Íslensk málnefnd
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Mér finnst ákaflega leiðinlegt fyrir menntmrh. að tala yfir tómum sal í þessu merka máli og öldungis ekki hægt að una því að Alþingistíðindi fari á þrykk án þess að þar sjáist að nokkur manneskja hafi tekið undir við hann eða lýst stuðningi við frv. Það er eiginlega eingöngu fyrir þær sakir að kom ég upp í stólinn því að ég hafði ekki hugsað mér að tala í þessu máli. Þegar ég nú sé að enginn ætlar að gera það vildi ég samt sem áður láta í ljós að mér finnst að þarna sé um mjög gott málefni að ræða sem sem nauðsynlegt er að taka á og fylgja eftir.
    Mér finnst þessi útvíkkun íslenskrar málnefndar, ef svo mætti segja eða þess grundvallar sem íslensk málnefnd starfar á, mjög við hæfi nú þegar íslensk tunga á í vök að verjast, sem ég held að öllum beri saman um að enginn vafi sé á. Því er bæði tímabært og þarft að taka á þessu máli eins og gert er hér. Ég vil lýsa yfir mínum stuðningi við frv. og þakka það framtak sem er sýnt með þessu. Ég lýsi líka ánægju minni með að sjá hvað þetta á að taka til margra stofnana vítt um þjóðfélagið. Mér finnst einnig mjög mikilvægt að sjá að uppeldisþættinum er ekki gleymt á þessum stað því að Fóstrufélaginu er ætlað að koma þarna við sögu. Þar held ég að þurfi jafnvel að byrja því að það er e.t.v. að verða liðin tíð að börn læri málið við móðurkné, eins og einu sinni var. Það er að verða minni og minni tími sem foreldrum gefst til að ræða við sín börn og þá skiptir öllu máli að það fólk, sem hefur uppeldishlutverkið með höndum í meiri eða minni mæli, sé starfi sínu vaxið á þessu sviði eins og öðrum. Ég held einnig að mjög þarft og brýnt sé að taka til athugunar málfar á bókum sem lesnar eru fyrir yngstu börnin, bæði þýddum og frumsömdum, og þann kveðskap sem þeim er kenndur og ætlað að syngja. Sumt af því er með þeim hætti að ekki ætti að sjást eða heyrast. Ég vona að það verði tekið á þeim þætti ekki síður en öðrum eftir því sem starfið þróast. Ég vil að lokum endurtaka það að mér finnst frv. mjög þarft og gott og ég lýsi yfir stuðningi mínum við það.