Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hér í þingdeildinni. Ég hef því miður ekki á hraðbergi svör við spurningum hv. 14. þm. Reykv. um það hverjir eigi Elkem og Sumitomo. Ég get ekki greint það sundur á þessari stundu en ég mun hins vegar beina því til minna samstarfsmanna í iðnrn. að afla upplýsinga um það sem fram gætu komið í nefndinni sem um þetta mál mun fjalla. En ég hygg að hv. 14. þm. Reykv. fari ekki fjarri sanni þegar hann getur sér til um að í þessum félögum muni eiga stóra hluti skipulegir sparnaðaraðilar, eins og ég vil kalla lífeyrissjóði og fjárfestingarfélög almennings. Ég er viss um að í þessum opinberu hlutafélögum eiga slíkir aðilar myndarlega hluti. Um þetta má fá nánari vitneskju og ég mun freista þess að afla hennar. Hins vegar er náttúrlega eins og vel er kunnugt Sumitomo-félagið mikil keðja af atvinnurekstri og fjármálastarfsemi sem kannski er ekki auðvelt að greina í sundur í fljótu bragði. Við Elkem er sennilega auðveldara að fást.
    En ég vil taka undir sumt í hugleiðingum hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar að það er mikilvægt fyrir okkur að finna leiðir til þess að sparnaður launþega, sparnaður almennings finni sér farveg í fjárfestingu í atvinnulífinu sjálfu, því sem við munum lifa á bæði fyrr og síðar og að þessi ofuráhersla á fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og ríkisskuldabréf sé ekki heppileg þegar til lengdar lætur. Um þetta er ég honum sammála og ég vonast til þess að við getum sameiginlega fundið leiðir að þessu marki þar sem í senn sé fullnægt þörfinni fyrir örugga ávöxtun á þessu sparifé almennings, sem eru lífeyrissjóðirnir, og um leið efld til framfara atvinnugreinin sem menn eru að fjárfesta í hverju sinni. Um þá hugmynd að selja hluti ríkisins í Járnblendifélaginu vil ég ekkert segja á þessari stundu, en það er ein hugmynd sem ástæða er til að hugleiða.
    Hins vegar er það náttúrlega líka rétt að viðleitni lífeyrissjóðanna hlýtur jafnan að vera sú að hafa örugga ávöxtun á sínu fé og þar koma auðvitað hinir opinberu skuldabréfaútgefendur sérstaklega til greina. En það er hárrétt athugað hjá hv. 14. þm. Reykv. að það er undirstaðan í atvinnulífinu sem við þurfum að leitast við að efla með skynsamlegum fjárfestingum og bein þátttaka lífeyrissjóðanna þar og þær breytingar, sem hugsanlega þarf að gera á þeirra starfsskilyrðum og reglum til þess að svo megi verða, það er áhugamál mitt ekki síður en hv. þm. sem hér tók málið fram til umhugsunar og umræðu.