Skógrækt
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það er skylt að þakka það að þetta frv. um skógvernd og skógrækt skuli nú loks fram komið hér á þessu þingi. Sannarlega hefðum við kosið að sjá það fyrr fram komið og gildir þar í rauninni sama og á fyrri þingum. Aðeins með einni undantekningu á sl. fjórum þingum að ég hygg hefur þetta mál komið fram snemma á þingi, síðast með allnokkrum breytingum frá fyrstu gerð og nú enn með nokkum breytingum frá þriðja frv. sem lagt var fyrir þessa hv. þingdeild í tíð fyrrv. ríkisstjórnar.
    Ég veit að hæstv. landbrh. hefur látið vinna að þessu máli frá því að hann tók við starfi til þess að fá fram breytingar til að styrkja þessa löggjöf, ekki síst að því er varðar ræktun nytjaskóga og sú viðleitni er vissulega þakkarverð. Ég vil leggja mikla áherslu á það að mjög mikil þörf er á því að reyna að lögfesta þær breytingar sem þetta frv. felur í sér sem fyrst og ég hvet eindregið til þess að reynt verði að ná þeim árangri á þessu þingi þrátt fyrir stuttan tíma sem ráðgerður er þangað til þingi verður slitið.
    Ástæðan fyrir því að ég mæli þau hvatningarorð er þörfin á því fyrir þá sem að þessum málum starfa og alveg sérstaklega í sambandi við áætlanir og áform um það að hefja í meiri mæli en verið hefur skógrækt sem atvinnugrein í sveitum landsins. Á vissum svæðum stendur þannig á að aðstæður eru óvenjuhagstæðar til þess að breyta um búskaparhætti, en það er aðeins um takmarkaðan tíma sem þannig háttar til og nauðsynin á því að þær breytingar nái fram að ganga á grundvelli skýrra lagaákvæða og samninga er mikil. Sú er ástæðan fyrir því að ég hvet til þess að við leitumst við að lögfesta þetta frv. nú á þeim skamma tíma sem eftir lifir af störfum þessa þings.
    Það er ýmislegt sem ástæða væri til að fjalla um í tengslum við þetta mál sem er tvíþætt eins og nafnið ber með sér, skógvernd og skógrækt. Ég hef rætt þetta mál nokkuð þegar frumvörp hafa verið lögð hér fram á undanförnum þingum og spara mér því að eyða mjög löngu máli að þessu frv. en vil þó leyfa mér, virðulegur forseti, að nefna nokkur atriði.
    Varðandi fyrri þáttinn, skógverndarþáttinn, þá er hann engu síður gildur og mikilvægur heldur en hinn síðari og kannski enn þá stærri í reynd ef rétt verður á málum haldið. Skógvernd og uppgræðsla náttúrlegra skóga í landinu er eitthvert allra stærsta gróðurverndarmálið. Gróðureyðingin, sem er stærsta umhverfisvandamál Íslands á þurrlendi á liðnum öldum og fram á þennan dag stafar öðru fremur af ofnýtingu á gróðri landsins sem birtist fyrst af öllu í því að skóglendið hefur horfið á stórum svæðum. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu eða hafa uppi dóma um það sem gerst hefur í þeim efnum. Það gerðist vegna bágra aðstæðna í landinu, þekkingarleysis en alveg sérstaklega af því að menn höfðu hvorki þekkingu á samhengi í náttúrunnar ríki né aðra möguleika til þess að framfleyta sér heldur en þeir voru skammtaðir hér fyrr á öldum og gengu þannig á gróðurlendið og á skógana og

jarðvegseyðingin fylgdi hratt í kjölfarið. Það er hins vegar hægt að segja það í dag að það er óhæfa að við skulum ekki hafa náð þeim árangri á þessari öld tiltölulegrar velmegunar í Íslandssögunni að stöðva það undanhald sem við höfum búið við á fyrri öldum í sambandi við gróðureyðingu og að það skuli enn gerast að mikill hluti skóglendis í landinu er í afturför.
