Íslensk málnefnd
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Norðurl. e. fyrir góðan stuðning við þetta mál og næman skilning á forsendum þess. Satt að segja kom mér það ekkert á óvart að einmitt þessi þingmaður skyldi kveðja sér hljóðs um þetta mál í ljósi þeirra viðtala sem við höfum átt um það og reyndar fleira sem ég hef séð og heyrt til þingmannsins á umliðnum árum.
    Ég er alveg sannfærður um að þessi málstaður sem við erum hér, ég og hv. þm., að tala fyrir á geysimikinn hljómgrunn og mikinn stuðning. Spurningin er aðeins um hvort stjórnvöld beri gæfu til þess að virkja almenning til þátttöku í þessu efni, kalla fleiri til verka en verið hefur og gæta þess að sem allra, allra flestir geti verið með, bæði almenningur og ekki síður börnin því að við náum aldrei fullnaðarárangri í þessu öðruvísi en að unglingarnir verði með okkur í þessu verki. Mér fannst það því einn af ánægjulegustu viðburðunum sem ég hef kynnst þann tíma sem ég hef verið menntmrh. þegar það kom til mín sveit frá Æskulýðssambandi Íslands, bauðst til þess að skipuleggja móðurmálsviku í skólum landsins í haust. Hún verður skipulögð, það er ákveðið, undir yfirskriftinni: ,,Íslenskan, það er málið.``
    Ég kvaddi mér eingöngu hljóðs til þess að þakka hv. 7. þm. Norðurl. e. góðan stuðning við þetta mál.