Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. flutti hér afskaplega notalega ræðu sem í sjálfu sér var ljúft að hlýða á. Hann neitaði því að íslenska réttarkerfið og dómskerfið væri þannig í stakk búið að íslenskir borgarar væru beittir misrétti þó að ég taki vitaskuld undir það með honum að það verður alltaf svo með mannanna verk að þau geta orkað tvímælis, en þetta var meginniðurstaða úr hans svari við mínum fyrirspurnum.
    Það kom afskaplega óglöggt fram í máli hæstv. ráðherra hvert væri þá aðaltilefni þess að horfið væri að því að taka upp nýtt kerfi, ég segi kostnaðarsamt kerfi. Aðalástæðan í máli hans var sú að það væri mikil fjölgun mála hjá íslenskum dómstólum. Önnur ástæða sem hæstv. ráðherra nefndi var að við þyrftum alltaf að gæta þess að hafa kerfið með þeim hætti að við nytum sem bests trausts. Jú, jú. Ef við njótum trausts eftir eldra kerfi og við höfum ekki sætt því að vera misrétti beittir af því kerfi, er þá ástæða til þess að annað kerfi sé trausts verðugra? Allt var þetta helst til losaralegt þótt það væri notalegt á að hlýða.
    Hæstv. ráðherra gerði lítið úr þeim áhyggjum mínum að þessu mundi fylgja aukinn kostnaður og væri betur að satt reyndist. En ég er ekki sömu skoðunar. Ég hef þurft að taka þátt í því og horfa upp á að nýjum embættismönnum fylgi kostnaður, nýju embættiskerfi fylgi kostnaður. Nýir embættismenn vilja fá embættisbústað og nýjar embættisskrifstofur og nýtt starfslið, nýtt tölvukerfi o.s.frv. o.s.frv. að ógleymdum reksturskostnaði. Ég hlýt að endurtaka að ég óska eftir því hér með formlegum hætti að með frv. fylgi úttekt Fjárlaga- og hagsýslustofnunar á kostnaði sem því yrði samfara að mati þeirrar stofnunar þegar það kemur til 2. umr., enda er slíkt skylt eftir lögum.