    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að rifja það upp í því samhengi að það var mat þeirrar nefndar, sem vann að skýrslugerð fyrir landbrn. og skilaði af sér skýrslu í maí 1986 undir heitinu ,,Landnýting á Íslandi og forsendur fyrir landnýtingaráætlun``, varðandi aðstæður, varðandi mat á ástandi gróðurlendis með sérstöku tilliti til skógræktar, eftirfarandi leyfi ég mér að vitna til úr þessari skýrslu: Röskur fjórðungur alls skóglendisins er í afturför, tæpur þriðjungur í framför og stöðnun er talin ríkja á um 40% skóglendis. Sennilegt er að skóglendi í afturför sé fremur vanmetið en ofmetið. Og þetta varðar skóglendi sem þekur nú aðeins um 1250 ferkílómetra landsins, en var að mati þeirra sem reynt hafa að áætla skóglendi við landnám eða upp úr landnámi, eins og ástand var þá, að talið er að fjórðungur landsins eða röskir 25 þús. ferkílómetrar Íslands hafi verið skógi vaxnir. Hér hefur því orðið gífurleg eyðing sem er það mikið umrædd að það er ástæðulaust að fjölyrða frekar um það hér.
    Ég held að það sé alveg sérstök ástæða til að undirstrika samhengið milli skógverndar og uppgræðslu náttúrulegra skóga og landgræðslu eða landhlífðar, möguleikana á að vernda jarðveginn sem er undirstaða gróðurs í landinu, með ýmsu öðru vissulega. Þessi þáttur verður ekki metinn til fjár, hvorki sú hlífð við jarðveg sem felst í uppgræðslu skóga og kjarrlendis né heldur sá unaður og yndisauki sem fylgir náttúrulegum skógum í landinu, alveg sérstaklega okkar birkiskógum sem er hinn náttúrulegi meginstofn í skógum Íslands.
    Síðan er það hinn þátturinn sem hæstv. ráðherra fjallaði hér um í sinni framsögu, þ.e. skógræktarþátturinn, möguleikinn á að hverfa til skógræktar sem atvinnuvegar, sem búskapar í landinu umfram það litla sem að hefur verið gert í þeim efnum. Þar eru möguleikarnir til staðar. Það sýnir reynsla þessarar aldar að á úrvalssvæðum hvað varðar loftslag í landinu er raunhæft að ætla sér
að stunda skógrækt, ræktun timburskóga með árangri og ávöxtun sem byggir á framleiðni hliðstætt því sem gerist í nágrannalöndum okkar og þar sem ætla má að hægt sé að ávaxta það fjármagn sem í þetta er lagt með ekki lakari hætti en menn gera ráð fyrir sem eru að reyna að ávaxta sitt sparifé í bönkum, þannig að möguleikarnir eru ótvírætt til staðar.
    En ég tek undir það bæði með hæstv. ráðherra og hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur að það skiptir afar miklu máli að haldið sé vel á framkvæmd nytjaskógræktar í landinu þannig að menn takmarki sig fyrst og fremst við þau svæði sem álitlegust eru í þessu skyni og undanskil ég þá vissulega ræktun

skóga í minni mæli og skjólbeltaræktun sem getur gagnast í öðru samhengi. En það er um þetta eins og fleira að það er hagkvæmt, ótvírætt hagkvæmast að geta tekið undir allstór svæði í þessu skyni, nokkuð stór svæði m.a. vegna girðingarkostnaðar en einnig vegna vélanotkunar og aðstöðu ýmissar og þjónustu sem þarf að fylgja við nytjaskógræktina.
    Hæstv. ráðherra vék að Fljótsdalshéraði, þeim landshluta sem Alþingi hefur ákveðið að hýsi höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins og það er eitt af nýmælum í þessum lögum sem ég fagna auðvitað sérstaklega sem einn af flm. þeirrar þáltill. sem Alþingi samþykkti á síðasta vori og hefur nú leitt til þess að hér er flutt stjfrv. um að höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins verði á Fljótsdalshéraði. Þetta er góður áfangi, þetta er gott mál, ekki aðeins táknrænt fyrir byggðastefnu heldur einnig raunveruleg framkvæmd á því að færa yfirstjórn ákveðins málaflokks út fyrir höfuðborgarsvæðið og þar mætti sannarlega margt á eftir fylgja. Þó að ég sé ekki að mæla með því að menn fari þar offari, þá má haga þeim málum með ýmsum öðrum hætti heldur en að flytja kjarnann í yfirstjórn mála út um land. Ég hygg að það megi ná árangri einmitt með því að tengja saman yfirstjórnstöðvar og minni stjórnstöðvar í landshlutunum þannig að það gagnist sem flestum og eðlilegs samræmis sé gætt.
    Á Fljótsdalshéraði eru aðstæður nú þær í sambandi við búháttabreytingar að þörfin á að spyrna við fótum og ná samningum við tugi bænda um það að þeir hverfi fyrst og fremst að nytjaskógrækt sem búgrein, sú þörf blasir nú við og það er m.a. það sem hvetur til þess að þetta frv. verði að lögum þannig að framkvæmdarvaldið geti gengið til þeirra samninga og látið á reyna.
    Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, í þessu samhengi að vekja athygli á blaðagrein sem birtist í dagblaðinu Tímanum föstudaginn 9. mars 1989 skrifuð af einum þeirra bænda sem ætla sér hlut í þessari nytjaskógrækt, þessari skógræktaráætlun sem menn hafa verið að undirbúa austur á Fljótsdalshéraði, en það er Bragi Gunnlaugsson sem skrifar þessa grein, bóndi á Setbergi í Fellahreppi. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að grípa aðeins niður í þessa blaðagrein, skal þó takmarka tilvitnun, en hér segir m.a.:
    ,,Nær fjárlaust er austan Lagarfljóts frá Héraðsflóa að Fljótsdal, að Skriðdal undanskildum. Meira en helmingur Tungufjár er fallinn, í Fellum, Fljótsdal fellur hver bærinn á fætur öðrum.`` Hér á höfundur við bústofninn, sauðféð. ,,Trúlega verður að farga öllu fé í þessum hreppum innan tíðar. Að afloknu tveggja til þriggja ára fjárleysi horfa margir bændur til þess með ugg í brjósti að taka fé aftur af mörgum ástæðum og gera það ekki í þeim mæli sem var séu aðrir atvinnumöguleikar fyrir hendi. Því er nú lag til búháttabreytinga í lágsveitum Fljótsdalshéraðs úr sauðfé í nytjaskóga, lag sem stendur en varir ekki lengi og kemur ekki aftur í náinni framtíð. Ég tel að við bændur í framangreindum sveitum eigum að taka

þessu lagi tveim höndum og sameinast um að taka lönd okkar í meira eða minna mæli undir ræktun nytjaskóga sem í fyllingu tímans mundu klæða Héraðið milli fjalla svo sem áður var upp í 200--300 metra hæð. Skilyrði fyrir því að það megi gerast er: 1. Pólitískur vilji. 2. Verðtryggð árleg opinber fjármögnun næstu 20--25 ár a.m.k. sem kosti allar framkvæmdir. 3. Órofa samstaða allra bænda og jarðeigenda á Héraði.``
    Ég hvet þá sem vilja kynna sér þessi mál, einnig vegna áætlunargerðar og möguleika nytjaskógræktar á öðrum svæðum á landinu, að líta í þessa yfirlitsgrein þessa austfirska bónda sem rekur m.a. vinnu þess félags skógarbænda sem stofnað var á Héraði 3. maí 1988 en stofnendur þess eru 60--70 bændur og aðrir jarðeigendur.
    Það liggur fyrir að þarna stendur til boða mikið landsvæði með þeim loftslagsskilyrðum sem einkenna efri hluta Fljótsdalshéraðs, þeim bestu til skógræktar sem við höfum í landi hér, þó að önnur jafnist kannski á við það þó með nokkuð öðrum hætti sé því landið er breytilegt í gróðurfarslegu tilliti og taka verður að sjálfsögðu tillit til þess einnig við skógarbúskap.
    Það eru hér á ferðinni hvorki meira né minna en landloforð frá jarðeigendum sem hafa boðið fram rúmlega 14.000 hektara lands undir skóg og meira er í vændum. Má til samanburðar geta þess að Hallormsstaðaskógur, sem er mestur skógur á Íslandi, nær ekki 1000 hekturum að stærð og geta menn af því ráðið hversu mikið hér er í reynd í húfi að það takist að ná þessu svæði undir nytjaskógrækt, létta þar með á fyrir þá sem stunda fjárbúskap, sauðfjárrækt annars staðar og eiga að geta notið þess að fé fækkar á tilteknu svæði, fjárstofni fækkar í heild, ef skiptin verða þau sem hér er að stefnt að draga
úr fjárbúskapnum, jafnvel leggja hann af á jörðunum og taka upp þessa nýbúgrein, nytjaskógrækt.
    Virðulegur forseti. Það mætti margt ræða í þessu samhengi, m.a. ákvæði þessa frv. sem eru mörg athyglisverð. Ég vil vekja athygli á því að þar eru lagðar verulegar kvaðir á starfsmenn Skógræktar ríkisins í því efni, skógræktarstjóra meðtalinn, sem yfirmann þeirrar stofnunar, um það að fylgjast með ástandi birkiskóga í landinu, hvað aðhafst er varðandi skógana, og ég tel að það þurfi að herða á, að starfsmenn Skógræktar ríkisins þurfi að taka sig á, því að sum af þessum ákvæðum hafa verið í gildi, ef það á að fylgja þessum lagaákvæðum eftir í reynd. Á því er þörf. Á því er tvímælalaust þörf.
