Almenn hegningarlög
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fyrir Alþingi. Mér sýnist í fljótu bragði að þarna sé um verulega bót að ræða frá því sem nú er í lögum. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið frv. gaumgæfilega yfir, til þess hefur ekki unnist tími, en við fljótlegan yfirlestur sýnist mér að þarna sé verið að stíga skref í rétta átt og einkum að því leyti til að það er verið að gera þrennt með þessu frv.
    Í fyrsta lagi eru þessi mál ekki kynbundin eins og þau hafa verið. Þau hafa verið kynbundin að því leyti til að það hefur einkum beinst að konunni, hún ein hefur notið refsiverndar en ekki karlmaðurinn sem má að vísu segja að sé eðlilegt, en í því þjóðfélagi sem við lifum í nú er ekki rétt að hafa ákvæði með þessum hætti. Hitt getur alltaf hent sig að karlmaðurinn þurfi á slíkri vernd að halda þó ekki fái ég séð hvernig það getur verið.
    Þetta er einn alvarlegasti brotaflokkur hegningarlaganna og því er eðlilegt að refsing sé nokkuð þung og mér sýnist að í frv. sé einmitt verið að þyngja refsingu við brotum af þessu tagi og get ég fagnað því. Hins vegar, eins og fram kom í máli hv. 6. þm. Reykv., er ekki nóg að þyngja refsingar. Það verður að taka á þeim málum sem lúta að brotamanninum sem slíkum. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvort hann er settur inn í þrjú eða fjögur ár ef maðurinn kemur alveg eins út aftur og hann fór inn eða jafnvel verri.
    Varðandi það ákvæði sem hv. 6. þm. Reykv. benti á í 13. gr. frv., að fella út ,,hver sem stundar vændi sér til framfærslu``, þá get ég tekið undir að mér finnst þessi fyrri hluti setningarinnar mega missa sig. Ég held að þessar breytingar nái tilgangi sínum þó að það detti út.
    Ég vil ekki hafa þessi orð öllu fleiri en taldi rétt að koma hér upp til þess að fagna frv. og lýsa ánægju minni með að það skuli vera komið fram. Eins og fram kom í máli hv. 6. þm. Reykv. þá vonast ég einnig eftir að eiga við hann og fleiri gott samstarf um að ræða þetta mál og vonandi verður að lögum.