Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það var aðeins eitt áhersluatriði sem ég held að mér hafi láðst að koma inn á þegar ég talaði fyrr í þessum umræðum. Það var það að forsenda þess að samstaða náðist um þetta frv. voru þær brtt. sem nefndin flytur og eru jafnframt tillögur stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég vil þó nefna það vegna þess sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Austurl. og sem mér þykir mjög eðlilegt að hafi komið fram og það voru efasemdir hans um hag minnstu sveitahreppanna, að ef ég tryði því ekki að hagur þeirra væri tryggður í þessu frv. hefði ég ekki staðið að samþykkt þess eins og það liggur fyrir.
    Varðandi það sem hér hefur komið fram um tónlistarskólana, ég nefndi það í minni fyrri ræðu, þá vil ég jafnframt leyfa mér að vísa til þess að ég sagði m.a. við 1. umr. þegar mælt var fyrir frv. og hef reyndar oft áður nefnt í ræðu og riti, að ég tel að undirstöðuatriði tónlistarfræðslunnar eigi að færa inn í grunnskólana, það sé frumskilyrðið.