Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mikilvæga þingmál skuli komið á lokastig í meðförum þingsins. Þetta frv. um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds er ákaflega mikilvægt mál. Það er sjaldan fjallað í þingsölum um grundvallaratriðin í lýðræðissamfélaginu eins og hér er gert nú. Þetta mál hefur fengið mjög rækilegan undirbúning og þeim mun ánægjulegra er það að það skuli hafa tekist samstaða um málið í hv. Ed.
    Ég vildi taka það fram að ég tel það vel ráðið af hæstv. dómsmrh. að skipa sérstaka nefnd til að fjalla um verkefni sýslumannanna og ég er honum alveg sammála um það að innheimtustörf eigi að vera hjá þeim áfram og það sé óráð að stofna sérstakar gjaldheimtur án þess að nauðsyn krefji. Svipuðu máli gegnir um umboð fyrir almannatryggingar.
    Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vesturl., að það er æskilegt að í dómsmálum og réttarfarsmálefnum sé þróun en ekki stökkbreytingar við okkar aðstæður. Hann minnti okkur á að það leið meira en aldarfjórðungur frá því Gunnar Thoroddsen flutti tillögu um sjálfstæðan saksóknara óháðan hinu pólitíska ráðherravaldi árið 1934 þar til að það embætti var sett á stofn með lögum sem sjálfstætt embætti árið 1961. En ég vildi í þessu sambandi minna á að núna eru liðin meira en 73 ár frá því fyrsta tillagan kom fram um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds og um aðskilnað dómsvalds og umboðsstarfa í héraði sem eiginlega er í efni sínu sú hin sama og sú sem hér er að verða að lögum því það var árið 1916 að milliþinganefnd kom með tillögur sem eru mjög líkar þeim sem við fjöllum nú um. Nú í fyllingu tímans verður þetta að lögum og eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh. með því að ætla til þess hæfilegan aðlögunartíma og undirbúning þannig að frv., þó að lögum verði nú, taki ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1992, en einmitt þannig mun gefast tími til að undirbúa alla framkvæmd og stilla kostnaði í hóf og ég er alveg viss um að hæstv. dómsmrh. mun leggja þau gögn fram í hv. allsn. þessarar deildar sem sýna að kostnaður af framkvæmd þessarar nýskipunar dómsmálanna má vel vera innan þeirra marka sem greind eru í frv. þótt auðvitað sé jafnan erfitt að meta það til nákvæmrar tölu.
    Ég tek það fram að ég tel það ekki rök í málinu, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vesturl., að fleiri væru ekki við eina fjölina felldir en sýslumenn. Það eru ekki rök í þessu máli því að hér er um miklu mikilvægara málefni að ræða en það að menn fáist við margt í fámennu landi hver hjá sér. Hér er um að ræða nokkur grundvallaratriði í dómskerfinu sem ég veit að hv. 2. þm. Vesturl. hefur á næman skilning, enda lýsti hans ræða því að hann fagnaði því að fram væri komið hér frv. um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds. Ég vildi að endingu taka undir með hæstv. dómsmrh. að þetta er mikið framfaramál, heiðursmál fyrir okkur og það er til þess fallið að auka traust á íslenska réttarfarinu, en á það má enginn blettur falla.