Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv., sem hér er lagt fram, á sér þá sögu að lögfræðingar komust að þeirri niðurstöðu að miðað við orðalag gildandi laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins væri ekki hægt að halda áfram að hafa starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands inni í lífeyrissjóðnum. Sinfóníuhljómsveit Íslands er hins vegar, eins og okkur er öllum kunnugt, í eðli sínu eitt af menningarfyrirtækjum íslenska ríkisins og því eðlilegt að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar njóti sömu kjara og starfsmenn hliðstæðra menningarstofnana. Vegna orðalagsins í gildandi lögum var það því sameiginleg niðurstaða stjórnarmanna í lífeyrissjóðnum og sérfræðinga á þessu sviði að nauðsynlegt væri að flytja frv. á Alþingi til að tryggja að formlegur texti laganna gerði þá framkvæmd, sem allir eru sammála um að stefna að, lögformlega rétta. Í leiðinni var tækifærið notað til þess að gera ýmsar minni háttar breytingar á orðalagi laganna á fáeinum sviðum. Þessar orðalagsbreytingar fela ekki í sér neina efnisbreytingu frá þeirri venju sem tíðkast hefur á undanförnum árum.
    Ég kaus að flytja frv. hér eitt og sér. Hugsanlegt hefði auðvitað verið að flytja víðtækara frv. um breytingar á lífeyrisréttarlögunum. Það hefði hins vegar tekið mikinn tíma og mikla umræðu í þinginu. Sú aðferð hefði með vissum hætti komið niður á starfsmönnum Sinfóníuhljómsveitarinnar sem hér er fyrst og fremst verið að tryggja áframhaldandi framkvæmd á þeirra lífeyrisréttindum. Þess vegna kaus ég að flytja frv. í þeim búningi að nánast eingöngu er um formstaðfestingar að ræða en frv. sem felur í sér efnisbreytingar bíður hausts.
    Ég vænti þess svo að frv. fái greiðan gang í gegnum þingið því af hálfu lífeyrissjóðsins og fjmrn. og starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitarinnar er eindregið óskað eftir því að svo geti orðið. Ég vil í þessu sambandi geta þess að fyrir nokkrum vikum síðan bar hv. þm. Guðmundur Ágústsson fram fyrirspurn um það hvað liði þessu atriði varðandi frv. til að tryggja rétt starfsmanna Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég lýsti því þá yfir að frv. væri í undirbúningi og yrði flutt innan tíðar. Það er mér því sérstök ánægja að geta í dag staðið við þau orð.
    Ég vonast til þess að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. sem geti afgreitt það fljótt og vel.