Skógrækt
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft merku máli sem gjarnan hefði mátt vera fyrr á ferð hér í þinginu. Tvímælalaust má þó segja um það, eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Austurl., að það er mjög brýnt sums staðar að gengið verði frá lagafrv. þessu. Þegar ég segi sums staðar á ég við þá sérstæðu stöðu sem er t.d. á Austurlandi þar sem niðurskurður hefur verið á sauðfé vegna riðu og mikið samliggjandi land væri hugsanlega hægt að taka undir skógrækt.
    Ég ætla ekki að fara hér út í mjög nákvæmar athugasemdir en vil þó taka það fram að á fyrstu blaðsíðunni hnýt ég, eins og ræðumaður sem var hér á undan mér, um orðið ,,skógarlundur`` og tel ekki sanngjarnt að það sé afmarkað á þann veg sem hér er lagt til. Ég er sannfærður um að það má finna annað orð, hvort sem menn tala þar um skógarsvæði, ræktunarreiti eða hvað menn hafa yfir land sem ekki er orðið að skógi en skógrækt er hafin á.
    Það eru aftur á móti örfá atriði sem vekja spurningar og í 9. gr. stendur, með leyfi forseta: ,,Nú verða óvenjuleg snjóalög svo hætta er á að löggirðingu fenni í kaf.`` En hvað með það ef snjóalögin eru nú ekkert óvenjuleg og eru bara venjuleg á þessu svæði og girðingar fenna þar yfirleitt í kaf yfir veturinn? Hvaða reglur gilda þá? Mér finnst einhvern veginn eins og þetta hafi verið samið í því andrúmslofti að eitthvað sé óvenjulegt við það að það snjói þannig að girðingar fari í kaf. Mér finnst dálítið losaralegt að gera ráð fyrir að eitthvað óvenjulegt sé við það.
    Ég hnýt einnig um það að það er ekki algjört jafnræði í þeirri skyldu sem sett er á þá sem eiga að gæta nautgripa, hrossa, sauðfjár og geita og þeirra sem eiga að gæta hreindýranna. Ég tel að þarna þurfi að vera um sömu skyldur að ræða, og ég vil bæta því við að ég tel að það sé mjög brýnt að það sé viðurkennt því að verði farið út í skógrækt á Austurlandi á mjög stórum svæðum liggur það náttúrlega alveg ljóst fyrir að slíkt land væri kjörið vetrarbeitarland fyrir hreindýrin að þeirra eigin áliti og gæti verið tafsamt að ná þeim út úr skóglendinu ef það eru fleiri tugir eða hundruð hektara, nokkur hundruð hektara. Ég held þess vegna að ekki sé um annað að ræða en að taka fullt tillit til þess strax þegar menn ganga í það af bjartsýni og áræði að koma upp stórum nytjaskógum á ákveðnum svæðum í þessu landi.
    Hér eru aftur á móti sumar greinar sem eru mjög tæpar gagnvart því að standast stjórnarskrána. Og fyrst hnýt ég um 10. gr. ,,Skógræktarstjóra er heimilt að banna alla beit í skóglendi utan heimalanda frá 1. nóv. til 1. júní ár hvert.`` Ég segi nú eins og er að ég tel þetta eðlilegt ákvæði í alla staði. Að vísu lít ég svo á að heimalönd séu þau lönd sem tilheyra býlinu og séu ekki afrétt og ég veit ekki dæmi þess að beit sé heimil á afréttum á þessum tíma yfir höfuð. Svo þá vekur þetta spurningu um það hvað átt er við með orðinu ,,utan heimalanda``. Hvaða landsvæði er það? Er það landsvæði í annarra eigu sem um er að ræða,

þá á láglendi? Vissulega þyrfti að skýra betur við hvað er átt með því.