    Ég bendi í þessu samhengi t.d. á ákvæði 12. gr. og ákvæði 14. gr. þar sem kveðið er á um það að skóg má ekki höggva nema fyrir liggi samþykki Skógræktar ríkisins, rækta skal nýjan skóg í stað hins höggna nema skógræktarstjóri samþykki annað, og fleira sem varðar viðhald skóga í landinu og eftirlit með skógum. Þetta eru góð ákvæði en þau kalla á það að þeim sé fylgt eftir að sjálfsögðu og það sama gildir um 15. gr. sem er nýmæli í þessu frv. um það að gróðurverndarnefndir skuli senda Skógrækt ríkisins

skýrslu um ástand og meðferð skóglendis í viðkomandi sýslu. Ég hlýt að nefna það að starf þessara gróðurverndarnefnda er víðast hvar á landinu í engu samræmi við ákvæði gildandi laga eða þess sem til er ætlast af þeim af löggjafanum í sambandi við viðkomandi lagabálk sem fjallar um gróðurverndina og til er vísað í þessu frv. Því miður. Þekkingarskorturinn á ástandinu varðandi gróður landsins er alveg himinhrópandi og vanræksla þeirra kynslóða sem nú lifa á Íslandi gagnvart þessu hrópar í himininn. Menn eru hér að skrifa og fylla margar síður í blöðum og hafa verið mjög fjörleg skrif t.d. á þessu ári. Það kann að vera að hæstv. iðnrh. eigi einhvern þátt í því og það er út af fyrir sig af hinu góða. Það hefur einmitt mikið verið fjallað um gróðureyðinguna. Margt er þar rétt mælt og af góðum hug en mikið er þar sagt af vanþekkingu sem stafar af því að þær stofnanir og yfirvöld í landinu, sem eiga að tryggja rannsóknir og að reiða fram rannsóknir, niðurstöður rannsókna, þannig að aðgengilegar séu, hafa ekki haft aðstæður til þess að rækja hlutverk sitt eða bolmagn af einhverjum ástæðum en oft er auðvitað fjárskorti um að kenna, en einnig skipulagsleysi.
    Ég rifja upp í þessu samhengi, af því að hv. 2. þm. Norðurl. v. er hér í þingsal, að ég minnist þess þegar við sátum saman í ríkisstjórn hér fyrir tæpum áratug að þá voru þessi mál rædd þar vegna áhuga hv. þm., þá landbrh., á að taka á þessum málum og til bóta. Við ræddum þetta við ríkisstjórnarborð og ég innti m.a. eftir því hvar væri yfirlitskort af Íslandi sem sýnir nokkurn veginn svona í grófum dráttum ástand gróðurlendis í landinu, hvað er í framför, hvað er í jafnvægi og hvar gróðurlendi er í afturför. Og hæstv. þáv. landbrh. kom með upplýsingar: Ja, þetta liggur nú bara ekki fyrir hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins en ég skal reyna að bæta úr. --- Og hann kom nokkru seinna með kort undir arminum, fyrsta yfirlitskortið af Íslandi þar sem reynt var svona í grófum dráttum að draga fram þetta ástand gróðurlendisins. Og heiður sé honum fyrir það að hafa komið með þau gögn fyrstur manna inn á borð ríkisstjórnar Íslands.
