Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu, frv. til l. um þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, er út af fyrir sig góðra gjalda vert. Það sem er merkilegt við þetta frv. er að þetta er ekkert annað en endurprentun á frv. frá sjálfstæðismönnum í hv. deild sem er frv. til l. um framkvæmdasjóð menningarmála sem hv. 2. þm. Reykv. er 1. flm. á. Þau eru þó ekki eins, en ég óska sjálfstæðismönnum til hamingju með að hæstv. menntmrh., sem er nú ekki viðstaddur þessa umræðu, hefur séð sér færi á því að notfæra sér frv. hv. þm. Sjálfstfl. um að framlengja þann skatt sem kallaður hefur verið þjóðarbókhlöðuskatturinn til tíu ára.
    Það þarf ekki að tíunda að þessi skattur er fyrst og fremst skattur á Reykvíkinga og Reyknesinga því að stærsti liðurinn í honum eru skattar á fasteignir. Ég vek athygli á því að þessi skattur leggst í rauninni ekki á íbúðaeignir utan þessa svæðis nema í örfáum undantekningum þannig að hér fer alveg sérstakur skattur sem er verið að leggja á íbúana í Reykjavík, íbúana á Reykjanesi. Þeir eiga að bera hitann og þungann af þessu fallega orðaða frv. Því miður er hæstv. menntmrh. fjarri þessari umræðu, enda hefur honum kannski þótt betra að svara ekki fyrir þennan skatt. Það er verið að stefna í að hefja stórfellda eignaupptöku á íbúðarhúsnæði á því svæði sem ég hef minnst á áður og með þeim hætti að það er ógeðfellt.
    Það er svo að þó að þessar tekjur eigi að nota til að gera endurbætur á menningarbyggingum, eins og segir í frv., er það alveg ljóst að Alþingi Íslendinga ber ábyrgð á byggingum ríkisins og þá með þeim hætti að það á að taka fé af óskiptum fjárlögum. Þessi sérstaki skattur er mjög óréttlátur og því verður ekki trúað að þingmenn Sjálfstfl. muni greiða þessu atkvæði þó þeir hafi í fljótræði lagt fram frv. um framkvæmdasjóð á sviði menningarmála sem var að vísu svolítið öðruvísi orðað en þetta frv. en þó fer ekki á milli mála að bæði þessi frumvörp fjalla um nánast sama atriðið. Hæstv. menntmrh. hefur séð sér leik á borði þegar hv. þm. Sjálfstfl. fluttu sitt frv. að flytja frv. nánast sama efnis, þó með öðruvísi tilbrigðum, um þennan skatt.
    Það að sérskatta íbúana á Reykjanesi og í Reykjavík er með eindæmum og sýnir að það er fyrirlitning á þeim kjósendum sem eru á þessu svæði. Það er verið að tala um að það eigi að ríkja jafnrétti í byggðum landsins. En það er ekkert jafnrétti þegar sérstakur skattur er lagður á hluta af íbúum landsins og það með þeim hætti að það þekkist ekki í einu einasta þjóðlandi að það sé lagður sérstakur skattur á íbúðarhúsnæði með þeim hætti sem hér er verið að gera. Það er ekki heldur vanþörf á því að rifja það upp að á sama tíma leyfir ríkisstjórnin sér að fara rúmlega 6 milljarða fram úr fjárlögum á síðasta ári umfram verðbólgu sem segir þá að ríkisstjórnin hefur látið fjármál landsins reka algerlega stjórnlaus og veit ekkert hvað hún er að gera. Þetta frv. um þjóðarbókhlöðu og endurbætur á menningarbyggingum er einstakt að því leyti að á sama tíma hefur

ríkisstjórn Íslands stolið þeim peningum sem áttu að fara til þjóðarbókhlöðunnar og notað þá í annað, notað þá í heildarhítina. Það verkefni sem var ákveðið á sinni tíð gæti verið komið langleiðina ef það hefði ekki verið gert.
    En það sem er ógeðfellt við þetta er að það skuli sérstaklega verið að skatta íbúana á Reykjanesi og í Reykjavík með þessum hætti og sýnir best hug ríkisstjórnarinnar og hug þessara manna til fólksins á þessu svæði. Ég vil segja að það verður hart barist í þeim kosningum sem fara í hönd, en mér er alveg ljóst að ríkisstjórnin mun ekki halda velli öllu lengur með óráðsíu sína. Það verður hart barist og fólkið verður minnt á að það er verið að leggja sérstakan skatt á íbúana hér, bæði eignarskattinn og þennan sérstaka skatt sem íbúar þessa svæðis eiga sérstaklega að bera uppi.