    Svo kemur hér neðar atriði sem aftur á móti er ekki jafnauðskilið, með leyfi forseta: ,,Hagi svo til að gripahús standi í skóglendi eða við jaðar þess er eiganda þeirra eða notanda skylt að girða í hæfilegri fjarlægð frá húsunum svo að búpeningur komist ekki í skóglendið á tímabilinu frá 1. nóv. til 1. júní, enda taki eigandi skóglendisins þátt í kostnaði af slíkri girðingu að hálfu.`` Sé nú gert ráð fyrir að það sé sami eigandi að skepnunum og skóglendinu, hvað gerist þá ef eigandi að skepnunum segist vilja girða en eigandinn að skóglendinu segir nú klárt nei? Þarna þarf greinilega eitthvað að breyta textanum, sýnist mér. Og það vaknar líka sú spurninmg í þessu sambandi hvort það sé svo fortakslaust að það þurfi að verja hverja einustu hríslu, ef svo mætti komast að orði, að t.d. eins og hagar víða til á Vestfjörðum að kjarrgróður þekur mikinn hluta af jörðinni, þá sé nánast þannig frá gengið að þar megi engin skepna fara út fyrir girðingu fyrir 1. júní. Því með því ákvæði er náttúrlega verið að taka ákvörðun um það að banna notkun heimalanda, að banna notkun heimalanda ef á þeim er skógur. Ég tel að þarna séu menn komnir út í ógöngur, og ég er ekki búinn að sjá að það gangi upp að skógræktarstjóri eigi að hafa vald til þess að skipa mönnum annað tveggja að hafa búpening inni á túnum eftir 1. nóv. eða á húsi ef þeir búa við þær aðstæður að eitthvert skóglendi er á jörðinni. Í mörgum tilfellum er ekki um neina ofbeit á þessu skóglendi að ræða vegna þess einfaldlega að það er orðið svo fátt í högum vegna þess hve sauðfé hefur fækkað í landinu. En þetta ákvæði í 10. gr. getur einfaldlega rekist á við stjórnarskrána gagnvart því hvaða rétt menn eigi til að nýta eignir á hefðbundinn hátt því að þetta varðar atvinnufrelsi ef hægt er að sýna fram á að þeir hafi á engan hátt skaðað landið á undanförnum árum.
    Það sem ég rakst hér á í 22. gr. er það orðalag að talað er um að menn geti leyst sig undan skyldum og sagt, með leyfi forseta: ,,enda endurgreiði hann [landeigandi] þá öll framlög sem innt hafa verið af hendi``. Þarna kemur ekki fram hvort hann eigi að endurgreiða þau verðtryggð eða óverðtryggð. Ég held að þetta orðalag þyrfti að verða nákvæmara þannig að það lægi alveg ljóst fyrir við hvað væri átt.
    Í 23. gr. hnýt ég um það þar sem kemur að forkaupsrétti. Túlkun á forkaupsrétti hefur verið sú að sveitarfélag megi t.d. ganga inn í hæsta boð á landi. Við skulum hugsa okkur að það gerðist að jörð væri veðsett og þessi kvöð væri á jörðinni að það væri skóglendi, hún færi á nauðungaruppboð, Landsbankinn ætti efsta boð og hann yrði að leysa til sín jörðina með því að fara í þetta efsta boð. Svo kæmi Skógræktin og segði: Ég er að hugsa um að neyta forkaupsréttar og það stendur náttúrlega ekki til að ég fari að borga það sem þið þurftuð að bjóða í þessa jörð á uppboðinu. Ég fer einfaldlega fram á að það verði farið eftir 23. gr. og það verði mat tveggja dómkvaddra manna sem ákveði verðið. Þetta eru atriði

sem ég held að standist ekki gagnvart stjórnarskránni, að standa þannig að þessu, og held að þessu verði að breyta.
    En þó að ég hafi hér verið með athugasemdir við örfáar greinar breytir það engu um það að ég fagna frv. Ég fagna því að það skuli vera komið í frumvarpsform hér á Alþingi sem áður var viljayfirlýsing Alþingis, að höfuðstöðvar Skógræktarinnar skuli vera á Fljótsdalshéraði. Ég vildi gjarnan sjá það einnig hér í þessum lagatexta að þeir skógarverðir sem settir hafa verið til að gæta skóglendis, hvort heldur þeir eru á Vesturlandi eða annars staðar, þurfi að eiga búsetu á þeim svæðum. Ég veit ekki hvernig á því stendur, en einhvern veginn hefur það nú gerst að menn hafa haft þar embættisskyldum að gegna en ekki talið sér skylt að eiga þar aðsetur.