    En það er ástæða til að nefna fleira, virðulegur forseti, því að dagurinn í dag er merkisdagur, ekki aðeins vegna þess að hér er mælt fyrir þessu frv. um skógvernd og skógrækt heldur í sögu umhverfisverndar á Íslandi í víðu samhengi því að hér hefur það gerst á þessum degi að á borð þingmanna nú fyrir tæpri klukkustund eða svo barst stjfrv. til laga um umhverfismál, 417. mál á þskj. 777, þar sem gert er ráð fyrir því í fyrsta sinn í frumvarpsformi hér á þingi, í stjfrv. sem hér er fyrir lagt, að gerð er tillaga um það að færa stjórnun umhverfismála í landinu í nútímalegra horf en verið hefur. Ég vil ekki segja nútímalegt horf því að það er kannski ekki allt fengið með þessu frv. Það þarf fleira að fylgja á eftir. En þetta er geysilega stór áfangi í sögu baráttunnar fyrir umhverfisvernd, baráttu sem hefur staðið hér m.a. fyrir því að umbylta stjórnsýslunni í landinu svo sem

þörf er á í ljósi nýrrar sýnar til umhverfismála. Þessi barátta hefur staðið í 20 ár fyrir þessari breytingu og nú er árangurinn kominn hér þó í þessum mæli að fyrir liggur frv. um umhverfismál sem verður væntanlega mælt fyrir hér í þinginu innan skamms. Þar er m.a. --- og ég nefni það vegna þess að hæstv. landbrh. saknaði menntmrh. hér í þingsal vegna þess að hann fari með málefni hreindýra sem fjallað er um í 9. gr. frv. til laga um skógvernd og skógrækt, vegna þess tjóns sem hreindýr geta valdið í skógarlendum og var að vekja athygli á því að hreindýramálin væru enn á verksviði menntmrh. en nú er von á að á því geti orðið breyting. Ég þykist vita að ýmsir prókúruhafar hreindýra í landinu á Hverfisgötu 6 sjái dálítið eftir þessu því a.m.k. hjá sumum þeirra, sem eru nú kannski farnir úr embætti, var það auðvitað tilbreyting að hugsa til hreindýranna mitt í amstri skóla- og menningarmála og jafnvel að leggja leið sína austur á land til þess að horfa, þó ekki væri nema út um bílglugga, á hjarðirnar og útdeila veiðikvóta á hreindýrum. En það er meiningin að færa þetta undir hið nýja umhverfisráðuneyti sem samkvæmt frv. á að verða að veruleika 1. sept. á þessu
ári. Það eru fleiri lagabálkar sem eiga að koma þar undir, þar á meðal lögin um landgræðslu, nr. 17/1965, að því leyti sem tekur til eftirlits með ástandi gróðurs og undir samstarfsnefnd umhverfisráðuneytis og fleiri ráðuneyta, þar á meðal landbrn., skulu færast lög um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum, sem við erum að ræða hér í dag.
    Þetta horfir til réttrar áttar, virðulegur forseti. Þetta horfir til réttrar áttar og ber að fagna því að þessi ríkisstjórn sem settist hér að völdum á haustdögum, 28. sept. sl., skuli þó hafa megnað mitt í amstrinu við efnahagsmálin að taka á þessum málaflokkum sem við erum að ræða hér hluta af þar sem er þetta frv. um skógvernd og skógrækt.
    Ég hlýt að nefna það, virðulegur forseti, að einn þáttur þessa máls varðar rannsóknir og það er eitt af nýmælum þessa frv. og þeirra frumvarpa sem við höfum rætt hér á síðustu þingum um skógvernd og skógrækt að styrkja rannsóknarþátt að því er þennan málaflokk varðar. Það verður ekki of mælt og ekki of oft sú vísa kveðin hversu mikil þörf er á því fyrir okkur Íslendinga að spretta úr spori að því er varðar rannsóknir, ekki síst á náttúru landsins, gögnum þess og gæðum. Við erum alltaf að borga fyrir það dýru verði hver vanrækslan hefur verið á þessu sviði á undanförnum áratugum. Þar er verið að kasta krónunni þar sem menn hafa dregið við sig að leggja í rannsóknir eins og þyrfti, en einnig hefur sitthvað glatast vegna skipulagsleysis þeirra mála, vegna tvíverknaðar og skipulagsleysis þannig að einnig þar þarf úr að bæta.
    Skógrækt og gróðurvernd og allt sem lýtur að viðhaldi gróðurs í landinu þarf að byggja á þekkingu á því sem fyrir er, möguleikum, ekki síst þegar um ræktun er að ræða. Þar þurfum við rannnsóknir og þar þurfum við að safna saman heimildum sem liggja fyrir víða um land í formi tilrauna, alveg inn í garðana hjá

fólki, þar sem lesa má heilmikla sögu ef þeim heimildum er safnað saman og úr þeim unnið um ræktunarmöguleika á hinum ýmsu stöðum fyrir hinar ýmsu tegundir sem menn hafa sett í jörðu að því er varðar aðfluttan gróður. Ég hvet til þess að menn reyni að spretta úr spori einnig að þessu leyti.
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki taka meiri tíma þingdeildarinnar til að ræða þetta mál sem er hér til 1. umr. Ég vona að okkur takist að lögfesta þetta frv. áður en þingi lýkur í vor, jafnvel að styrkja einstaka þætti þess, skera úr um vafaatriði. Gildir það ekki minnst um þann þátt sem lýtur að kaflanum um nytjaskógrækt vegna þeirra samninga sem menn þurfa að geta gengið til af ákveðni og á traustum lagagrundvelli nú með vordögum.