Tekjustofnar sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Frsm. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 765 um frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga frá félmn.
    Nefndin hefur fjallað rækilega um frumvarpið á mörgum fundum og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Nefndin fagnar þeirri víðtæku samstöðu sem náðst hefur um þetta mikilvæga mál sem nú er afgreitt samhliða frumvarpi um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sá almenni stuðningur, sem kom fram við bæði þessi frumvörp á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga á Akureyri 30. og 31. mars sl., er skýr vitnisburður þess að meðal sveitarstjórnarmanna er eindreginn vilji fyrir því að Alþingi afgreiði þessi frumvörp á yfirstandandi þingi.
    Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, Fjórðungssambandi Norðlendinga, bæjarstjórn Neskaupstaðar, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, hreppsnefnd Miðneshrepps, hreppsnefnd Gerðahrepps, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, bæjarstjórn Keflavíkur, Landssamtökum sláturleyfishafa og Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þá komu á fund nefndarinnar Sigurgeir Sigurðsson, formaður stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, Hjörtur Þórarinsson og Áskell Einarsson frá landshlutasamtökum sveitarfélaga, Sveinn Hjörtur Hjartarson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Gunnar Guðbjartsson frá Landssamtökum sláturleyfishafa og Vilhelm Andersen og Arnór Eggertsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Jafnframt héldu félagsmálanefndir beggja deilda fund með stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um frumvarpið. Með nefndinni störfuðu Húnbogi Þorsteinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, og Ingimundur Sigurpálsson bæjarstjóri.
    Nefndin flytur fimm breytingartillögur við frumvarpið og er sú veigamesta, um tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, flutt að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Verður hér gerð grein fyrir þessum breytingum í sömu röð og þær eru á þingskjalinu.
    1. Við 5. gr. eru þrjár breytingar. Í 1. mgr. eru tekin af öll tvímæli um að það eru sjúkrastofnanir, sem eiga sér stoð í heilbrigðislögum, sem eru undanþegnar fasteignaskatti. Þá er bætt við í 2. mgr. að sveitarstjórnum sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt af heilsuhælum og endurhæfingarstöðvum, en frumvarpið gerði upphaflega ráð fyrir að heilsuhæli og endurhæfingarstöðvar væru undanþegin þessum skatti. Að síðustu er í 3. mgr. kveðið á um að sveitarstjórnum sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum. Heimildarákvæði frumvarpsins hafði verið miðuð við efnalitla elli- og örorkulífeyrisþega, en breytingin er gerð vegna þess að í framkvæmd hefur ætíð verið miðað við tekjur en ekki eignir. Um þessa venju hafa skapast nokkuð

samræmdar reglur hjá sveitarfélögum.
    2. Í 8. gr. er gerð breyting á tekjum Jöfnunarsjóðs. Er hún í samræmi við eindregnar óskir Sambands ísl. sveitarfélaga um að tekjur Jöfnunarsjóðsins verði miðaðar við heildartekjur ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum.
    3. Brtt. við 3. mgr. 27. gr., er varðar brot á trúnaðarskyldu starfsmanna sveitarstjórna, er til að gera orðalag málsgr. skýrara en felur ekki í sér neina efnisbreytingu.
    4. Brtt. við 34. gr. varðar aðstöðugjald. Við b-lið er bætt ákvæði til að taka af öll tvímæli um að undanþága olíufélaganna frá greiðslu aðstöðugjalds nái aðeins til olíu og olíuvara en ekki til annarra vara sem olíufélögin eru í auknum mæli farin að versla með. Þá er í nýjum c-lið kveðið á um að undanþágur frá greiðslu aðstöðugjalds nái einnig til starfsemi sláturhúsa og mjólkurbúa. Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að hætta er talin á að ef áðurgreindir aðilar verði látnir greiða aðstöðugjald (en þeir eru undanþegnir slíku samkvæmt gildandi lögum) séu líkur á verulegum verðhækkunum á þessum vörum sem eru mjög stór þáttur í neyslu almennings, auk þess sem hætt er við ,,fjölsköttun`` á þessa starfsemi.
    5. Brtt. við 37. gr. felur í sér leiðréttingu á tilvísun til 2. gr. í frumvarpinu.
    Júlíus Sólnes áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma. Að öðru leyti undirrita allir nefndarmenn nefndarálitið án fyrirvara.
    Virðulegi forseti. Ég get í raun og veru lokið máli mínu á sama hátt og áðan í umræðunni um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það ber að fagna þeirri breiðu samstöðu sem náðst hefur um bæði þessi frumvörp. Lögð hefur verið áhersla á að tryggja að þau sveitarfélög sem erfiðast eiga með að mæta þessari breytingu verði ekki illa úti, m.a. með því að leggja mat á þjónustustig sveitarfélaga og njóti þau greiðslu úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í samræmi við það. Verkaskiptaframlög munu fyrst og fremst ganga til dreifbýlissveitarfélaga til þess að bæta þeim upp aukinn kostnað sem þau verða fyrir vegna breyttrar verkaskiptingar. Það er þýðingarmikið að tryggt sé að
smærri sveitarfélögin í landinu verði ekki verr sett en áður. Ég er hins vegar sannfærð um að þær breytingar sem hér er verið að gera tillögur um munu ásamt breyttri úthlutun úr Jöfnunarsjóði þýða verulega bættan hag dreifbýlissveitarfélaganna og þau sveitarfélög sem hv. 4. þm. Austurl., Egill Jónsson, minntist hér á áðan við umræðu um verkaskipti ríkis og sveitarfélaga að hefðu á undanförnum árum bætt þjónustu sína munu ef af samþykkt frv. verður geta veitt enn betri þjónustu og það sem meira er, haft ákvörðunarrétt um þjónustuna án íhlutunar annarra.
    Ég get svo að lokum sagt eins og áðan. Hér liggur fyrir frv. sem ekki er aðeins spor í rétta átt heldur að samþykktum þeim brtt. sem nefndin leggur til nýtur stuðnings fulltrúa beggja aðila, sveitarfélaga og ríkis, og fulltrúar í félmn. hafa náð samstöðu um. Ég legg því eindregna áherslu á að frv. þetta fái hér fljóta

afgreiðslu og að ekkert verði til að tefja málið lengur en orðið er.