Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. lét þess getið í ræðu sinni að í umfjöllun nefndarinnar um þetta mál hefði komið fram, eftir því sem mér skildist, að við það að tónlistarfræðslan yrði áfram greidd af ríkinu mundi verða mjög mikil breyting á hlutverki Jöfnunarsjóðs. Ég hef heyrt þetta víðar frá og ég held að röksemdafærsla sem þessi sé ekki góð í máli eins og þessu. Vitaskuld hefði komið einhver skerðing í sambandi við Jöfnunarsjóð, en að það hefði breytt einhverju í grundvallaratriðum er rangt. En það er það sem maður er búinn að heyra frá ýmsum þeim sem hafa hvað ákafast andæft gegn því að tónlistarskólarnir væru áfram hjá ríkinu. Þeir hafa gert mikið úr því að jöfnunargildi sjóðsins mundi minnka svo stórkostlega ef þessir hlutir héldu áfram að vera á þann veg sem ég hef talið að væri betra.
    Um þá tvo þætti sem ég nefndi áðan hefur farið fram nokkur umræða hér í hv. deild og m.a. hjá sumum ræðumönnum hefur komið fram að með því að tala um það að þessir þætir eigi ekki að breytast séum við sem erum á þeirri skoðun að lýsa því yfir að við treystum ekki sveitarfélögunum. Þetta er ekkert annað en útúrsnúningur og ég mundi vilja kalla þetta hálfgerðan draugagang, eins og var nefnt áðan að væri sums staðar. Ég þekki vel starfsemi sveitarfélaga og ég treysti þeim flestum til margra góðra hluta, en ég tel að á þessum vettvangi standi þau dálítið öðruvísi að vígi til að sinna þjónustu sinni en í mörgum verkum. Með því að vera með tónlistarfræðsluna sérstaklega færða til sveitarfélaga og reyndar með því að færa dagvistun líka til sveitarfélaganna er verið að slíta í sundur sjálfsagða samtengingu, þ.e. uppeldi barna alveg frá því þau koma í grunnskólann og þar til þau fara út úr grunnskóla, strax í dagvistarstofnunum og ekki tekið út úr þetta eina atriði, tónlistarfræðslan. Hvað er sjálfsagðara að sé í tengslum við ríkið og uppfræðsluna en það að tónlistarfræðslan fylgi þar með? Hæstv. ráðherra lýsti því áðan hvernig ástandið er í þessum málum. Aðeins 55% af grunnskólanemendum fá tónlistarfræðslu. Hvernig ætli þetta hafi verið fyrir nokkrum árum áður en ríkið kom inn á þennan vettvang? Þá voru sveitarfélögin frjáls að taka þátt í því að annast þessa fræðslu. Af hverju komu ekki sveitarfélögin þá? Það var ekki vegna þess að við treystum þeim ekki. Það var vegna þess að þau höfðu ekki möguleika til þess. Það er hætt við því þegar óskyldir fræðslumálaflokkar koma til sveitarfélaganna að þeir verði ekki mikil forgangsverkefni. Ég ætla ekki að segja að þeim verði vikið til hliðar en það eru ýmis forgangsverkefni sem sveitarfélögin eru með sem er hætt við að verði sett fram fyrir þessa þjónustu. Og svo er talað um að menn vilji ekki yfirstjórn ríkisins á þessu eða hinu. Ja, það er nú svo.
    Ég treysti t.d. félmrh. okkar núna til ýmissa góðra hluta og flestra góðra hluta og til þess að hafa yfirstjórn í hinum breytilegustu málum, sem hæstv. félmrh. hefur. Ég fæ ekki séð nauðsyn þess að nema brott yfirstjórn, það er reyndar ekki á sviði félmrh., í

sambandi við dagvistunina. Okkur er nauðsynlegt að hafa ákveðna takmarkaða yfirstjórn ríkisins í hinum breytilegustu þáttum og ekki síst í þeim þáttum sem hér er um að ræða, við dagvistun barna, hvernig á henni er haldið. Það er ekki vegna þess að ég sé að vantreysta sveitarstjórnarmönnum upp til hópa í þessum málum. Það er af og frá. En það er hætt við að það geti skeð á ýmsum stöðum slys og það er hlutverk ríkisins að fylgjast með því að slíkt gerist ekki.
    Svo er það blessuð valddreifingin sem hér hefur verið talað um. Já, það er nú svo. Ég finn ekki fyrir því að með þessu frv. sé verið að breyta miklu í því sambandi. Góður sveitarstjóri er oft og tíðum með tónlistarfélagið, íþróttafélagið, er með meginhluta af verkefnum þess oft og tíðum litla samfélags sem hann er fenginn til að stjórna. Hann hefur oft og tíðum ekki möguleika til að leita til margra til samráðs. Það er ekki að breytast neitt stórkostlega mikið við það þó að verið sé að færa til ákveðin verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Í sumum tilfellum er verið að minnka valddreifingu vegna þess að sveitarstjórnin hefur ekki möguleika til þess að bera sig saman við góða fulltrúa félmrn. eða menntmrn. í sambandi við framkvæmd verkefna. Öll stóryrði um að það sé verið að sækja eitthvert frelsi eða þess háttar og við séum kúguð af vondum ráðuneytum er að mínu mati nokkuð vafasöm umræða.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Hún hefur verið góð. Það hefur ýmislegt komið upp. Og ég vænti þess svo sannarlega að þetta frv. fái afgreiðslu hér á þinginu, að hv. Nd. taki þetta mál til umfjöllunar og frv. verði að lögum á þessu þingi. Ég tek alveg undir það, sem hér hefur verið sagt, að með þessum lögum hvorum tveggja, um verkaskiptinguna og tekjustofna, á sér stað mikil breyting og til hins betra. En ég get ekki leynt því að mér finnst að á báðum frumvörpunum séu --- ég vil ekki segja stórir gallar, ég skal bara hafa það smávægilegir gallar og það verði kannski fljótt að leita til þess, sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði áðan, að með lagabreytingu innan stutts tíma verði agnúarnir skornir af og málin lagfærð.