    Fólkið á þessu svæði hefur ekki meiri tekjur eða hærri en fólkið úti á landi og það verður að borga þetta af sínum tekjum og það þýðir að ráðstöfunartekjur heimilanna hér eru minni en úti á landi. Ég minni á að þetta er ósvinna og ef við tökum dæmi eins og var í Morgunblaðinu nú á föstudaginn um þennan skatt munar gífurlegum fjárhæðum á samsvarandi eign. Það sem einstaklingur borgar á þessu svæði fyrir eignir sem voru metnar á 10,7 millj. eru 172 þús. Á sama tíma eru borgaðar fyrir sambærilega eign í kjördæmum sumra hér, eins og t.d. formanns fjh.- og viðskn. sem hér er ekki í dag, 17 þús. kr. Hvað segir þetta? Þetta segir að það eru tíu sinnum hærri skattar á fólk á þessu svæði hvað varðar þetta en víða úti á landi. Ef við tökum hinn sérstaka eignarskatt er í þessum dæmum enginn skattur á fólkið úti á landsbyggðinni. Það eru hundruð þúsunda sem fólk verður að borga hér fram yfir fólk úti á landsbyggðinni og það er kominn tími til að fólkið hér á svæðinu rísi gegn þessu.
    Þessi skattur er vondur skattur og það á að fella niður skatta á íbúðarhúsnæði því að tekjur heimilanna verða ekki hærri þótt lagðir séu skattar á það. Það er sorglegt til þess að vita að verkalýðshreyfingin hefur brugðist fólkinu hérna. Hún hefur brugðist. Hún hefur gersamlega rofnað úr tengslum við hinn almenna borgara og fylgist ekki með hvað þetta þýðir. En þegar álögurnar fara að dynja á fólkinu munu menn kannski vakna til lífsins um
hvað þeir hafa verið að samþykkja hér.
    Þegar þetta frv. var lagt fram var haldin löng og fögur framsöguræða af hæstv. menntmrh., sem hefur auðvitað ekki tíma til að sækja þingfundi nú, og þar var falleg og dásamleg upptalning á húsum sem hann ætlaði að láta lagfæra fyrir þessa peninga. Það hefur ábyggilega komið við hjartað á einhverjum sem vilja að þessi ágætu kirkjuhús sem eru á þjóðminjaskrá verði í lagi. En það er ekki hægt að leggja sérstakan skatt á íbúa á Reykjanesi og Reykjavík með þessum hætti. Það verður að linna þeim skattaálögum og það verður að sjá til þess að það gangi eitt yfir alla í sköttum.
    Ég minni á að menningarmál eru ekki neitt

einkamál íbúa á Reykjanesi og á ekki að leggja sérstaka skatta á bara hluta landsmanna fyrir það ef menn vilja halda því uppi. Að ætla að höfða til kirkjunnar með þeim hætti sem hér er og þeirra húsa sem eru á þjóðminjaskrá er heldur ógeðfellt. Það væri nær að ríkisstjórnin sæi til þess að fjárlög væru haldin, rekstur ríkisins væri innan fjárlaga og það sem þeir hefðu í tekjur umfram verðbólgu væri notað til að gera slíka hluti. Það er kominn tími til að þeir sem sitja í ríkisstjórn séu ábyrgir fyrir fjármálum þjóðarinnar, að þeir láti ekki vaða á súðum og hendi peningunum, bókstaflega hendi þeim í hin og þessi gæluverkefni eins og gert hefur verið af þessari ríkisstjórn.
    Það er alveg ljóst að sú stefna sem núv. ríkisstjórn siglir þjóðarskútunni í mun færa hana í kaf. Að leggja enn frekari skatta á þjóðina og fyrirtækin með þessum hætti er ekki hægt að líða.
    Það kom fram í umræðum í gær að hæstv. fjmrh., sem er ekki heldur hér viðstaddur, fannst bara ágætt að ríkissjóður ætti greinilega nægilega peninga, þeir hefðu lagt á svo mikla skatta að þeir gætu staðið undir þeim launahækkunum sem ríkið hefur nú samið um. Á sama tíma er grundvöllur íslensks þjóðfélags að bresta. Atvinnufyrirtækin í landinu sem leggja grundvöllinn fyrir heimilin og fyrir fólkið í landinu geta bara átt það sem úti frýs.
