Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og reyndar hv. 2. þm. Norðurl. e. lýsa óánægju okkar kvennalistakvenna með þann skort á samráði sem ég tel vera hér þessa dagana. Árangur starfs okkar verður enginn ef ekki er vel skipulagt, en nú hefur það gerst tvo daga í röð að fundatíma hefur verið breytt án samráðs við þingflokka, ákvarðanir einfaldlega teknar og birtar í formi tilkynninga. Fundatíma var breytt í gær, það gerist síðla kvölds, þá vorum við með vegáætlun til umfjöllunar. Það lá mikið á að koma henni til nefndar sem von er. Það þarf að afgreiða hana fyrir þinglok í vor, en þegar til átti að taka reyndust stjórnarliðar ekki vera nógu margir í húsinu til þess að hægt væri að afgreiða hana til nefndar á mánudagskvöldið. Þetta er með öllu óverjandi og ekki hægt að una við.
    Ef það er í raun ætlun ríkisstjórnarinnar að ljúka þingstörfum 6. maí, eins og ráð er fyrir gert í starfsáætlun, verður að skipuleggja störfin í samráði bæði við þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu og starfsfólk þingsins. Í gær og í fyrradag litum við samtals 30 ný stjórnarfrumvörp augum í fyrsta skipti og það segir sig sjálft að það gefst tæpast tími til að kynna okkur þau sem skyldi þar sem nefndarfundir eru alla morgna og ýmsir aðrir fundir langt fram á kvöld. Það eru því eindregin tilmæli mín til hæstv. forseta að reynt verði með sæmilegum fyrirvara að gefa a.m.k. út tilkynningar, helst að hafa samráð við þingflokka um fundahaldið í þinginu og er nauðsynlegt að fá að vita hvenær er ætlunin að taka hin ýmsu frumvörp fyrir og hvort yfirleitt er ætlunin að afgreiða þau fyrir þinglok í vor. En ég minni á að hér liggja líka mörg önnur mál þingmanna. Sl. mánudag munu hafa verið skráð alls 65 ný mál inn í þingið, þar af voru 27 stjfrv., og það eru eflaust mörg þessara mála sem þarf að afgreiða ekki síður en mál hæstv. ríkisstjórnar.
    En ég ítreka enn og aftur að ef það eru enn áform ríkisstjórnarinnar að ljúka þinghaldinu eins og ráð er fyrir gert í áætlunum verði starfið skipulagt í samráði við alla sem hér eiga að vinna og minni á að uppskeran í sumar fer alveg eftir því hvernig tiltekst með vorverkin.