlut minni sveitarfélaganna. Því til viðbótar, sem ég tel kannski eitt stærsta atriðið í þessu máli, er að jöfnunarhlutverk Jöfnunarsjóðsins er verulega breytt þannig að hann þjónar miklu betur hlutverki sínu þegar jöfnunarframlögin eru aukin úr 80 millj. í 400 millj. Þetta hlýtur að koma fyrst og fremst smærri sveitarfélögunum og hreppunum til góða ásamt því, sem ég vil einnig draga fram, að framlög til sjúkratrygginga og Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem nú falla niður og fara til ríkisins, þessi stóru atriði, sem oft hafa verið þung smærri sveitarfélögunum, koma ekki síst þeim til góða og hreppunum. Þetta vildi ég draga fram af því að það var komið inn á það í þessari umræðu um leið og ég ítreka þakkir mínar til nefndarinnar fyrir vel unnin störf og einkum þá samstöðu sem hefur tekist í þessu máli milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Ég er sannfærð um að þetta mál mun skila sér vel til fólksins í landinu og verða til góðs fyrir land og þjóð.