Íslensk málnefnd
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Flutningur þessa frv., sem ég mæli hér fyrir, er liður í því málræktarátaki sem menntmrn. beitir sér fyrir á þessu ári og kynnt hefur verið í fjölmiðlum. Það er nauðsynlegur þáttur þessa máls og óhjákvæmilegur liður í átakinu að miklu fleiri aðilar tengist málræktarátakinu en sérfræðingar. Auk þess er mjög brýnt að það komi skýrt fram, eins og ég hef reyndar látið koma fram opinberlega, að til þess að þetta málræktarátak nái tilgangi sínum verður það að ná sem víðast í þjóðfélaginu og verður að stuðla að frumkvæði almennings, félaga og fyrirtækja ef nást á árangur. Það hefur t.d. verið að gerast núna undanfarna daga eftir að við kynntum þetta málræktarátak að fjöldamargir aðilar, m.a. fyrirtæki, hafa komið að máli við verkefnisstjórann og óskað eftir því að fyrirtækin fái að tengjast þessu átaki með einhverjum hætti. Við höfum orðið vör við það að það er bylgja stuðnings við þetta átak í þjóðfélaginu og frv. um breytingu á lögum um íslenska málnefnd er hluti af viðleitni okkar í þessu efni.
    Íslenskri málnefnd var fyrst komið á fót 1964 og er hún því 25 ára um þessar mundir. Framan af starfaði nefndin í tengslum við Háskóla Íslands og Orðabók Háskólans. Ég hygg að það hafi verið mjög mikilsverður þáttur í þróun íslenskrar málnefndar þegar Ingvar Gíslason, þáv. menntmrh., beitti sér fyrir því að forustumaður málnefndarinnar yrði jafnframt prófessor við Háskóla Íslands. Lagði hann þannig grundvöllinn að því að síðar voru sett lög um íslenska málnefnd og stofnun Íslenskrar málstöðvar árið 1984 í menntamálaráðherratíð Ragnhildar Helgadóttur. Forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar er jafnframt prófessor í íslenskri málfræði í heimspekideild Háskóla Íslands.
    Íslensk málstöð hefur orðið málræktarstarfi í landinu mikil lyftistöng og þar fer nú fram öflug starfsemi sem einkum lýtur að vexti orðaforðans, stafsetningarmálum og alhliða málfarsráðgjöf. Málstöðin annast útgáfu ritraðar íslenskrar málnefndar og tímarits hennar Málfregna. Það hefur tekist mjög gott samstarf á milli málstöðvarinnar og orðanefnda hinna ýmsu sérfræðifélaga sem hafa starfað við íðorðasmíð af miklum myndarskap á undanförnum árum. Hygg ég að á engan sé hallað þótt bent sé sérstaklega á Verkfræðingafélag Íslands í þeim efnum. Þó að málstöðin sinni reglulega erindum fjölda manna sem þangað leita eftir leiðbeiningum um málfarsleg efni er það án efa til bóta og óhjákvæmilegt að tengja málræktarstarfið enn þá fleiri aðilum í þjóðfélaginu. Með breyttum þjóðfélagsháttum lendir máluppeldi á fleirum en áður, enn meira á skólum og fjölmiðlum og það er mikilvægt að þessir aðilar tengist málræktarstarfinu. Málræktarstarf án tengsla við skóla, án tengsla við uppeldisstofnanir, án tengsla við dagheimili, án tengsla við fjölmiðla, ber ekki þann árangur sem nauðsynlegt er að keppa að. Starfsemi íslenskrar málnefndar hefur verið víðfeðm og meginþáttur starfseminnar er málfarsleg ráðgjöf.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að kalla til miklu fleiri

aðila auk hinna sérfróðu aðila sem að þessum verkum hafa starfað á undanförnum árum. Þar er gert ráð fyrir því að í nefndinni sitji í fyrsta lagi fulltrúar þriggja háskólastofnana, þ.e. Orðabókar Háskólans, heimspekideildar Háskólans og Háskólaráðs. Í öðru lagi sitji í nefndinni átta fulltrúar ýmissa stofnana og samtaka sem samkvæmt lögum eða vegna eðlis síns hafa mikil áhrif á málfar almennings. Í þeim efnum gerir frv. ráð fyrir örnefnanefnd Kennaraháskóla Íslands, Ríkisútvarpinu, Þjóðleikhúsinu, Staðlaráði Íslands, Samtökum móðurmálskennara, Rithöfundasambandi Íslands og Blaðamannafélagi Íslands. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að í nefndina komi átta fulltrúar annarra félaga og stofnana eða samtaka sem fást við málrækt eða hafa mikil áhrif á málfar almennings. Í þessum efnum er í greinargerð frv. bent á aðila eins og aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, Fóstrufélag Íslands, bókaútgefendur, leikhús, önnur en Þjóðleikhúsið, Samtök leikara, Félag höfunda fræðirita, Samtök auglýsenda, Námsgagnastofnun og Íslenska málfræðifélagið. Auðvitað mætti hugsa sér að fleiri aðilar kæmu þarna til, en ég sé þetta þannig fyrir mér í framtíðinni að um verði að ræða mismunandi aðila sem skipi þennan átta manna hóp og ráðherra kallar til hverju sinni.
    Við gerum ráð fyrir því að þessi fjölmenna íslenska málnefnd komi saman ekki sjaldnar en einu sinni á ári. Hún á þess vegna fyrst og fremst að vera vettvangur fyrir stefnumörkun og mikilsverðar ákvarðanir í málræktarstarfi, en stjórnin á að sinna þeim verkefnum sem afgreiða þarf án langrar tafar eða eru sérfræðilegs eðlis.
    Þessi breytingartilllaga á íslenskri málnefnd er unnin af málnefndinni og Íslenskri málstöð í framhaldi af bréfi sem ég skrifaði málstöðinni fyrir nokkrum vikum. Ég vil taka það fram að svipað fyrirkomulag hefur verið á yfirstjórn málræktarstarfs t.d. í Noregi um langt skeið þar sem mikill fjöldi aðila hefur verið kallaður til þess að sinna störfum í viðkomandi málnefnd og það hefur gefist vel. Ég held að eitt aðalatriðið í þessu verki sé að sem allra flestir skynji að þeim kemur málið við, sem allra flestir séu
þátttakendur í því að verja tunguna og treysta hana og gera hana úr garði með þeim hætti að þar séu menn einnig að aðlaga hana að nýjum verkefnum og vandamálum hvers tíma. Málstaður íslenskrar tungu má aldrei verða eingöngu sérfræðingamálstaður. Hann þarf að vera málstaður þjóðarinnar í heild og á þeirri hugmyndafræði byggir þetta frv., virðulegi forseti. Ég legg því til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.