Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Frsm. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að bæta við í tilefni af ýmsu því sem komið hefur fram í umræðunni og þá byrja á því að mér hefur fundist koma í ljós að menn rugla saman annars vegar tónmenntafræðslu í grunnskólum og hins vegar almennri tónlistarfræðslu sem er tvennt ólíkt og alls ekki verið að tala um sama hlutinn og framlög ríkisins til þessara þátta eru óskyld, annars vegar til tónmenntafræðslunnar þar sem ríkið sér alfarið um launagreiðslur og tilheyrir grunnskólanum, en hins vegar til almennrar tónlistarfræðslu.
    Það er þannig að í fjárlagatillögum menntmrn. fyrir árið 1989 koma fram óskir ráðuneytisins sem jafnframt eru mat á þörfum á fjárframlögum vegna tónlistarskóla í dreifbýli fyrir árið 1989. Þar er aðeins um rétt rúmar 30 millj. að ræða þannig að þetta er ekki stór upphæð. Í frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér verður tekið fyrir á eftir, kemur hins vegar líka fram að það er áætluð þar upphæð um 80 millj. kr. sem m.a. á að mæta þessum þætti.
    Það var líka minnst á það hér að allt eftirlit með rekstri dagvistarstofnana væri nú tekið frá ríkinu. Eins og ég þekki þetta er eftirlit með daglegum rekstri dagvistarstofnana meira og minna í höndum sveitarstjórna í dag þannig að það er ekki um mikla breytingu að ræða þar.
    Ég vil svo aðeins hvetja menn til þess, og þá líka hafandi það í huga að menntmrh. hefur lýst því yfir að bæði munu verða endurskoðuð lög um dagvistarstofnanir og forskólastig og eins líka um tónlistarfræðslu, að bíða með áhyggjur sínar þar til niðurstaða þeirrar endurskoðunar liggur fyrir. Þá mun hv. Alþingi áreiðanlega taka ákvarðanir í samræmi við þær þarfir sem þar koma fram.