    Það er því alveg ljóst að þessir skattar eru slæmir og þó verri en margir aðrir því að þeir leggjast á heimilin með meiri þunga en allflestir aðrir skattar. Það er enginn jöfnuður í því hvernig þeir eru lagðir á. Auðvitað skiptir meginmáli að réttur fólksins í landinu til að búa í sínu eigin húsnæði á ekki að vera misjafn. Stofnkostnaður er og álíka hvar sem maður byggir á landinu. Það að það skuli vera allt upp í þúsundfaldur munur á sköttum á sams konar eignum er ógnvænlegt. Allar tölur benda til þess að stór byggðarlög úti á landi sleppi algjörlega við þá skatta sem er verið að leggja á og algjörlega við þennan sérstaka eignarskatt á sama tíma sem hann er lagður með ofurþunga á íbúa á Reykjanesi og í Reykjavík.
    Íbúar á suðvesturhorninu munu þjappa sér saman þegar verður kosið og mótmæla þessu því það er alveg ljóst að þegar álögurnar munu birtast með vorinu verður hér kurr í fólki.
    Atvinnufyrirtækin þurfa líka að hafa rekstrargrundvöll og það er ekki á það bætandi þegar skattar eru hækkaðir með þessum hætti sem hér er og þeim gert erfiðara um rekstur fyrirtækjanna. Þessi skattur þýðir að fyrirtækin verða að fá meira fyrir sinn snúð. Þau verða að hækka vöru og þjónustu. Og hverjir skyldu eiga að borga það? Það eru heimilin í landinu, fólkið. Fólkið í landinu verður að borga þennan skatt tvöfaldan og er þó búið að borga af sínum eignum, íbúðarhúsi og jafnvel öðrum eignum, tvisvar ef ekki þrisvar skatta áður. Þetta gengur því alveg á svig við alla skynsemi og allt réttlæti í þessum málum.
    Ég vil sérstaklega undirstrika að þetta frv. á að fella. Það á að fella það og reyndar mætti ríkisstjórnin

falla með. Það mundi enginn syrgja það. Sú stefna sem hér er verið að boða til skattpíningar fyrir borgarana er sú mesta sem nokkurn tíma hefur verið frá því að Ísland varð lýðveldi. Aldrei fyrr í sögu lýðveldisins hafa verið lagðir á svo miklir skattar. Það mun verða svo að þessi endurprentun menntmrh. á frv. hv. þm. Sjálfstfl. mun lengi lifa. Og við getum lofað ykkur því að fólkið í Reykjavík og á Reykjanesi mun láta frá sér heyra. Það mun ekki þegja þegar álagningarseðlarnir koma inn úr dyrunum á næstu mánuðum. Og það að ríkisstjórnin skuli gjörsamlega vera úr tengslum við fólkið hér sýnir enn einu sinni að þessi ríkisstjórn á að hætta strax, hún á að fara frá. Það væri best fyrir alla og sennilega best fyrir ríkisstjórnina líka og þá sem styðja hana. Það er sorglegt einnig að vita til þess að verkalýðshreyfingin hefur alveg gleymt sér. Henni er alveg sama um fólkið. Hún hefur ekki minnst orði á þetta, enda er verkalýðshreyfingin sennilega bara að hugsa um sjálfa sig.
    Ég geri ráð fyrir því að þeir sem standa að þessu frv., sem eru ríkisstjórnarþingmenn væntanlega, muni fagna því þegar fólkið fær þessa skatta inn úr dyrunum. Það er gjörsamlega óverjandi að skattar með þessum hætti skuli vera lagðir á. Þegar stór byggðarlög borga enga skatta af sambærilegum eignum eru íbúar á þessu svæði að borga stórkostlegar upphæðir, upp í þúsundfalt og jafnvel meira, í skatta. Þessi mismunun er einhver sú mesta sem um getur í sköttum á þessu landi og þeir þingmenn sem hér hafa setið þegjandi undir þessu, þegar þeir leita eftir umboði næst þegar kosið verður, sem verður
væntanlega fljótlega, munu fá að heyra frá fólkinu á þessu svæði. Það verður gaman að fylgjast með því þegar þeir leita eftir umboðum til sinna kjósenda eftir þá skattadembu sem hefur verið hellt yfir íbúana hérna sérstaklega.
    Hæstv. forseti. Ég óska þess að ríkisstjórnin lifi ekki nógu lengi til þess að þetta frv. nái í gegn, en hef þó grun um að svo verði, því miður fyrir íbúana á þessu svæði.