Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta mikilvæga mál. Ég get tekið undir margt af því sem hv. 6. þm. Reykn. sagði. Ég hef þó ekki haft tíma til að kynna mér málið gaumgæfilega, einungis flett í gegnum það, því að hér rignir inn svo mörgum málum síðustu dagana. Mér skilst á starfsfólki þingsins að það hafi aldrei fyrr komið jafnmörg mál inn síðan frestur tók gildi eða ákvæði um hann.
    Hér virðist vera margt til bóta, sérstaklega áherslubreyting og skilningur á breyttum þörfum vaxandi hóps aldraðra í þjóðfélaginu, en þá á ég við heimaþjónustuna. Við Íslendingar höfum verið að mörgu leyti 10--15--20 árum á eftir grannþjóðum okkar í þjónustu við aldraða. Meðan við erum enn að byggja stofnanir fyrir aldraða leggja aðrar þjóðir kapp á að gera öldruðum kleift að vera sem lengst heima hjá sér með því að auka við þá þjónustu og hjálp af ýmsu tagi og þá einmitt hjálp til sjálfshjálpar eins og hv. 6. þm. Reykn. sagði.
    Ég ætla mér ekki að fara út í efnislega umræðu um þetta mál. Ég vil þó geta þess að öllu skiptir fjármagnið eins og gerði reyndar gagnvart þeim lögum sem nú gilda. Þau lög eru um margt ágæt. Vandinn við þau var ekki síst sá að það fékkst aldrei nægilegt fjármagn ti að standa við framkvæmd þeirra eins og skyldi. Ég held að það skipti meginmáli í umfjöllun um þetta frv. að það verði tryggt fjármagn til þeirrar þjónustu og þess stuðnings sem aldraðir eiga að fá og verða að fá í þjóðfélaginu.
    Ég vænti þess að við getum fjallað um málið í nefnd og tek undir spurningar hv. 6. þm. Reykn. um það hvort ætlast er til að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi því að trúlega er skammt eftir af þinginu.